Hoppa yfir valmynd

Upplýsingastefna

Vinnueftirlitið leggur áherslu á að miðla traustum, skýrum og áreiðanlegum upplýsingum um málefni sem undir stofnunina heyra í því skyni að greiða fyrir þekkingaröflun og stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi, sem er lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar.

Sýn stofnunarinnar er að öll komi heil heim úr vinnu og tekur upplýsingagjöfin mið af því. Efnið er sett fram á hvetjandi hátt og er því ætlað að stuðla að uppbyggilegu og markvissu vinnuverndarstarfi. Rík áhersla er lögð á forvarnir og að efla jafnt líkamlega og félagslega öryggismenningu á vinnustöðum.

Áhersla er lögð á vandað efni, einfaldan og hnitmiðaðan texta. Sömuleiðis skýra og viðeigandi myndnotkun. Eins að efnið sé aðgengilegt almenningi og að upplýsingarnar byggi á bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni. Leitarviðmót á vefnum er þægilegt og einfalt.

Upplýsingastefnan styður við stefnumörkun hins opinbera um aukna notkun á upplýsingatækni og opna og gagnsæja stjórnsýslu. Stofnunin er lausnamiðuð og leitar leiða til að ná fram betri árangri með hagnýtingu upplýsingatækninnar og vill þannig bæta þjónustu, auka skilvirkni og áreiðanleika. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á stafrænu formi og gögn færð inn á sem fæstum stöðum til að draga úr líkum á upplýsingaóreiðu. Markmiðið er að auka stafræn samskipti við einstaklinga og atvinnulífið þannig að viðskiptavinir geti sinnt erindum sínum á einum stað þegar þeim hentar. Einnig geta borgararnir sent inn ábendingar og haft samband í gegnum netspjall.

Við meðferð upplýsinga er gætt að ákvæðum í stjórnsýslulögum, lögum um persónuvernd og upplýsingalögum.

Vinnueftirlitið leggur áherslu á að auðvelda fólki og fjölmiðlum að koma á framfæri spurningum er varða málefni stofnunarinnar og er þeim svarað eins fljótt og kostur er. Almennar fyrirspurnir skal senda á vinnueftirlit@ver.is. Fyrirspurnir fjölmiðla skulu berast upplýsingafulltrúa skriflega á info@ver.is. Forstjóri ber ábyrgð á upplýsingastefnunni. Upplýsingafulltrúi ber ábyrgð á að henni sé fylgt eftir og hefur milligöngu um samskipti við fjölmiðla fyrir hönd stofnunarinnar.


Samþykkt 13. apríl 2021