Hoppa yfir valmynd

Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 4 árum síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.

24. september 2018

Ný reglugerð um gerð persónuhlífa

Reglugerð nr. 728/2018 um gerð persónuhlífa hefur tekið gildi hér á landi eins og á öllu evrópska efnahagssvæðinu.

Markmið nýrrar reglugerðar er að tryggja að allar þjóðir Evrópu markaðssetji eingöngu öruggar persónuhlífar. Áhersla er á að heilsu- og öryggiskröfur og samræmismatsaðferðir séu eins í öllum aðildarríkjunum og á evrópska efnahagssvæðinu.

Reglugerðinni er ætlað að setja skýrar og nákvæmar reglur sem ekki gefa tækifæri á mismunandi aðlögun ríkjanna, eins og núverandi tilskipun hefur þótt gefa tækifæri á.

Reglugerðin byggir á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/425 og kemur hún í stað tilskipunar 89/686/EBE. Jafnframt hafa fallið úr gildi reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa til nota á vinnustöðum og reglugerð nr. 635/1999 um persónuhlífar til einkanota.

Margar skyldur eru settar á framleiðendur persónuhlífa, t.d. um:

  • merkingar vörunnar
  • kröfur um CE-merkingar á allar persónuhlífar
  • nýja ESB-samræmisyfirlýsingu ( gerðaprófunarvottorð ) sem uppfyllir nýju reglugerðina og gefin skal út með tímamörkum og verður hámarks gildistími hennar fimm ár
  • notkunarleiðbeiningar á íslensku og tæknigögn
  • að taka persónuhlífar af markaði ef í ljós kemur að þær uppfylla af einhverjum ástæðum ekki kröfur reglugerðarinnar.

Ábyrgð

Allir þeir aðilar sem koma að framleiðslu, innflutningi, heildsölu eða sölu á persónuhlífum samkvæmt nýrri reglugerð verða ábyrgir fyrir að þær vörur sem þeir bjóða uppfylli kröfurnar í reglugerðinni. Þetta er ein af megin breytingunum. Í raun eiga þessir aðilar að hafa sömu ábyrgð og framleiðandi persónuhlífanna. Það er því afar mikilvægt að framleiðendur, innflytjendur og söluaðilar persónuhlífa kynni sér vel innihald nýrrar reglugerðar og fari strax að vinna samkvæmt henni.

Ný reglugerð á að auka öryggi og heilbrigði notenda persónuhlífa.
Fleiri aðilar en áður eiga að tryggja að persónuhlífarnar á markaðnum séu í lagi.
Gamlar og útrunnar persónuhlífar eiga að hverfa fyrr af markaðnum.

Markaðseftirlit

Markaðseftirlit með persónuhlífum er tvískipt hér á landi. Um er að ræða markaðseftirlit Vinnueftirlitsins með persónuhlífum sem ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum og markaðseftirlit Neytendastofu með persónuhlífum sem ætlaðar eru til einkanota.