Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2023

Ný aðgerðavakning til að efla heilbrigða vinnustaðamenningu

Samantekt

Vinnueftirlitið hóf í dag aðgerðavakninguna #Tökum höndum saman: Eflum heilbrigða vinnustaðamenningu. Henni er hleypt af stokkunum á baráttudegi gegn einelti sem er í dag.

Markmiðið aðgerðavakningarinnar er að vekja athygli á því að heilbrigð vinnustaðamenning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks og er ein áhrifaríkasta forvörnin gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Hún hefur auk þess jákvæð áhrif á árangur og orðspor vinnustaða.

Það er því til mikils að vinna fyrir jafnt atvinnurekendur, stjórnendur og starfsfólk að hlúa að heilbrigðri vinnustaðamenningu.

Vinnustaðamenning eru gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, verklagi og við lausn mála. Þannig hefur hún áhrif á hvernig starfsfólk vinnur og kemur fram hvert við annað.

Stjórnendur ættu því að vera meðvitaðir um það hvernig menningin er á vinnustaðnum. Það kemur fyrir að viðmið og viðhorf séu ríkjandi innan vinnustaða sem ekki eru í samræmi við stefnu þeirra og gildi. Þegar misræmi er þarna á milli er hætta á að starfsfólki líði ekki vel og að vinnustaðurinn nái ekki árangri. Eiga orð stjórnendaráðgjafans Peter Drucker, sem margir þekkja, um að menningin borðar stefnuna í morgunmat þar vel við.

Vinnueftirlitið hefur unnið nýtt fræðslu- og stoðefni um vinnustaðamenningu og frumsýnir nýja sjónvarpsauglýsingu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi vinnuverndar.

Meðal efnis eru myndbönd um vinnustaðamenningu og traust í vinnuumhverfinu ásamt ýmsum hagnýtum ráðum til að efla heilbrigða vinnustaðamenningu og traust. Þá er hægt að kanna þekkingu sína á efninu með því að spreyta sig á fræðslukönnunum og fá upplýsandi svör.

Um er að ræða framhald af aðgerðavakningu sem hófst í febrúar undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni en þar var kynnt til sögunnar fræðsluefni og verkfæri til að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu. Um að ræða samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins, embættis landlæknis og Jafnréttisstofu.

Vinnueftirlitið hvetur stjórnendur og starfsfólk á vinnustöðum landsins til að taka höndum saman, kynna sér efnið og huga að menningunni á sínum vinnustað. Þannig má stuðla að því öll komi heil heim starfsævina á enda.


Meðfylgjandi er sjónvarpsauglýsing með Birni Stefánssyni leikara í leikstjórn Reynis Lyngdals sem ætlað er að vekja athygli á fyrrgreindu efni. Þar er kynntur til sögunnar öryggisdans við grípandi lag til að minna okkur á mikilvægi vinnuverndar í daglegum störfum.

  • Ertu í lagi eftir daginn