Erlendar samstarfsstofnanir
Alþjóðavinnumálastofnunin
Félagsmálaráðuneytið, sem Vinnueftirlitið heyrir undir, fer með alþjóðlegt samstarf á sviði vinnumála á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization, ILO).
Alþjóðavinnumálastofnunin er ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna en hún hóf starfsemi árið 1919, í kjölfar friðarsamninganna í Versölum sem gerðir voru árið 1918. Ísland gerðist aðili árið 1945, og er eitt 187 aðildarríkja stofnunarinnar.
Alþjóðavinnumálastofnunin hefur þá sérstöðu að hún leiðir saman stjórnvöld, atvinnurekendur og launafólk við að skilgreina og samræma grundvallarréttindi í atvinnulífinu, þar með talið öryggi á vinnustöðum, takmörkun á barnavinnu, afnám nauðungarvinnu og fleira.
Samþykktir tengdar vinnuvernd, sem Ísland hefur fullgilt:
- 81, um vinnueftirlit í iðnaði og verslun.
- 129, um vinnueftirlit í landbúnaði.
- 139, um varnir gegn og eftirlit með krabbameinsvaldandi efnum.
- 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.
- 186, um vinnuskilyrði farmanns.
- 187, um eflingu öryggis og heilbrigðis við vinnu.
Vinnuverndarstofnun Evrópu
Vinnueftirlitið tekur þátt í samstarfsneti landsskrifstofa Vinnuverndarstofnunar Evrópu, ásamt um það bil 30 öðrum ríkjum. Vinnuverndarstofnun Evrópu vinnur að því að gera vinnustaði öruggari, heilbrigðari og afkastameiri og stendur fyrir eflingu forvarna á vinnustöðum í því skyni að lágmarka áhættu og bæta vinnuaðstæður í Evrópu. Á vefsíðu Vinnuverndarstofnunar Evrópu er að finna mikinn fróðleik um vinnuvernd og fréttir af starfi stofnunarinnar.
Vinnueftirlitin á Norðurlöndunum
Vinnueftirlitið á í góðu samstarfi við vinnueftirlitin á Norðurlöndum um eflingu forvarna, öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum, bæði með afmörkuðum samstarfsverkefnum og þekkingarmiðlun á milli landa.
Hér má finna tengla á vefsíður Vinnueftirlitanna á Norðurlöndunum: