Hoppa yfir valmynd

Gildi

Frumkvæði – Forvarnir – Fagmennska

Frumkvæði

Frumkvæði felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að  framförum og taka þátt í því  að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.

Forvarnir

Forvarnir eru ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.

Fagmennska

Fagmennska felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.

Dæmi um nánari merkingu gildanna í störfum VER

Frumkvæði

 • Frumkvæði er drifkraftur framfara og á við á öllum sviðum starfsins. Það getur lotið að auknum árangri starfsins, hagkvæmni í rekstri, samvinnu innan stofnunar og við aðra aðila, vinnuumhverfi starfsmanna VER, kynningu í fjölmiðlum o.fl.
 • Starfsmenn fylgjast með samfélagsþróun og faglegum upplýsingum á sviði vinnuverndar, og hafa frumkvæði að breyttum áherslum eins og tilefni er til.
 • Ábendingum innan sem utan stofnunar og umfjöllun í samfélaginu sem gæti gefið tilefni til aðgerða af hálfu VER er tekið alvarlega og þeim fylgt eftir.
 • Starfsmenn leggja til breytingar á verklagi þegar þeir telja að það sé til bóta.
 • Þegar tilefni er til eða tækifæri gefast er sjónarmiðum VER komið á framfæri í fjölmiðlum og við hagsmunaaðila.
 • Starfsmaður er reiðubúinn að taka þátt í vinnu við að hrinda tillögum í framkvæmd eða taka að sér forystuhlutverk þegar þekking og reynsla gefa tilefni til.

Forvarnir

 • Starfsmenn hafa að leiðarljósi víðtækustu forvarnir sem raunhæfar eru við úrlausn verkefna.
 • Starfsmenn leggja áherslu á forvarnir sem koma í veg fyrir hættu (1. stigs forvarnir) sem og ráðstafanir sem draga úr afleiðingum (2.stigs forvarnir).
 • Starfsmenn leggja áherslu á að vinnuvernd sé mikilvægur þáttur í að efla og viðhalda góðri heilsu alla starfsævina.
 • Starfsmenn VER sýna gott fordæmi og eru til fyrirmyndar.

Fagmennska

 • Starfsmenn byggja starf sitt á nýjustu þekkingu á fagsviðum vinnuverndar, gögnum um starfstengt heilsutjón og upplýsingum um stöðu og þróun íslensks atvinnulífs.
 • Starfsmenn haga störfum sínum í samræmi við ákvæði laga svo sem laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
 • Starfsmenn tileinka sér verklags- og vinnureglur, afla sér þekkingar og leita aðstoðar samstarfsfólks eins og með þarf til að geta unnið störf sín af fagmennsku.
 • Starfsmenn eru reiðubúnir til að miðla þekkingu og veita vinnufélögum faglega aðstoð.
 • Starfsmenn fá markvissa fræðslu og þjálfun og stuðning við sí- og endurmenntun á sviðum sem tengjast starfinu.
 • Starfsmenn taka vel ábendingum um það sem betur má fara í starfinu og leitast við að vinna úr þeim á faglegan hátt.
 • Starfsmenn vanda framsetningu skýrslna og gagna sem þeir senda frá sér eða birta.
 • Starfsmenn hafa gagnsæi, heiðarleika og gagnkvæmt traust að leiðarljósi í störfum sínum.