Hoppa yfir valmynd
Fréttir

Afmælisráðstefna 19. nóvember: Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar

Samantekt

Vinnueftirlitið fagnar 40 ára afmæli á árinu. Af því tilefni býður stofnunin til afmælisráðstefnu undir yfirskriftinni Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar föstudaginn 19. nóvember næstkomandi. Ráðstefnan verður haldin á Grand hóteli. Hún hefst klukkan 8:30 og stendur til 14:30.

Aðalfyrirlesarar á 40 ára afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar verða Cecilia Berlin, dósent við Chalmers tækniháskólann í Gautaborg, sem mun fjalla um ávinning forvarna gegn hreyfi- og stoðkerfisvanda og Eva Gemzöe Mikkelsen, aðstoðarprófessor í vinnu- og skipulagssálfræði við Syddansk háskólann í Óðinsvéum, sem mun fjalla um ávinning forvarna gagnvart slæmu félagslegu vinnuumhverfi.

Á ráðstefnunni verða einnig fyrirlestrar um mikilvægi vinnuverndar í mannvirkjagerð og kerfisbundins vinnuverndarstarfs á vinnustöðum auk sjálfbærni. Enn fremur verður fjallað um mögulegar ástæður þess að starfsfólk snýr ekki aftur til starfa eftir veikindafjarveru.

Fundarstjóri  verður Bergur Ebbi Benediktsson.

Að fyrirlestrum loknum og matarhléi geta fundargestir valið um þátttöku í fjórum mismunandi vinnustofum þar sem til umræðu verður vinnuvernd í mannvirkjagerð, áhrif rakaskemmda og innilofts á vinnuumhverfi, félagslega vinnuumhverfið og forvarnir gegn hreyfi- og stoðkerfisvanda.

Í ráðstefnulok verða síðan stuttar panelumræður með forystufólki frá samtökum aðila vinnumarkaðarins.

Ráðstefnan er meðal annars ætluð atvinnurekendum, mannauðsstjórum, öryggisnefndum, öryggistrúnaðarmönnum og -vörðum, þjónustuaðilum og sérfræðingum í vinnuvernd ásamt öðrum sem láta sig vinnuvernd varða.

Nánari dagskrá verður auglýst síðar en endilega takið daginn frá.