Nám til viðurkenningar í vinnuvernd
Nám til viðurkenningar í vinnuvernd veitir fræðslu, þekkingu og þjálfun í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Sömuleiðis þekkingu á íslenskum lögum og reglum á sviði vinnuverndar.
Námið er hugsað fyrir:
- Sérfræðinga og þá þjónustuaðila sem sækjast eftir viðurkenningu um að veita þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum
- Fulltrúa fyrirtækis í vinnuvernd sem vilja öðlast frekari þekkingu á gerð áætlana um öryggi og heilbrigði.
Þeir sem sækjast eftir viðurkenningu sem sérfræðingar skulu hafa hlotið menntun á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðrum sambærilegum sérsviðum.
Þeir þurfa einnig að hafa grunnþekkingu til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnuvistfræðilegra þátta, svo sem eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra og sálfræðilegra þátta í vinnuumhverfi samanber grein 4 í reglugerð um viðurkenningu þjónustuaðila og sérfræðinga sem veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum
Grunnkröfur
Þjónustuaðilar og sérfræðingar eru þeir sem veita heildstæða eða takmarkaða þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Þjónustuaðili þarf að hafa aðgang að sérfræðingum eða vera sjálfur sérfræðingur ef hann starfar á eigin vegum.
Fulltrúar fyrirtækja í vinnuvernd eru það starfsfólk sem sinnir vinnuvernd með einum eða öðrum hætti; svo sem öryggisvörður, öryggistrúnaðarmaður, mannauðsstjóri, gæðastjóri eða öryggisstjóri.
Vinnueftirlitinu er falið að meta og veita þeim viðurkenningu sem óska eftir að sinna slíkri þjónustu; heildstæðri eða takmarkaðri samkvæmt 5. grein reglugerðar nr. 730/2012.
Áhættuþættir hafa verið flokkaðir í fimm meginþætti og getur sérfæðingur óskað eftir viðurkenningu í einum eða fleiri þáttum. Hann þarf þá hafa fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðrum sambærilegum sérsviðum og hafa færni til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum truflunum eða óþægindum í vinnuumhverfinu.
Til að hljóta viðurkenningu þurfa sérfræðingar auk þess að standast námið sem hér um ræðir eða hafa lokið sambærilegu námi sem viðurkennt er af Vinnueftirlitinu.
Fulltrúar fyrirtækja í vinnuvernd sem óska eftir því að fá viðurkenningu þurfa að uppfylla sömu skilyrði og þjónustuaðilar og sérfræðingar þeirra. Námið veitir réttindi til viðurkenningar í allt að tvö ár að námi loknu séu önnur skilyrði uppfyllt.
Sjá lista yfir viðurkennda þjónustuaðila, sérfæðinga og meginþætti sem þeir hafa viðurkenningu í.
Innihald og skipulag
Nám til viðurkenningar í vinnuvernd veitir fræðslu, þekkingu og þjálfun í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Sömuleiðis þekkingu á íslenskum lögum og reglum á sviði vinnuverndar.
Námið er stafrænt og aðgengilegt nemendum þegar þeim hentar. Það er opið í 8 vikur frá skráningu.
Gert er ráð fyrir að áhorf á myndböndin, lestur ítarefnis og verkefnavinna taki um 25 klukkustundir.
Fræðslukerfið er opið í allt að fjórar vikur en gert er ráð fyrir að það sé ríflegur tími til að ljúka því.
Nemendur fara yfir myndböndin í tilgreindri röð og þurfa að ljúka því myndbandi sem er á undan í röðinni áður en það næsta opnast. Hægt er að horfa eins oft á myndböndin og þurfa þykir. Nemendur leysa verkefni og þurfa að svara spurningum sem eru lagðar fyrir.
Námsmat byggir á:
- Spurningum sem eru í og á eftir hverjum hluta og þarf nemandi að svara öllum spurningum rétt til að geta haldið áfram.
- Lokaverkefni á því sviði sem nemandi sækist eftir viðurkenningu á.
Umsækjendur eru hvattir til þess að senda inn umsókn um viðurkenningu á netfangið vinnueftirlit@ver.is. Það þarf að gera eigi síðar en þremur vikum áður en sóst er eftir að hefja námið. Þannig er þekking og færni til viðurkenningar metin áður en námið hefst.
Uppbygging námsins og efnisatriði
Viðurkenning þjónustuaðila og sérfræðinga og vinnuverndarfulltrúa:
- Inngangur – kynning á námi
- Hlutverk Vinnueftirlitsins
- Hlutverk og skyldur þjónustuaðila og sérfræðinga
- Lög og reglugerðir
Almennur hluti:
- Vinnuverndarstarf á vinnustöðum
- Heilsuefling og forvarnir á vinnustöðum
- Vinnuslys, atvinnusjúkdómar og forvarnir (fyrirbyggjandi aðgerðir)
- Áætlun um öryggi og heilbrigði
- Aðferðir við áhættumat, úrbótaáætlun og forvarnir
- Fimm meginþættir vinnuverndar
Heildstæð þjónusta byggir á fimm meginþáttum vinnuverndar:
- Félagslegu vinnuumhverfi
- Hreyfi- og stoðkerfi
- Efnum og efnahættum
- Tækjum og vélbúnaði
- Umhverfisþáttum
Þekking og hæfni
Í náminu á nemandi að öðlast:
- Þekkingu í gerð skriflegra áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
- Þekkingu á vinnuverndarstarfi
- Almenna þekkingu á áhættuþáttum í vinnuumhverfi, vinnuskipulagi og við framkvæmd vinnu.
- Þekkingu á þeim lögum og reglugerðum sem ná til vinnuumhverfis, öryggis og heilbrigðis starfsfólks.
- Þekkingu á forvörnum á vinnustað.
- Þekkingu á hlutverki viðurkenndra þjónustuaðila, sérfræðinga og fulltrúa fyrirtækja í vinnuvernd.
- Sértæka þekkingu og þjálfun í gerð áhættumats í þeim megin áhættuþáttum sem sótt er um viðurkenningu á.