Hoppa yfir valmynd

Verklag við uppljóstrun starfsfólks

Lögum um vernd uppljóstrara er ætlað að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi.

Lög um vernd uppljóstrara - markmið

Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni.

Til að ná markmiðum laganna kveða þau á um heimild fyrir starfsmenn til að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns til aðila innan fyrirtækisins eða til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, til dæmis umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins.

Fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtækja sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er þetta þó ekki heimild heldur skylda.

Vernd starfsmanna

Lögin kveða á um ákveðna vernd til handa starfsmönnum sem upplýsa um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns. Verndin er bundin því skilyrði að starfsmaðurinn fari að ákvæðum laganna og fylgi þeim málsmeðferðarreglum sem þar eru settar.

Verndin felur meðal annars í sér að:

  • Miðlun upplýsinga telst hvorki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu sem starfsmaðurinn er bundinn af né heldur felur slík miðlun í sér refsi- né skaðabótaábyrgð á viðkomandi og getur ekki leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti.
  • Óheimilt er að láta starfsmann sæta óréttlátri meðferð, en til slíkrar meðferðar telst til dæmis að rýra réttindi, breyta starfsskyldum á íþyngjandi hátt eða segja viðkomandi upp störfum.
  • Komi til ágreinings fyrir dómi um stöðu starfsmanns skal honum veitt gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
  • Móttakandi upplýsinga eða gagnanna skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema hinn síðarnefndi veiti afdráttarlaust samþykki sitt fyrir því að leynd sé aflétt.

Meginreglan er að innri uppljóstrun komi á undan ytri uppljóstrun

Meginreglan er að ytri uppljóstrun, til dæmis til fjölmiðla, er ekki heimil nema svokölluð innri uppljóstrun hafi fyrst verið reynd til þrauta.

Með innri uppljóstrun er átt við að starfsmaður greinir frá upplýsingum eða miðli gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda síns til aðila innan fyrirtækisins eða til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, til dæmis umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins.

Ytri uppljóstrun háð skilyrðum

Með ytri uppljóstrun er átt við að starfsmaður greini frá upplýsingum eða miðli gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda síns til aðila utan fyrirtækisins, til dæmis fjölmiðla.

Slík uppljóstrun er þó háð eftirfarandi skilyrðum:

  1. Starfsmaður verður að jafnaði að hafa reynt innri uppljóstrun til þrauta.
  2. Miðlunin verður að vera í góðri trú, það er að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja að gögnin eða upplýsingarnar sem miðlað er séu réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir.
  3. Starfsmaður verður að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að um háttsemi sé að ræða sem getur varðað fangelsisrefsingu.

Ytri uppljóstrun er einnig heimil í algjörum undantekningartilvikum þegar innri uppljóstrun kemur af gildum ástæðum ekki til greina, en með því er átt við að miðlunin teljist í þágu svo brýnna almannahagsmuna að hagsmunir vinnuveitanda eða annarra verða að víkja fyrir hagsmunum af því að upplýsingum sé miðlað til utanaðkomandi aðila, svo sem til að vernda:

  1. Öryggi ríkisins eða hagsmuni ríkisins á sviði varnarmála
  2. Efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins
  3. Heilsu manna
  4. Umhverfið

Starfsmaður upplýstur um viðbrögð móttakanda

Móttakandi upplýsinganna innan fyrirtækis eða stofnunar, það er vinnuveitandi eða fulltrúi hans, skal greina starfsmanninum frá því hvort upplýsingarnar hafi orðið honum tilefni til athafna og þá hverra. Æskilegt er að vinnuveitandi kveði á um tímamörk í verklagsreglum svo starfsmaður túlki ekki tafir sem höfnun erindis eða sem aðgerðarleysi af hálfu vinnuveitanda.

Verklagsreglur hvers vinnustaðar

Lögin gera ráð fyrir að í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum þar sem að jafnaði eru 50 starfsmenn á ársgrundvelli verði, í samráði við starfsmenn, settar reglur um verklagið. Tilgangur þess er að auðvelda starfsmönnum að nýta sér lögin og til að auðvelda vinnuveitendum að bregðast við slíkri miðlun.

Reglurnar skulu vera skriflegar og þar skal kveðið á um móttöku, meðhöndlun og afgreiðslu tilkynninga um hugsanleg lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitandans. Reglurnar skulu vera aðgengilegar öllum starfsmönnum og mega á engan hátt takmarka rétt þeirra samkvæmt lögum þessum.

Hér eru nokkur atriði sem atvinnurekendur verða að hafa í huga við gerð slíkra reglna:

  • Slíkar reglur eiga að vera til staðar í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum með 50 starfsmenn eða fleiri.
  • Við gerð slíkra reglna skal hafa samráð við starfsfólk.
  • Reglurnar skulu vera skriflegar og aðgengilegar öllum starfsmönnum.
  • Reglurnar mega ekki takmarka rétt starfsmanna samkvæmt lögum um vernd uppljóstrara.
  • Í reglunum skal fjalla um hvernig meðhöndlun erinda eigi að vera innan fyrirtækja og hver tekur við þeim.
  • Skynsamlegt er að kveða á um hvenær greina eiga starfsmanni frá því að upplýsingarnar hafi orðið tilefni til athafna og þá hverra eða hvort upplýsingarnar hafi ekki þótt tilefni til athafna, til að starfsmaður túlki ekki tafir sem höfnun erindis eða sem athafnaleysi.

Í lögunum er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra setji sér slíkra reglur fyrir opinberar stofnanir og lögaðila í opinberri eigu. Sveitarstjórnir skulu setja reglur um þá vinnustaði sem undir viðkomandi sveitarfélag heyra og Vinnueftirlitið skal birta fyrirmynd að reglum fyrir aðra vinnustaði á vef sínum. Lögin gera svo ráð fyrir því að Vinnueftirlitið hafi eftirlit með því að vinnuveitendur setji sér líkar reglur.

Fyrirmynd að reglum um verklag við uppljóstrun

Hér er hægt að nálgast fyrirmynd að reglum um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi fyrir fyrirtæki í meirihlutaeigu einkaaðila.

Með innri uppljóstrun er átt við að starfsmaður greinir frá upplýsingum eða miðli gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda síns til aðila innan fyrirtækisins eða til opinberrs eftirlitsaðila.

Með ytri uppljóstrun er átt við að starfsmaður greini frá upplýsingum eða miðli gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda síns til aðila utan fyrirtækisins, til dæmis fjölmiðla. Ytri uppljóstrun er að jafnaði ekki heimil nema innri uppljóstrun hafi fyrst verið reynd til þrautar.

Með góðri trú er átt við að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar sem miðlað er réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir.

Með ámælisverðri háttsemi er átt við hátterni sem stefnir almannahagsmunum í hættu, til dæmis hátterni sem ógnar heilsu eða öryggi fólks eða umhverfi, án þess að um sé að ræða augljóst brot á lögum eða reglum.

Starfsmaður í skilningi reglna þessara er sá sem hefur aðgang að upplýsingum eða gögnum um starfsemi vinnuveitanda vegna hlutverks síns, þar með talinn ráðinn, settur, skipaður, sjálfstætt starfandi verktaki, stjórnarmaður, starfsnemi, tímabundinn starfsmaður og sjálfboðaliði. Starfsmaður nýtur verndar samkvæmt ákvæðum laga um vernd uppljóstrara, eftir að hlutverki hans lýkur.

Starfsmönnum [XXXXXXXX ehf./hf.] er heimilt að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi fyrirtækisins til aðila innan þess sem stuðlað getur að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, t.d. umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins.

Miðlun getur meðal annars verið til næsta yfirmanns starfsmanns [Fjalla skal um hvernig meðhöndlun erinda eigi að vera innan fyrirtækis og hver tekur við þeim].

Móttakanda upplýsinganna eða gagnanna er skylt að stuðla að því að látið verði af hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða brugðist á annan hátt við henni.

Móttakandi upplýsinganna skal greina starfsmanninum frá því hvort upplýsingarnar hafi orðið honum tilefni til athafna og þá hverra. [1]

Móttakandi upplýsinga eða gagnanna skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema hinn síðarnefndi veiti afdráttarlaust samþykki sitt fyrir því að leynd sé aflétt.

Starfsmanni sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum án þess að það hafi leitt til fullnægjandi viðbragða innan fyrirtækisins, er heimilt í góðri trú að miðla umræddum upplýsingum eða gögnum til utanaðkomandi aðila, þar á meðal fjölmiðla, svo fremi sem starfsmaðurinn hefur réttmæta ástæðu til að ætla að um háttsemi sé að ræða sem getur varðað fangelsisrefsingu.

Í algjörum undantekningartilvikum þegar miðlun skv. framangreindu kemur af gildum ástæðum ekki til greina er miðlun til utanaðkomandi aðila heimil án þess að innri uppljóstrun hafi átt sér stað.

Skilyrði er að miðlunin teljist í þágu svo brýnna almannahagsmuna að hagsmunir vinnuveitanda eða annarra verða að víkja fyrir hagsmunum af því að upplýsingum sé miðlað til utanaðkomandi aðila,

svo sem til að vernda:

  1. Öryggi ríkisins eða hagsmuni ríkisins á sviði varnarmála
  2. Efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins
  3. Heilsu manna
  4. Umhverfið

 

[1] Skynsamlegt er að kveða á um tímamörk hér svo starfsmaður túlki ekki tafir sem höfnun erindis.

Miðlun upplýsinga eða gagna að fullnægðum skilyrðum ákvæða laga um vernd uppljóstrara, telst ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu sem starfsmaðurinn er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík miðlun leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á viðkomandi og getur ekki leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti.

Óheimilt er að láta starfsmann sæta óréttlátri meðferð sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum samkvæmt ákvæðum laga um vernd uppljóstrara. Til slíkrar meðferðar telst til dæmis að rýra réttindi, breyta starfsskyldum á íþyngjandi hátt, segja upp samningi, slíta honum eða láta hvern þann sem miðlað hefur gögnum eða upplýsingum gjalda þess á annan hátt. Brot á því getur varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Komi til ágreinings fyrir dómi um stöðu starfsmanns með tilliti til hvort miðlun hafi verið óheimil eða að starfsmaður er látinn sæta óréttlátri meðferð í kjölfar hennar skal veita starfsmanninum gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Gjafsókn fellur niður ef sýnt er fram á fyrir dómi að starfsmaður hafi ekki verið í góðri trú þegar upplýsingum var miðlað.

English

Polski