Hoppa yfir valmynd

Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 3 árum síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.

15. nóvember 2019

Samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undirritað

Undirritun

Stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði gerðu í dag, að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf og samráð gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Samkomulagið var undirritað í Ráðherrabústaðnum.

„Markmið samningsins er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði lúti þeim lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Samvinna stjórnvalda er mikilvæg við að stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði hvort sem um er að ræða félagsleg undirboð eða annars konar brot í ljósi sameiginlegra hagsmuna launafólks, atvinnulífsins og samfélagsins alls. Markmiðið er að regluverk á vinnumarkaði verði skilvirkt“,

sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins var áréttað mikilvægi aðgerða gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Í lífskjarasamningnum er kveðið á um að þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði (lögreglan, ríkisskattstjóri, Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun) geri með sér fyrrnefnt samkomulag. Framangreindur samstarfsvettvangur var í dag kallaður saman og skrifuðu forstöðumenn stofnananna fjögurra sem um ræðir undir samstarfssamninginn.

Við það tækifæri kom fram skýr vilji allra þessara aðila til þess að þétta raðirnar og efla samvinnu þessara stofnana í því skyni að koma í veg fyrir brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Voru aðilar sammála um að hér á landi mætti ekki viðgangast að réttindi launafólks væru virt af vettugi. Slíkt grefur undan heilbrigðum vinnumarkaði og væri engum til framdráttar, hvorki atvinnulífinu sjálfu né samfélaginu.

Hópnum er ætlað að vinna saman að eftirliti á vinnumarkaði á grundvelli þeirra heimilda sem hvert stjórnvald fyrir sig fer með lögum samkvæmt, ekki síst í forvarnarskyni. Enn fremur er hópnum ætlað að bregðast við og vinna náið með öðrum viðbragðsaðilum eftir því sem við á. Má þar nefna framkvæmdateymi um velferðarþjónustu við þolendur mansals, Útlendingastofnun, Tollstjóra og því sveitarfélagi sem í hlut á hverju sinni, komi upp grunur um brot á vinnumarkaði.

Í lífskjarasamningnum er jafnframt kveðið á um að formbundið verði reglulegt samráð og samstarf þessa samstarfsvettvangs við aðila vinnumarkaðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit. Næstu skref hins nýstofnað samstarfsvettvangs er að hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins um frekara samstarf til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð.