Hoppa yfir valmynd

Asbest
Asbest

Asbestþræðir eru mjög slitsterkir og þola mjög mikinn hita. Asbest var á árum áður notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og við ýmiskonar iðnað. Við vinnu með asbest myndast nálar- eða þráðlaga asbestryk. Þetta ryk er hættulegt heilsunni og er notkun þess bönnuð á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvað er asbest?

Orðið „asbest“ kemur úr grísku og merkir óeyðanlegt. Það er samheiti yfir þráðlaga kristölluð sílikat-steinefni sem hafa ólíka byggingu og eiginleika. Það algengasta er krýsótíl (hvítt asbest), en 90% af asbestframleiðslu heimsins er af þeirri gerð. Aðrar algengar tegundir eru krókídólít (blátt asbest), amósít (brúnt asbest), antófyllít, tremólít og aktínólít.

Kristallabygging asbests gerir það að verkum að hægt er að kljúfa það að endilöngu en þræðirnir eru mun sterkari á lengdina og er það eitt af einkennum asbestþráða. Ef asbestögn á að teljast þráður verður lengd þráðarins að vera að minnsta kosti þrisvar sinnum meiri en breiddin.

Asbest er unnið úr grjótnámum á svæðum þar sem mikið er af því og þaðan er það flutt til frekari vinnslu í verksmiðjur þar sem það er molað niður og þræðirnir aðskildir og hreinsaðir áður en þeir eru seldir sem íblöndunarefni í ýmsan varning.

Asbestþræðir eru mjög slitsterkir og þola mjög mikinn hita. Það var því á árum áður algengt að asbest væri notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og við ýmiskonar iðnað þar sem unnið var með mikinn hita.

Við vinnu með asbest myndast nálar- eða þráðlaga asbestryk. Það er þetta ryk sem er hættulegt heilsunni. Margar rykagnirnar eru mjög smáar og léttar og geta svifið um í marga daga. Stærð og lögun þráðanna hefur áhrif á hversu vel þeim gengur að komast inn í líkamann.

Asbest sem steinefni finnst nánast ekki í íslenskri náttúru.

Þekkt lengi

Asbest, og eiginleikar þess, hefur lengi verið þekkt. Fyrir iðnbyltinguna var það þó sjaldan notað og dýrt. Í fornöld voru einar þekktustu námurnar á Kýpur. Í iðnbyltingunni í kringum 1880 jókst notkun á asbesti mikið í hitaeinangrun fyrir gufuvélar. Þegar tekið var að framleiða farartæki úr málmi í stað timburs þurfti betri einangrun en til þess hentaði asbestið vel.

Í seinni heimsstyrjöldinni var mikið af asbesti notað í ýmsar vélar, skip og önnur farartæki bæði í Englandi og Bandaríkjunum. Eftir stríðið jókst notkun á asbesti jafnt og þétt og í kringum 1970 var asbest notað í þúsundir ólíkra vörutegunda. Dæmi um efni eða vörur sem innihalda asbest eru ýmis byggingarefni svo sem þakklæðningar, veggklæðningar, efni í eldvarnaveggjum, gólfefni, pípulagnir og hitaeinangrun. Það er mjög misjafnt eftir vörutegundum hve mikið af asbesti er í þeim, allt frá örfáum prósentum upp í helming efnisþyngdar.

Asbest er enn notað í miklu magni í heiminum, ekki síst í Rússlandi, austur Asíu og Suður Ameríku.

Notkun stjórnað

Á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta tuttugustu aldar voru áhrif asbests á heilsu ekki almennt þekkt og notkun á asbesti var ekki háð neinum takmörkunum. Upp úr 1880 komu fram vísbendingar um heilsufarshættur sem gætu fylgt asbesti. Í kringum 1935 var þekkt að þeim sem vinna við asbest er hættara við lungnakrabba og í kringun 1955 var orðið ljóst að asbest er krabbameinsvaldur. Notkun asbests hélst þó áfram í miklum mæli ekki síst vegna þess hversu þýðingarmikið það var í efnahagslegu tilliti og ekki var að reynt að takmarka notkun efnisins fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar. Það er síðan árið 1983 sem fyrsta íslenska reglugerðin sem takmarkar notkun á asbesti var gefin út.

Hættan sem fylgir asbesti er þó engan veginn úr sögunni því mikið magn asbests finnst enn í byggingum, vélum og bátum sem fyrr eða síðar þarf að rífa eða gera við. Þessi staðreynd setur þær langtímakröfur á stjórnvöld og fyrirtæki að til séu reglur sem hægt er að vísa til í slíkum tilfellum.

