Hoppa yfir valmynd

Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 4 árum síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.

3. apríl 2020

Góð ráð í fjarvinnu

God-rad-i-fjarvinnu

Veruleiki margra nú á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir er sá að þurfa að sinna starfi sínu í fjarvinnu. Því fylgja ýmsar áskoranir. Hér má finna ráð sem gott er að hafa í huga. Um leið er mikilvægt að sætta sig við að lífið og tilveran er tímabundið farin úr skorðum. Hægt er að gera sitt besta en viðbúið er að hlutirnir skolist svolítið til. Gott er að reyna að tileinka sér ákveðið æðruleysi gagnvart því.

 

Haltu rútínu

Stilltu vekjaraklukkuna og reyndu að hefja vinnudaginn á svipuðum tíma og venjulega.

Fáðu þér morgunmat.

Farðu yfir fréttir dagsins.

Farðu í sturtu og hafðu þig til. Það er mikilvægt upp á sjálfsvirðinguna að gera og eins gætir þú þurft að sitja fjarfundi og taka myndasímtöl.

Ekki vinna í náttfötunum en um að gera að fara í þægileg vinnuföt.

… „farðu“ í vinnuna.

Komdu þér upp vinnuaðstöðu

Finndu snyrtilegan stað á heimilinu þar sem þú getur fengið frið og einbeitt þér.

Reyndu að forðast að vinna þar sem þú ert vön/vanur að slappa af eins og í sófanum eða í rúminu.

Hugaðu vel að vinnuumhverfinu og líkamsbeitingu við vinnu. Sjá nánar hér .

Gættu að hreinlæti á heimilinu og takmarkaðu gestagang. Hafðu í huga að tilgangurinn með heimavinnu á tímum COVID-19 er að draga úr smithættu og á það jafnt við heima og á vinnustað.

Skilgreindu vinnutímann

Komdu þér upp skilgreindum vinnutíma og upplýstu samstarfsfólk þitt og fjölskyldumeðlimi um hann.

Taktu hádegishlé og kaffipásur og reyndu að forðast að borða yfir tölvunni. Það gæti líka verið sniðugt að fara í rafræna kaffipásu með vinnufélögunum til að líkja sem mest eftir venjulegum vinnudegi.

Stattu reglulega upp, teygðu úr þér og viðraðu þig ef þarf.

Slökktu á tölvunni þegar vinnudegi lýkur.

Leggðu vinnuna til hliðar. Sinntu heimili, börnum, hreyfingu, útivist eða öðrum áhugamálum.

Hvað með börnin?

Ef börn eru á heimilinu og eru heima hluta úr degi eða jafnvel allan daginn þarf að gera sérstakar ráðstafanir. Sjá nánar hér .

Þær fara eftir aldri og þroska barnanna. Sum geta unað sér við tiltekin verkefni hluta úr degi en önnur þurfa stöðuga umönnun.

Ef báðir foreldrar vinna heima er hægt að skiptast á að sinna börnum. Taka til dæmis tveggja klukkustunda vinnutarnir sitt á hvað yfir daginn.

Ef ekki næst að klára nauðsynleg verkefni með þeim hætti getur í einhverjum tilfellum þurft að nýta kvöld og helgar en ætti þó að reyna að halda því í lágmarki enda yfirleitt næg önnur verkefni sem liggja fyrir hjá fjölskyldum á þeim tíma.

Ef um einstæða foreldra er að ræða og börnin eru ung getur þurft að nýta stuðningsnetið en sé það takmarkað getur reynst verulega erfitt að sinna fullu dagsverki.

Mikilvægt er að starfsmaður og vinnuveitandi meti það í sameiningu hversu mikið vinnuframlag raunhæft er að starfsmaðurinn inni af hendi að heiman miðað við aðstæður hvers og eins. Í þeim efnum er mikilvægt að starfsmaðurinn sé hreinskilinn og að vinnuveitandi sýni aðstæðum hans skilning. Að öðrum kosti er hætt við því að það skapist of mikil streita.

Haltu einbeitingu við vinnuna

Í fjarvinnu inn á heimili er meiri þörf fyrir skipulag en ella og gott að gera plan fyrir vikuna og svo aftur fyrir hvern dag.

Ef þú starfar í teymi er gott að gera plönin þín sýnileg öðrum teymismeðlimum. Þar kemur fram hvaða verkefnum þú hyggst sinna og hver forgangsröðun þeirra er. Þetta hjálpar þér að halda þér við efnið.

Haltu teyminu þínu upplýstu um framvindu verkefna.

Þegar þú þarft að einbeita þér sérstaklega er gott að upplýsa heimilisfólk, ef það er á staðnum, um að þú þurfir frið og slökkva á tilkynningum á samfélagsmiðlum á meðan.

Vertu fyrirmyndarþátttakandi á fjarfundum

Fjarfundir hafa færst mikið í aukana samhliða aukinni fjarvinnu. Fyrir mörgum er hér um að ræða nýja samskiptaleið og er gott að tileinka sér eftirfarandi:

Hafðu kveikt á myndavélinni þannig að allir sjái þig og þú sjáir aðra.

Sittu fyrir framan myndavélina og horfðu í hana, þannig að fólki finnist það hafa augnsamband og þið séuð sannarlega saman á fundi.

Slökktu á hljóðnemanum á meðan aðrir tala. Þú getur hlustað á þá en þeir truflast ekki af umhverfishljóðum í kringum þig á meðan. Kveiktu á nemanum þegar þú tekur til máls.

Vertu virkur þátttakandi á fundinum. Ekki reyna að gera marga hluti í einu eins og að lesa tölvupósta, svara skilaboðum eða vera í símanum á meðan aðrir eru að tala.

Gættu að því að allir fái rödd. Sumir eiga það til að tala meira en aðrir en mikilvægt er að allir fái tækifæri til að tjá sig, bera fram spurningar, ræða verkefni og deila hugmyndum. Þannig eru mestar líkur á að vinna hópsins verði skilvirk.

Í því samhengi er mikilvægt að velja einhvern sem stjórnar fundinum, ef það er ekki skilgreint fyrir fram, og leggja til að fólk biðji um orðið með því að rétta upp hönd eða skrifa nafnið sitt í opinn spjallþráð sem gefur til kynna að viðkomandi vilji fá orðið.

Ekki gleyma því að manneskjan er félagsvera

Félagsleg einangrun og einmanaleiki getur verið fylgifiskur heimavinnu.

Því getur verið gott að hafa spjallþráð til samstarfsfélaga eða teymis opinn til að hafa félagsskap og svo hægt sé að gantast á milli. Þá er líka auðveldara að biðja um hjálp, spyrja spurninga eða fá endurgjöf.

Eins getur verið gott að samstarfsfólk skipuleggi vettvang til að ræða lífið og tilveruna inn á milli. Til að mynda rafræna kaffipásu.

Þá er hægt að deila myndum og myndböndum af vinnuaðstöðunni, gæludýrinu, kaffibollanum, makanum, börnunum, sokkunum og svo framvegis til að létta lund.

Heimildir: