Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2022

Góð vinnustaðamenning er forvörn gegn einelti

Samantekt

Dagurinn í dag er tileinkaður baráttunni gegn einelti. Ljóst að margt starfsfólk hefur upplifað eða orðið vitni að einelti í starfsumhverfinu sem veldur vanlíðan fólks og hamlar árangri fyrirtækja.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins

Meðfylgjandi grein eftir Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins, birtist í Morgunblaðinu á degi gegn einelti 8. nóvember 2022.

Rætur eineltis geta teygt anga sína víða en menningin á vinnustöðum getur verið frjósamur akur fyrir neikvæð samskipti og viðhorf. Oft getur verið erfitt fyrir bæði stjórnendur og starfsfólk að átta sig á hvernig menningin mótar samskipti og hegðun í vinnuumhverfinu enda flestir orðnir hluti af henni. Við slíkar aðstæður einkennast samskiptin gjarnan af virðingarleysi þar sem starfsfólk hvorki virðir né hlustar á skoðanir hvers annars, segir síður hug sinn af ótta við ágreining eða umtal og hræðist afleiðingar mistaka. Hún getur einnig haft áhrif á það hvernig leyst er úr ágreiningi og hvort það þyki í lagi að virða ekki mörk annarra.

Óheilbrigð vinnustaðamenning einkennist oft af meðvirkni og neikvæðu umtali sem smitar út frá sér innan starfsmannahópsins. Hún skapar kjöraðstæður fyrir skaðlega hegðun á borð við einelti, sem fær jafnvel að vaxa og dafna án þess að nokkur taki eftir því fyrr en einhver úr hópnum fær nóg og stígur fram, flestum að óvörum.

Það er því mikilvægt að öll á vinnustaðnum, stjórnendur og starfsfólk, hugi vel að því hvernig vinnustaðamenningin er og hvernig hún birtist í samskiptum, hegðun og viðhorfum. Flest erum við hluti af þeirri menningu sem einkennir vinnustaðinn sem við tilheyrum og þess vegna þurfum við öll að axla ábyrgð. Meðal annars með því að huga að okkar eigin viðhorfum og hegðun.

Góð forvörn gegn einelti er því að nýta daginn í að íhuga hvað einkennir vinnustaðamenninguna á eigin vinnustað og hvað við sjálf getum gert til að stuðla að og viðhalda jákvæðri og uppbyggilegri vinnustaðamenningu.

Munum að við höfum öll áhrif.