Byggingakrananámskeið
Byggingakrananámskeið eru haldin nokkrum sinnum á ári. Standist nemendur bóklegt próf að loknu byggingakrananámskeiði geta þeir hafið verklega þjálfun hjá atvinnurekanda í stjórn og meðferð byggingakrana.
Skipulag
Námskeiðið er 27 tímar, haldið á þremur dögum og að öllu jöfnu innan reglubundins vinnutíma, það er frá klukkan 9.00 til 16.00.
Námskeiðið veitir bókleg réttindi fyrir byggingakrana (AB) og hafnarkrana >18 tm (AH) – A flokkur.
Fyrsti dagurinn kallast fornám og fjallar um vinnuverndarmál, eðlisfræði, vökvafræði, vélfræði, rafgeyma og öryggi við skurðgröft. Dagar tvö og þrjú fjalla um byggingakrana og fleira þeim tengt.
Námskeiðið er að mestum hluta haldið í gegnum Teams-fjarfundakerfið. Þáttakendur þurfa því nettengda tölvu með hljóðnema og hátala/heyrnartólum.
Sá hluti námskeiðsins sem fjallar um vinnuverndarmál er í formi fyrirlestra á netinu (Youtube). Þátttakendur fá sendan sérstakan hlekk á það efni og æskilegt er að búið sé að fara yfir það áður en Teams-kennslan hefst.
Próftaka fer fram á starfsstöðvum Vinnueftirlitsins eða eftir atvikum hjá samstarfsaðilum.
Námskeiðinu lýkur með skriflegu krossaprófi. Krafist er 100% tímasóknar til að ljúka námskeiðinu.
Ef námskeið eru haldin á öðrum tungumálum en íslensku er þess sérstaklega getið í námskeiðsáætlun hér að neðan.
Standist nemendur próf að loknu byggingakrananámskeiði geta þeir hafið verklega þjálfun hjá atvinnurekanda í stjórn og meðferð byggingakrana. Verkþjálfun skal fara fram undir leiðsögn leiðbeinanda sem hefur réttindi til kennslu á byggingakrana og þar sem ekki er margt fólk eða slysahætta.
Þegar nemandi er kominn með staðfestingu á að hafa lokið verklegri þjálfun óskar hann eftir prófdómara frá Vinnueftirlitinu og fer í verklegt próf. Standist nemandi prófið fær hann útgefið vinnuvélaskírteini fyrir byggingakrana. Greiða þarf fyrir verklegt próf og skírteini við próftöku eða áður en próf er tekið.
Með umsókn um vinnuvélaskírteini þarf að fylgja afrit af ökuskírteini. Þegar sótt er um kranaréttindi, fyrir flokka A, B, D og P, þarf viðkomandi að framvísa læknisvottorði.
Það er 16 ára aldurstakmark til að geta setið byggingakrananámskeið en þremur mánuðum fyrir 17 ára afmælisdaginn getur viðkomandi farið að æfa sig á byggingakrana undir leiðsögn einstaklings með kennararéttindi á kranann. Til að fá kranaréttindi verður viðkomandi að vera orðinn 17 ára og hafa bílpróf