Ársskýrsla 2018Árið í hnotskurn
Norræn vinnueftirlitsráðstefna á Selfossi
Norræna vinnueftirlitsráðstefnan var haldin á Selfossi dagana 7. – 8. maí 2018 og var vel sótt. Slík ráðstefna er haldin annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndunum. Þema ráðstefnunnar, sem var haldin í samstarfi við NIVA sem er norræn fræðslustofnun í vinnuvernd, var Árangursríkt eftirlit – betra vinnuumhverfi. Áhersla var lögð á að kynna og dreifa dæmum um árangursríkar aðferðir og nálgun í eftirliti sem gætu verið hvatning til frekari þróunar á Norðurlöndunum.
Evrópskt samstarfsverkefni um eftirlit með starfsfólki starfsmannaleiga
Vinnueftirlitið tók á árinu þátt í evrópsku eftirlitsátaki sem beindist að vinnuaðstæðum starfsfólks starfsmannaleiga en samkvæmt evrópskum rannsóknum eru vinnuslys tíðari hjá starfsmönnum starfsmannaleiga en öðrum starfshópum. Farið var í sérstakt eftirlitsátak sem beindist að starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum í bygginga- og mannvirkjagerð.
Helstu niðurstöður þess voru að töluverður misbrestur var á að upplýsingaflæði milli starfsmannaleiga og notendafyrirtækja væri í samræmi við reglur. Aðeins um þriðjungur notendafyrirtækja upplýsti viðkomandi starfsmannaleigu um þær áhættur sem fylgdu starfinu sem átti að ráða í og hvaða forvarnarráðstafanir væru gerðar til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna, eins og reglur kveða á um. Nánar er gert grein fyrir átakinu hér.
Frekari grein er jafnframt gerð fyrir niðurstöðunum í lokaskýrslu átaksins Safety and Health of Temoprary Agency Workers and Cross-Border Workers.
Áhersla á meðferð hættulegra efna
Vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA) um meðferð hættulegra efna var hleypt af stokkunum á árinu og tók Vinnueftirlitið virkan þátt í því og hélt tvær ráðstefnur um efnið. Önnur var haldin á Akureyri og hin í Reykjavík.
Meðferð hættulegra efna er ein stærsta öryggis- og heilbrigðisváin á vinnustöðum og í tengslum við átakið þýddi Vinnueftirlitið og staðfærða hagnýtt rafrænt verkfæri vegna hættulegra efna sem er aðgengilegt hér án endurgjalds. Tilgangur þess er að auka með hagnýtum hætti vitneskju um hættuleg efni og gera það eins auðvelt og unnt er fyrir fyrirtæki og starfsfólk að meta aðstæður og grípa til aðgerða sem draga úr hættu.
Fundur um vinnu barna og unglinga í samvinnu við umboðsmann barna
Mikil atvinnuþátttaka barna og unglinga hér á landi vakti á árinu upp spurningar um hvernig þau eru undirbúin undir margvísleg störf, hvernig eftirliti er háttað, hve oft þau verða fyrir vinnuslysum, þekkingu atvinnulífsins á þeim reglum sem gilda um vinnu barna og unglinga og þekkingu þeirra sjálfra á réttindum og skyldum. Til að varpa ljósi á þessi mál stóðu umboðsmaður barna og Vinnueftirlitið fyrir fundi um málið þann 8. nóvember.
Á fundinum voru kynntar niðurstöður úttektar á fyrirkomulagi vinnuskóla sveitarfélaganna fyrir 13-15 ára sem umboðsmaður barna stóð fyrir sumarið 2018. Einnig voru kynntar nýjar upplýsingar frá Hagstofunni um atvinnuþátttöku barna eftir atvinnugreinum og aldri. Þá fjölluðu fulltrúar Vinnueftirlitsins um þau lög og reglur sem gilda um vinnu barna og unglinga og skráningu vinnuslysa.
OiRA, rafrænt áhættumat á netinu fyrir skrifstofuvinnu uppfært
Vinnueftirlitið er í samstarfi við Vinnuverndarstofnun Evrópu um OiRA sem er rafrænt gagnvirkt áhættumat á netinu. Síðla árs 2018 var verkfæri fyrir áhættugreiningu á skrifstofuvinnu uppfært.
OiRa hentar öllum sem vilja meta hættu sem snýr að öryggi og heilbrigði á vinnustað þeirra en verkfærið býr til aðgerðaráætlun um úrbætur sem fyrirtækið þarf að framkvæma. Önnur OiRA verkfæri sem búið er að þýða á íslensku eru fyrir veitingahús og mötuneyti, hársnyrtistofur, landbúnað og þá sem vinna við rafmagn.
Könnun á vinnuumhverfi starfsfólks í hótelþrifum
Vinnueftirlitið gerði könnun og úttekt á vinnuumhverfi starfsfólks í hótelþrifum þar sem umfang ferðaþjónustu hafði aukist mikið árin á undan. Stærstur hluti þátttakenda í spurningalistakönnuninni voru konur af erlendum uppruna. Stór hluti svarenda sagði samskipti við næsta yfirmann valda sér streitu en lítill hluti taldi sig vera undir miklu líkamlegu álagi við vinnu sína.
Niðurstöður eftirlitsátaksins leiddu í ljós að margt má bæta í vinnuumhverfi starfsfólks sem sinnir hótelþrifum.
Stjórn Vinnueftirlitsins
Félags- og barnamálaráðherra skipar stjórn Vinnueftirlitsins til fjögurra ára í senn. Hlutverk stjórnar er að vera ráðherra og forstjóra stofnunarinnar til ráðgjafar í málum sem tengjast vinnuvernd. Stjórnarfundir eru að öllu jöfnu haldnir mánaðarlega að frátöldum sumarmánuðunum. Stjórnarmenn eru níu. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Einn stjórnarmaður kemur frá fjármálaráðuneytinu en aðrir stjórnarmenn eru tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins. Varamenn í stjórn eru skipaðir með sama hætti. Tveir áheyrnarfulltrúar starfsfólks sitja einnig stjórnarfundi, annar úr hópi starfsfólks frá BHM og hinn úr hópi starfsfólks frá SFR.
Í stjórn árið 2018 sátu Margrét S. Björnsdóttir, formaður, Björn Ágúst Sigurjónsson og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir frá ASÍ, Georg Brynjarsson frá BHM, Sverrir Björn Björnsson frá BSRB, Jón Rúnar Pálsson og Kristín Þóra Harðardóttir frá SA, Inga Rún Ólafsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Helgi Valberg Jensson frá fjármálaráðuneytinu.