Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir 1 ári síðan og því er hugsanlegt að innihald hennar eigi ekki lengur við.
Vinnuvernd í verkefnadrifnu hagkerfi – upptaka frá morgunfundi
Samantekt
Vinnueftirlitið stóð fyrir morgunfundi undir yfirskriftinni Vinnuvernd í verkefnadrifnu hagkerfi í samstarfi við Vinnuvistfræðifélag Ísland (VINNÍS) í morgun, í tilefni af Degi vinnuverndar sem Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) stendur að.
Á fundinum var eins og nafnið gefur til kynna fjallað um hið verkefnadrifna hagkerfi (e. Gig economy) sem er í talsverðum vexti bæði hér heima og erlendis. Það einkennist af sveigjanlegum og tímabundnum störfum þar sem sjálfstætt starfandi starfsfólk og verktakar taka að sér tiltekin verkefni en eru ekki í föstu ráðningasambandi.
Kostirnir geta verið aukin skilvirkni, sveigjanleiki og hagkvæmari þjónusta auk þess sem dregið getur úr kostnaði fyrirtækja við yfirbyggingu og laun. Ókostirnir geta verið að starfsfólk njóti ekki sambærilegs öryggis og fríðinda og hefðbundið launafólk eins og trygginga, veikindarétts og launaðs orlofs. Eins hefur verið bent á að erfitt geti reynst að tryggja vinnuvernd starfsfólks og félagslegt vinnuumhverfi.
Fyrirlesararnir komu úr ólíkum áttum og gáfu breiða mynd af þeim áskorunum og tækifærum sem í verkefnadrifnu hagkerfi felast.
Bent var á að verkefnadrifið hagkerfi væri ekki nýtt af nálinni en að aftur á móti væru fleiri störf sem eru minna háð stað og stund að verða til. Talað var um að hægt væri að tryggja öryggi og vinnuvernd fólks í verkefnadrifnu hagkerfi ef vilji væri fyrir hendi en jafnframt bent á að hve mörgu þarf að hyggja í því samhengi svo öryggisnetið virki sem skildi og að langt væri í land. Jákvæð vinnustaðamenning með samvinnu allra aðila að leiðarljósi er lykilþáttur í því að stuðla að öryggi og heilsu starfsfólks á þessum markaði sem og öðrum.