Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2024

Óskað eftir umsóknum um styrki til rannsókna á vinnuvernd og brotastarfsemi á vinnumarkaði

Samantekt

Norrænt samstarf um vinnuvernd, sem er á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, óskar eftir umsóknum um styrki til rannsókna á vinnuvernd og brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Markmiðið er að auka þekkingu á sambandi brotastarfsemi á vinnumarkaði og vinnuverndar. Eins að komast að því hvaða aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði geta bætt vinnuvernd. Tilgangurinn er jafnframt að auka almennt samfélagsvitund um brotastarfsemi á vinnumarkaði og vinnuvernd.

Norræna vinnuverndarnefndin sækist eftir að styrkja rannsóknir sem leiða til aukinnar þekkingar og raunhæfra lausna sem sérfræðingar og eftirlitsaðilar á sviði vinnuverndar geta nýtt til að taka á  brotastarfsemi á vinnumarkaði í framtíðinni.

Allar nánari upplýsingar um hvers kyns rannsóknir koma til greina, hverjir geta sótt um og forsendur umsókna er að finna á vef norræns samstarfs.

Umsóknarfrestur er til klukkan 15:00 þann 15. febrúar 2024. Áætlaðar hafa verið 1.150.000 danskra króna, eða um 23 milljónir íslenskra króna, í styrki sem dreifast til viðeigandi verkefna. Verkefni mega standa lengur en eitt ár en skal vera lokið fyrir árslok 2025. Öllu fénu verður úthlutað árið 2024 og er ætlast til að verkefnum verði lokið með því fjármagni.