Hoppa yfir valmynd
Fréttir

Viltu taka þátt í að koma í veg fyrir einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum?

Samantekt

Vinnueftirlitið auglýsir eftir að ráða öflugan verkefnisstjóra til að minnsta kosti tveggja ára til að leiða þróun á nýrri vefsíðu fyrir félagslegt vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Verkefnið er liður í að fylgja eftir tillögum aðgerðarhóps félags- og barnamálaráðherra í kjölfar #MeToo-hreyfingarinnar sem hófst árið 2017.  Um er að ræða spennandi og framsækið verkefni sem felur í sér einstakt tækifæri til að hafa áhrif á vellíðan starfsfólks á innlendum vinnumarkaði.

Næsti yfirmaður er sviðsstjóri heilsu- og umhverfissviðs Vinnueftirlitsins en viðkomandi mun vinna í nánu samstarfi við þverfaglegt teymi sérfræðinga og hagsmunaaðila á vinnumarkaði.

Möguleikar á starfsstöð eru í Reykjavík, á Akureyri eða Egilsstöðum

Helstu verkefni og ábyrgð

 • Leiða þróun og uppsetningu á nýrri vefsíðu fyrir félagslegt vinnuumhverfi
 • Þróa árangursríkar leiðir til forvarna til að styðja við heilbrigða fyrirtækjamenningu
 • Hanna gagnvirk greiningartæki og fræðsluefni til stuðnings við félagslegt áhættumat
 • Halda utan um samstarfsverkefni og samráðshópa tengda verkefninu
 • Ritstýra útgáfu og uppfærslu efnis á vefsíðu í samráði við fagaðila og ritstjórn.
 • Kynningarmál

Menntunar- og hæfniskröfur

 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, framhaldsmenntun kostur
 • Haldbær reynsla af tengdum störfum á vinnumarkaði
 • Þekking á íslenskum vinnumarkaði
 • Árangursrík reynsla af stjórnun verkefna
 • Leiðtogahæfni og metnaður til að ná árangri.
 • Framúrskarandi samskiptahæfni og reynsla af því að vinna með fjölbreyttum hópi hagsmunaaðila.
 • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
 • Mjög góð íslensku og enskukunnátta í máli og riti
 • Þekking og/eða reynsla af fjölmenningu æskileg
 • Vammleysi svo sem að framkoma á vinnustað og utan hans samrýmist verkefninu

Laun eru samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna en Vinnueftirlitið leggur áherslu á að greiða samkeppnishæf laun.

Umsókn um starfið skal fylgja ferilskrá með upplýsingum um umsagnaraðila sem og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstudd hæfni viðkomandi sem nýtast mun í starfinu. Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um starfið.

Vinsamlegast sækið um á alfred.is. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsóknir gilda í sex mánuði frá því umsóknarfrestur rennur út.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri heilsu- og umhverfissviðs (svava.jonsdottir@ver.is) og Hildur Ösp Gylfadóttir, mannauðsstjóri, (hildur.gylfadottir@ver.is) í síma 550 4600.