Hoppa yfir valmynd

Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 5 árum síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.

16. október 2018

Átaksverkefni um vinnuvernd hjá starfsmönnum starfsmannaleiga

Evrópskt átaksverkefni

Vinnuvernd hjá starfsmönnum starfsmannaleiga

 

Eftirlitsátak

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru 26 starfsmannaleigur starfandi hérlendis í ágúst sl. og fjöldi starfsmanna sem voru ráðnir hjá þeim 1.572. Eftirlitsátak Vinnueftirlitsins beinist í þessari atrennu að starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum í bygginga- og mannvirkjagerð. Alls verða heimsótt um 25-30 starfsmannaleigur. Framkvæmd átaksins er þegar hafin og áætlað er að það standi út nóvember 2018.

Starfsmenn starfsmannaleiga í aukinni hættu

ByggingavinnustaðurSamkvæmt evrópskum rannsóknum eru vinnuslys tíðari hjá starfsmönnum starfsmannaleiga en öðrum starfshópum. Starfsmenn starfsmannaleiga eru oftast karlkyns (61%) og ungir að árum ásamt því að vera oftar ófaglærðir. Þeir koma oft að nýjum verkefnum sem krefjast tiltekinnar færni en fá minni fræðslu og upplýsingar um vinnuvernd en aðrir hópar. Þeir eru m.a. minna upplýstir um mögulegar hættur sem fylgja því starfi sem þeir takast á hendur borið saman við aðra hópa.

Fjöldi þeirra sem starfa á vegum starfsmannaleiga í Evrópu fer vaxandi og því afar mikilvægt að huga vel að þessum hópi sem hefur sýnt sig að vera í meiri hættu á heilsutjóni en aðrir hópar. Vinnueftirlitið tekur því nú þátt í upplýsinga- og eftirlitsátaki á vegum evrópskra vinnueftirlita sem beinist að starfsmannaleigum og starfsmönnum þeirra hjá notendafyrirtækjum.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu átaksins.

Notendafyrirtæki ereinstaklingur, félag, opinber aðili eða annar sem stundar atvinnurekstur og hefur á grundvelli þjónustusamnings leigt starfsmann af starfsmannaleigu gegn gjaldi til að sinna tímabundnum störfum á vinnustað sínum undir verkstjórn sinni.

Markmið og áherslur

Leiðarljós átaksins er sú mikilvæga staðreynd að starfsmenn starfsmannaleiga eiga rétt til sömu vinnuverndar og ráðnir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem nýta sér starfsmannaleigur.

Markmið átaksins er að efla vinnuverndarstarf meðal atvinnurekenda, starfsmanna og samtaka á vinnumarkaði í hverju landi og innan Evrópu til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna starfsmannaleiga.

Áhersla verður lögð á að upplýsa forsvarsmenn starfsmannaleiga og notendafyrirtækja um skyldur þeirra og ábyrgð til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna starfsmannaleiga og hvetja þessa aðila til góðs samstarfs á því sviði. Jafnframt verður lögð áhersla á að upplýsa starfsmenn á vegum starfsmannaleiga um rétt þeirra til góðrar vinnuverndar.

Taka þarf mið af eftirfarandi:

  • Notendafyrirtæki og starfsmannaleiga skipuleggja og stýra störfum starfsmanna starfsmannaleiga. Báðir aðilar skulu huga að öryggi og heilsu þeirra og hafa samráð þar um.
  • Notendafyrirtækið er ábyrgt fyrir öryggi og heilsu starfsmanna starfsmannaleiga á hverjum vinnustað.
  • Tryggja þarf viðvarandi upplýsingaflæði til starfsfólks starfsmannaleiga varðandi öryggi, heilsu, sértækar áhættur og einstaka þætti starfs áður en verktímabil hefst og meðan á verktímabili stendur.

Gátlistar og fræðsluefni

Þróuð hefur verið sameiginleg nálgun við eftirlit og verkfæri mótuð til að nota við eftirlit með starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum í þátttökulöndunum. Gátlista átaksins fyrir starfsmannaleigur og notendafyrirtæki má nálgast á heimasíðu Vinnueftirlitsins en gátlistarnir eru bæði á íslensku og ensku.

Fræðsluefni sem dreift er í heimsóknum Vinnueftirlitsins er einnig á íslensku og ensku og að hluta til á pólsku, þ.e. það efni sem ætlað er starfsmönnum.

Niðurstöður

Í átakinu er lögð áhersla á að auka gagnkvæma aðstoð milli vinnueftirlitanna innan Evrópu. Átakið hefur verið kynnt aðilum vinnumarkaðarins og öðrum eftirlitsstofnunum hérlendis. Aðalframkvæmdin verður nú á haustmánuðum 2018. Eftir átakið verður tekin saman skýrsla yfir stöðuna á Íslandi sem verður kynnt en jafnframt mun heildarskýrsla með niðurstöðum allra þátttökulanda verða birt um mitt árið 2019.