Það sem ræður mestu um hættuna á asbestmengun er hve mikið af asbesttrefjum eru í efninu og hve auðveldlega þær losna og rykast upp. Asbesttrefjar geta losnað úr öllum varningi sem inniheldur efnið og myndað asbestryk en líkur á rykmyndun aukast við það að varan skemmist.

Innöndun á asbestryki getur valdið sjúkdómum eins og „steinlunga“ (asbestosis) og krabbameini í lungum, fleiðruþekju og víðar. Sjúkdómar af völdum asbests hafa langan meðgöngutíma og koma jafnvel ekki fram fyrr en eftir 15–40 ár. Ekki er hægt að skilgreina örugg lágmarksviðmið vegna asbestmengunar og því ber að koma í veg fyrir alla mengun frá asbesti.

Þann 1. janúar 2005 gekk í gildi allsherjarbann við notkun asbests á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í dag er því bannað að flytja inn, framleiða eða nota asbest og því er raun eina leyfða starfsemin með asbest sú að fjarlægja það eða farga því ásamt því að sinna nauðsynlegu viðhaldi.

Þegar fjarlægja þarf asbest er mismunandi af hvaða tegund og í hvaða formi asbestið er. Einvörðungu þeir sem hafa þekkingu og réttindi til verksins mega fjarlægja asbest úr byggingum eða af öðrum stöðum. Merkja ber greinilega þá staði þar sem unnið er við niðurrif á asbesti. Asbestinu er síðan fargað í samráði við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Vinnueftirlitið heldur reglulega réttindanámskeið fyrir þá sem vinna við niðurrif á asbesti. Stofnunin sér sömuleiðis um að afgreiða starfsleyfi fyrir asbestverk, að því gefnu að umsókn fullnægi þeim forsendum sem skilyrtar eru. Umsóknareyðublöð vegna leyfis til meðhöndlunar á asbesti og reglugerðir um asbest má nálgast á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Athugið!

Rétt er að vekja athygli verktaka á því að þegar boðið er í viðhaldsverk í byggingum sem eru 30-60 ára, getur verið góð regla að gera ráð fyrir því í tilboði að í húsinu gæti verið asbest sem gæti þurft að fjarlægja með auknum tilkostnaði.

Vinna við asbest

Viðhald og niðurrif á húsum sem voru byggð á árunum 1950–1980, verður æ algengara eftir því sem árin líða. Það eru einmitt hús, sem byggð voru á þessum árum, sem mestar líkur eru á að hafi asbest í byggingarefnum sínum. Iðnaðar- og verkamenn sem vinna við viðhald og niðurrif gamalla húsa, fást því í auknum mæli við asbest í starfi sínu. Þetta er að mörgu leyti óheppilegt því að á sama tíma og asbestverkum fjölgar, fækkar þeim sem unnu við að setja asbest í hús upphaflega og því hefur þekking á eiginleikum og umfangi asbests tapast.

Hvar finnst asbest?

Asbest og vörur sem innihalda asbest voru notaðar sem eldvarnarefni, hitaeinangrun, hljóðeinangrun og fleira í mörgum byggingum sem voru byggðar fyrir 1980. Talið er að í kringum 1970 hafi verið til um þrjú þúsund mismunandi vörutegundir sem innihéldu asbest í einhverju magni sem viðbótarefni vegna hitaþols-, einangrunar- og viðloðunareiginleika þess.

Byggingarvörur:

 • asbestsement
 • hitaeinangrun/lagnir
 • röraeinangrun/stokkar
 • eldvarnarefni
 • asbestsementsrör
 • þilplötur
 • spartl
 • þakplötur
 • kítti o.fl.

Vefnaðarvörur:

 • eldþolinn klæðnaður
 • eldvarnarmottur
 • fortjöld o.fl.

Bílavörur:

 • hemlaborðar
 • ryðvarnarefni
 • tengsladiskar
 • þéttingar

Plastvörur:

 • styrkiefni í plasti, gólfflísum og dúkum
 • fylliefni í ýmsum gúmmívarningi

Matvæla- og lyfjavörur:

 • síur fyrir örverur

Vörur til skipasmíða:

