Hoppa yfir valmynd

Jafnréttisáætlun Vinnueftirlitsins

Jafnréttisáætlun þessi tekur til Vinnueftirlitsins og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Vinnueftirlitsins þau réttindi sem jafnréttislög kveða á um.

Í jafnréttisáætluninni eru sett fram markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf Vinnueftirlitsins. Hluti áætlunarinnar er einnig stefna og viðbragðsáætlun Vinnueftirlitsins vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis eða annarrar ótilhlýðilegrar hegðunar og viðverustefna.

Vinnueftirlitið er eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt og allir hafa jöfn tækifæri til að nýta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni, búsetu, aldri, kynhneigð, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, fötlun, skertri starfsgetu eða öðrum ómálefnalegum þáttum.

Jafnréttisáætlun Vinnueftirlitsins hefur verið samþykkt í framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Áætlunin er endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Markmið jafnréttisáætlunar Vinnueftirlitsins gagnvart starfsfólki

Tilgangur jafnréttisáætlunar Vinnueftirlitsins er að tryggja jafnrétti karla og kvenna er starfa hjá Vinnueftirlitinu auk þess að jafna stöðu og virðingu kvenna og karla. Enn fremur að stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Mikil verðmæti felast í virku jafnréttisstarfi innan vinnustaðarins. Vinnuandinn er betri og framlegðin meiri á vinnustöðum þar sem jafnrétti ríkir og konur, karlar og fólk af öðrum kynjum starfa þar. Einnig er viðbúið að virkt jafnréttisstarf styrki ímynd Vinnueftirlitsins sem góður vinnustaður þar sem allir upplifa sig jafn mikilvæga.

Launajafnrétti

Stefna Vinnueftirlitsins er að allt starfsfólk Vinnueftirlitsins njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Með jöfnum launum er átt við að laun og önnur starfskjör skuli ákveðin á sama hátt fyrir kynin. Skulu viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Laun eru skilgreind í 9. tölul. 2. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfskrafti fyrir vinnu.

Kjör eru skilgreind í 10. tölul. 2. gr. sömu laga sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.

Vinnueftirlitið greiðir laun samkvæmt umfangi og eðli starfa og tekur mið af þeim kröfum sem störf gera um hæfni, ábyrgð og vinnuvernd. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.

Vinnueftirlitið skal innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og öðlast vottun í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Árlega skal gera jafnlaunaúttekt og komi í ljós kynbundinn launamunur, sem ekki er unnt að skýra með málefnalegum hætti, þarf að bregðast við og leiðrétta þann mun. Sérstakt launaráð skal vera starfrækt sem í sitja forstjóri ásamt sviðsstjórum og launafulltrúa. Skal launaráðið sjá til þess að jafnlaunaúttektir fari fram árlega og komi með tillögur til framkvæmdastjórnar um úrbætur þegar það á við. Í því felst meðal annars að kanna hvort kynbundinn munur sé á launum og starfskjörum. Niðurstöður jafnlaunaúttektar skal kynna fyrir starfsfólki Vinnueftirlitsins.

Árlega skal fara fram innri úttekt og rýni stjórnenda Vinnueftirlitsins. Stofnunin skal fylgja eftir lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og skulu stjórnendur hennar staðfesta að þeim sé hlítt.

MarkmiðAðgerðÁbyrgðTímarammi
Að sem minnstur munur sé á launum kynjanna eða innan við 1%#1: Jafnlaunaúttekt skal að lágmarki gera árlega. Komi í ljós kynbundinn launamunur, sem ekki er unnt að skýra með málefnalegum hætti, þarf að bregðast við og leiðrétta þann mun. Niðurstöður jafnlaunaúttektar skal kynna fyrir starfsfólki Vinnueftirlitsins.LaunaráðÍ nóvember ár hvert
#2: Til að tryggja launajafnrétti skal Vinnueftirlitið uppfylla kröfur jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 samvkæmt jafnlaunavottun.Forstjóri og sviðsstjóri fólks, upplýsinga og þróunarViðvarandi
#3: Árlega skal fara fram innri úttekt og rýni stjórnenda Vinnueftirlitsins til að viðhalda jafnlaunakerfi stofnunarinnar.Forstjóri og sviðsstjóri fólks, upplýsinga og þróunarÍ nóvember ár hvert

Laus störf og framgangur í starfi, starfsþjálfun og símenntun

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opiðfólki að öllum kynjum.  Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Sérstök áhersla er lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Tryggt verði að allir njóti sömu möguleika til starfsþjálfunar og símenntunar, þar á meðal að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum. Þess verði gætt við úthlutun verkefna og tækifæra til að axla ábyrgð, sem og þegar um framgang eða tilfærslu í störfum er að ræða, að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis, búsetu, aldri, kynhneigð, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, fötlun, skertri starfsgetu eða annarra ómálefnalegra þátta. Sama gildir um starfs- eða vinnuhópa sem starfsfólk er skipað í.

