Hoppa yfir valmynd

Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 2 árum síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.

3. desember 2020

Starfsstöðin heima

COVID-19 hefur á margan hátt ýtt heimsbyggðinni inn í nýja tíma. Tíma þar sem heima- eða fjarvinna fyrir framan tölvuskjá er orðið helsta vinnuumhverfi starfsfólks, ef slíku er komið við. En þó tækninni hafi fleygt fram og geri það að verkum að hægt sé að inna fjölmörg störf af hendi þrátt fyrir samkomutakmarkanir, þarf að gæta að því að við þessar miklu breytingar á vinnuumhverfi eykst hættan á stoðkerfisvanda. Eins geta þær haft áhrif á andlega líðan starfsmanna. Því þarf að ýmsu að hyggja og bregðast við áður en í óefni er komið.

Að hverju þarf að huga?

Vinnueftirlitið mælir með því að hugað sé vel að vinnuaðstöðunni því annars er hætt við því að vinnutengd stoðkerfisvandamál geri vart við sig fyrr en varir. Slík vandamál geta verið þrálát og því betra að koma í veg fyrir þau með góðum aðbúnaði þegar í upphafi. Grunnviðmið góðs vinnuumhverfis er stillanlegur og góður stóll, borð í góðri vinnuhæð, góð lýsing, tölvuskjár í góðri hæð og auðvelt aðgengi að vinnusvæði. Að sjálfsögðu þarf líka að huga að innilofti og umhverfishljóðum. Mikilvægt er að vinnuveitendur fari yfir þessi atriði með því starfsfólki sem vinnur að stórum hluta annars staðar en á starfstöð, svo sem á heimili sínu, og bendir Vinnueftirlitið á að gera þarf sams konar áhættumat vegna starfstöðva í fjarvinnu og á vinnustað.

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er að finna vinnuumhverfisvísa og ýmsar gerðir af áhættumati sem geta komið að gagni þegar vinnuveitendur og starfsmenn fara yfir vinnuumhverfið í sameiningu með tilliti til þeirra laga sem um það gildir. Þá er þýðingarmikið að aðilar geti rætt saman um hvernig aðstæðum sé best fyrir komið og til dæmis skoðað hvort starfsmaður geti fengið að taka skrifborðsstól, lyklaborð og skjá með sér heim á meðan á fjarvinnu stendur, sé hún tímabundin. Ekki er ráðlegt að bíða of lengi með að laga vinnuumhverfið en bið eftir úrbótum getur orðið kostnaðarmeiri til lengri tíma vegna verkja, fjarvista og minni framleiðni.

Það er einnig þekkt staðreynd að stoðkerfisverkir myndast og/eða aukast þegar setið er lengi við vinnu án hvíldar. Nýleg gögn um áhrif kyrrsetuvinnu á heilbrigði fólks beina athyglinni að líkamsstöðu, einkum setu og vinnu við tölvur sem og skorti á líkamlegri hreyfingu á vinnustöðum. Í fjarvinnu hættir fólki til að sitja of lengi við tölvuna í einu enda engin þörf á því að færa sig á milli herbergja eða hitta vinnufélagana í kaffihorninu. Vinnueftirlitið minnir á mikilvægi þess að standa upp og liðka sig með reglulegu millibili en á heimasíðu stofnunarinnar er meðal annars að finna góð og gagnreynd ráð til að bæta vinnuaðstöðu og líkambeitingu við vinnu sem gætu gagnast í þessu samhengi.

En það er fleira en stoðkerfið sem þarf að hafa í huga. Að vinna heima krefst skipulags því það er ekki alltaf auðvelt að vinna einn í vinnuumhverfi sem ekki er sérhannað fyrir verkefnin. Hætta er á að vinnutíminn lengist og að mörk á milli vinnu og einkalífs verði óskýr sem getur verið streituvaldandi. Eins geta starfsmenn fundið fyrir skorti á formlegum eða óformlegum samskiptum sem og skorti á endurgjöf. Þá geta þeir átt erfiðara með að óska aðstoðar, upplifað að þeir fjarlægist frá starfsmannhópnum og jafnvel að þeir einangrist. Í því ljósi er ekki síður mikilvægt að huga að því hvaða áhrif fjarvinnan hefur á vinnustaðamenningu hvers vinnustaðar og líðan starfsfólks.

Vinnueftirlitið vill nú sem endranær auka vitund um vinnutengd stoðkerfisvandamál og félagslega áhættuþætti í vinnuumhverfinu og mikilvægi forvarna gegn þeim. Vinnueftirlitið hvetur vinnuveitendur, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila til að vinna saman að og vera vakandi fyrir þessum málum nú á tímum breytinga með það að markmiði að tryggja heilbrigt vinnuumhverfi til framtíðar.