Hoppa yfir valmynd

Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 2 árum síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.

7. desember 2020

Ný lög um vernd uppljóstrara – leiðbeiningar og verklag

Lög um vernd uppljóstrara taka gildi 1. janúar næstkomandi. Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi fyrirtækja og þannig dregið úr slíku hátterni. Fyrirtæki sem eru að jafnaði með 50 starfsmenn eða fleiri í vinnu þurfa að setja sér reglur um verklagið í samráði við starfsmenn.

Til að ná markmiðum laganna er starfsmönnum heimilað að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða um aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns til aðila sem stuðlað geta að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi.

Þannig er starfsmönnum heimilt þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu að miðla upplýsingum til aðila innan fyrirtækisins, til dæmis næsta yfirmanns. Sömuleiðis til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila. Má þar nefna umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins. Þegar um er að ræða starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtækja sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er þó ekki um heimild að ræða heldur skyldu.

Meginreglan er að ytri uppljóstrun, til dæmis til fjölmiðla, er ekki heimil nema innri uppljóstrun innan fyrirtækis, til lögregluyfirvalda eða opinberra eftirlitsaðila hafi fyrst verið reynd til þrautar.

Lögin kveða á um vernd til handa starfsmönnum sem upplýsa um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns. Verndin felur í sér að miðlun upplýsinga telst ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu, sem starfsmaðurinn er bundinn af. Slík miðlun felur heldur ekki i sér refsi- eða skaðabótaábyrgð viðkomandi og getur ekki leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti.

Í lögunum er kveðið á um að í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum þar sem að jafnaði eru 50 starfsmenn á ársgrundvelli verði, í samráði við starfsmenn, settar reglur um verklagið. Tilgangur þess er að auðvelda starfsmönnum að nýta sér lögin og til að auðvelda vinnuveitendum að bregðast við slíkri miðlun.

Vinnueftirlitinu hefur verið falið eftirlit með því að vinnuveitendur setji sér slíkar reglur og er ætlað að birta fyrirmynd að þeim fyrir fyrirtæki hér á vefnum.

Hér eru nokkur atriði sem vinnuveitendur þurfa að hafa í huga við gerð slíkra reglna:

  • Slíkar reglur eiga að vera til staðar í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum með 50 starfsmenn eða fleiri frá 1. janúar næstkomandi.
  • Við gerð slíkra reglna skal hafa samráð við starfsfólk.
  • Reglurnar skulu vera aðgengilegar öllum starfsmönnum.
  • Reglurnar mega ekki takmarka rétt starfsmanna samkvæmt lögum um vernd uppljóstrara.

Hér er hægt að nálgast fyrirmynd að reglum um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi fyrir fyrirtæki í meirihlutaeigu einkaaðila.

Hér má svo finna ítarlegri umfjöllun um lögin og frekari leiðbeiningar.