MarkmiðAðgerðÁbyrgðTímarammi
Jafn aðgangur að störfum#4: Í auglýsingum eru störf ókyngreind og þess gætt að hafa öll kyn í huga við gerð þeirra. Hvetja skal fólk af öllum kynjum til að sækja um auglýst störf.Forstjóri og hlutaðeigandi sviðsstjóriViðvarandi
Kynjablandaður vinnustaður#5: Ef hallar á annaðhvort konur eða karla ber að gæta sérstaklega að jafnréttissjónarmiðum þegar nýráðningar eða tilfærslur í störfum innan Vinnueftirlitsins eiga sér stað og nýta þá tækifæri til að rétta hlut þess kyns sem á hefur hallað. Einnig skal huga að stöðu starfsfólks af öðrum kynjum við nýráðningar eða tilfærslur í störf.Forstjóri og hlutaðeigandi sviðsstjóriViðvarandi
Jafn aðgangur að símenntun og framgangi í starfi #6: Halda skal kynjagreint bókhald yfir þátttöku starfsfólks í námskeiðum, í annarri skipulagðri símenntun og í starfs- og vinnuhópum svo unnt sé að greina hvort hallar kynin við nýtingu slíkra tækifæra. Komi munur í ljós ber að gera ráðstafanir til að bregðast við honum.Forstjóri og sviðsstjóri fólks, upplýsinga og þróunarJanúar ár hvert

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum dagvinnuvinnutíma eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið og þörf er á. Gera skal ráð fyrir að allir njóti sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum.

Sveigjanlegur dagvinnutími snýst um að skapa aukið svigrúm og fleiri valkosti í skipulagi vinnunnar í þeim tilgangi að ná að viðhalda skynsamlegu jafnvægi milli vinnu og einkalífs. .  Markmið Vinnueftirlitsins er meðal annars að bjóða fólki að gera samning um fjarvinnu, henti það þeim og starfi þess og er þannig komið til móts við það starfsfólk sem kýs sjálft að vinna fjarri vinnustaðnum að hluta.

Það er sameiginlegt markmið okkar að við getum sinnt störfum okkar á sem skilvirkastan hátt en haft samt tíma og orku til að geta notið annarra gæða sem lífið hefur upp á að bjóða.

Liður í því að tryggja vellíðan í starfi og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs er að leitast er við að vinna litla sem enga yfirvinnu. Með þessu göngum við á undan með góðu fordæmi sem vinnuverndarstofnun.

Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof, eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, símenntun, uppsögn, vinnuaðstæður og fleiri slíka þætti sem fram koma í 1. mgr. 19.  gr. jafnréttislaga.

Fjarvinnu- og viðverustefna Vinnueftirlitsins felur í sér frekari skilgreiningar á sveigjanlegum vinnutíma og fjarvistir tengdar fjölskylduaðstæðum starfsfólks.

MarkmiðAðgerðÁbyrgðTímarammi
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs#7: Framsækin fjarvinnu- og viðverustefna í gildi og þekkt meðal starfsfólks.ForstjóriViðvarandi
Halda yfirvinnu starfsfólks innan hóflegra marka og uppræta kynbundinn mun þar á#8: Fara skal yfir fjölda yfirvinnustunda og gera kyngreint ef ástæða er til. Bregðast skal við með endurskipulagningu verkefna eða annarri vinnuhagræðingu ef þörf er á.SviðsstjórarÍ janúar hvert ár

Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

Í öllu starfi Vinnueftirlitsins á starfsfólk og stjórnendur að sýna kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun verður ekki umborin á vinnustaðnum og er bæði stjórnendum og starfsfólkimeð öllu óheimil.

Vinnueftirlitið skal koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun í starfi stofnunarinnar með forvörnum og virkri viðbragsáætlun sem er að finna inni á VER-inu.

Stefna og viðbragðsáætlun Vinnueftirlitsins vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis eða annarrar ótilhlýðilegrar hegðunar fjallar nánar um þær aðgerðir sem grípa skal til komi upp grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun.

MarkmiðAðgerðÁbyrgðTímarammi
Vinna gegn einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni#9: Vinnueftirlitið leggur fyrir 4-6 sinnum á ári stutta könnun (HR monitor) sem gefur vísbendingar um samskiptaheilsu stofnunarinnar hverju sinni. Forstjóri og sviðsstjóri fólks, upplýsinga og þróunar Viðvarandi
#10: Gert er sálfræðilegt áhættumat á tveggja ára frestiForstjóri og mannauðsstjóriJanúar 2023
#11: Endurskoðun á stefnu- og viðbragðsáætlun er snýr að sálfélagslegum þáttumForstjóri og mannauðsstjóriJanúar 2023
#12 Boðið verður upp á fræðslu um ofbeldi í nánum samböndum fyrir starfsfólk. Markmiðið er að starfsfólk þekki einkenni og afleiðingar ofbeldis og geti leitað stuðnings á vinnustaðnum, hafi það orðið fyrir slíku. Forstjóri og sviðsstjóri fólks, upplýsinga og þróunar.Maí 2023

Markmið jafnréttisáætlunar Vinnueftirlitsins varðandi innra starf

Í öllu starfi Vinnueftirlitsins verði unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kynjanna að því verðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Jafnréttismál og leiðir til að stuðla að jafnri stöðu kynjanna verði virkur þáttur í daglegu starfi í Vinnueftirlitinu og samþætt stefnumótun og ákvörðunum innan þess.

Kynjasamþætting

Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð á vegum Vinnueftirlitsins. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan stofnunarinnar eftir því sem við getur átt, sbr. 30. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

MarkmiðAðgerðÁbyrgðTímarammi
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunartöku#13 Ávallt skal gæta að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í störfum Vinnueftirlitsins, s.s. við innri stefnumótun, skipulag átaka eða einstakra verkefna, þar sem metin eru áhrif á konur annars vegar og karla hins vegar.Sviðsstjórar og leiðtogarViðvarandi

Útgáfudagur: 6. des 2022
Útgáfa 4.0
Teg.: SKJ
Ábyrgðarmaður: Forstjóri


Jafnréttisáætlun þessi gildir til 1. desember 2025.