Hoppa yfir valmynd

Ársskýrsla 2018Minningarorð

Eyjólfur Þór Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, lést 5. október 2018. Hann var forstjóri stofnunarinnar frá stofnun hennar í janúar 1981 til dánardags en hafði tekið við embætti Öryggismálastjóra ríkisins árinu áður.

Eyjólfur var mikill áhugamaður um vinnuvernd og bar hag stofnunar sinnar og starfsfólks fyrir brjósti. Hann var óþreytandi í baráttu sinni við að vekja athygli ráðamanna, atvinnurekanda og annarra á mikilvægi þess að atvinnurekendur gerðu áhættumat og innleiddu forvarnir til að koma í veg fyrir slys á starfsfólki sínu. Honum var sérstaklega umhugað um að hlúa vel að ungu fólki sem var að taka fyrstu skrefin sín á vinnumarkaði. Tók hann það sérstaklega nærri sér þegar ungt fólk varð fyrir slysum eða öðrum skakkaföllum við vinnu sína.

Oft var á brattan að sækja í þessum efnum enda tíðarandinn um margt ólíkur því sem við þekkjum í dag er Eyjólfur hóf störf hjá Vinnueftirlitinu. Almennt var lítil þekking á vinnuverndarstarfi og hvorki atvinnurekendur né starfsfólk var endilega meðvitað um hætturnar. Fólk harkaði af sér og lét sig hafa ýmsar aðstæður þar sem það þekkti ef til vill ekki annað. Þessu vildi Eyjólfur breyta og tileinkaði málaflokknum mestan hluta starfsævi sinnar.

Þátttakendur á innlendum vinnumarkaði eiga því eldmóði Eyjólfs og þrautseigju margt að þakka enda ekki maður uppgjafar. Notaði hann hvert tækifæri sem honum gafst til að koma mikilvægi vinnuverndar áleiðis enda þótti honum það eðlileg mannréttindi að fólk gæti starfað við öryggi og góðan aðbúnað á vinnustöðum.

Eyjólfur var virkur þátttakandi í erlendu samstarfi á sviði vinnuverndar og kom hann þar víða fram sem verðugur fulltrúi íslenskra stjórnvalda. Hann var sjálfur hafsjór af fróðleik á þessu sviði sem hann var óeigingjarn á að miðla áfram, bæði hér heima og erlendis. Tók hann þátt í evrópsku og norrænu samstarfi og sat í stjórnarnefnd Vinnuverndarstofnunar Evrópu.

Vinnueftirlitið þakkar Eyjólfi fyrir vel unnin störf í þágu vinnuverndar hér á landi í hartnær 40 ár.