 • eldþolið einangrunarefni
 • hitaeinangrun í vélarrúmi

Tafla 1 – Algengi

Fyrir 1955 1955-72 1973-80 1981-90
Stofur og herbergi:
Röraeingangrun Sjaldgæft Sjaldgæft
Veggir (plötur) Sjaldgæft Sjaldgæft
Loft (plötur) Sjaldgæft Sjaldgæft
Baðherbergi:
Röraeingangrun Sjaldgæft Sjaldgæft Sjaldgæft
Gólf (vínyl) Sjaldgæft Algengt
Mosaíkgólf (flísalím) Algengt Algengt
Flísar (flísalím) Algengt
Eldhús:
Röraeingangrun Algengt Algengt
Gólf (vínyldúkur) Algengt Algengt Algengt
Flísar (flísalím) Algengt Algengt
Kjallari:
Röraeinangrun Algengt Algengt
Kyndiklefar:
Katlar (pakningar) Algengt Algengt Algengt
Þakefni:
Þak (eternitskífur) Sjaldgæft Sjaldgæft Sjaldgæft Sjaldgæft
Þak (eternitbáruplötur) Sjaldgæft Algengt Algengt Sjaldgæft
Þakpappi Sjaldgæft Sjaldgæft

Aðrar trefjar en asbest

Til eru margar mismunandi gerðir af trefjum, bæði náttúrulegum og manngerðum, og hefur ákveðinn hluti þeirra eiginleika sem minna á eiginleika asbests og geta því komið í stað þess. Töluverðar rannsóknir eru stundaðar til að meta þá hættu sem gæti stafað af þessum þráðum.

Í tengslum við svokallaða öreindatækni hafa menn þróað ýmsar gerðir grafít- og kolatrefja sem eru manngerðir ólífrænir trefjaþræðir sem oft eru blandaðir málmum. Ákveðnir þræðir með svipaða lögun og asbest geta leitt til krabbameina eins og asbest og er þess vegna fylgst sérlega með þróun á þessu sviði.

Til eru margar gerðir af gler- og steinullarþráðum og eru þessi efni aðallega notuð í hljóð- og varmaeinangrun. Ýmis almenn óþægindi geta komið fram vegna vinnu við slík efni en langvinnu heilsutjóni er ekki lýst í fræðunum.

Heilsufarsáhætta

Hvernig asbest kemst inn í líkamann

Þegar verið er að fjarlægja eða vinna með vörur sem innihalda asbest, losna asbestþræðir úr efninu. Þessir örsmáu þræðir geta svifið um í loftinu sem ryk í marga sólarhringa. Asbestþræðir berast inn í líkamann með lofti sem er andað inn. Sumir þræðir eru nógu smáir og grannir til að berast alla leið niður í lungnablöðrurnar. Flestir af stærri þráðunum og margir þeirra minni stöðvast í slímhúð og bifhárum ofarlega í öndunarveginum en líkaminn nær að hreinsa megnið af þessum þráðum út aftur.

Margs konar mengun sem berst til lungnanna er gerð óskaðleg af ónæmiskerfinu sem leysir aðskotahlutinn upp en vegna hins mikla mótstöðuafls asbests þá þolir það mjög vel tilraunir ónæmiskerfisins til að eyða því. Má því segja að þegar asbest er einu sinni komið inn í líkamann þá sé það komið til að vera.

Mengunarmörk

Mengunarmörk eru sett fyrir skaðleg efni og innöndun á asbestmenguðu lofti felur í sér hættu á sjúklegum breytingum í lungum. Því eru sett mengunarmörk fyrir asbest (reglur 390/2009), mengunarmörkin eru 0,1 þráður í cm3 að meðaltali í andrúmslofti yfir átta tíma vinnudag. En jafnvel þó að mengun mælist undir mörkum á asbestvinnustað þarf samt sem áður að klæðast viðeigandi hlífðarbúnaði. Asbest hefur merkinguna „K“ í mengunarmörkunum sem þýðir að efnið er krabbameinsvaldandi.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að sennilega er einn asbestþráður nægjanlegur til að valda skaða en tilraunir á músum hafa bent til þess.

Þegar þræðir eru skilgreindir sem loftbornir þá er miðað við að lengdin sé að minnsta kosti þrisvar sinnum meiri en breiddin, ummálið ekki meira en 0,003 millimetrar og lengdin 0,005 millimetrar. Til grundvallar þessari skilgreiningu liggja rannsóknir sem sýna að það eru að mestu þræðir sem eru 5-8 µm á lengd sem valda æxlum í lungum.

Áhrif á heilsu

Það hefur verið þekkt síðan í byrjun 20. aldar að þeir sem störfuðu í textíliðnaði í Englandi áttu á hættu að fá asberstosis (steinlungu) og um 1950 kom í ljós að asbest getur líka valdið lungnakrabba. Tíu árum síðar uppgötvuðust tengsl fleiðruæxla (mesotheliem) við asbest hjá námuverkamönnum í Suður-Afríku sem unnu við að brjóta niður blátt asbest.

Síðustu 20–30 árin hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á að tíðni krabbameins og asbestosis er meiri hjá þeim hópum sem vinna með asbest en öðrum sambærilegum hópum. Vinna með asbest eykur því líkurnar á mörgum gerðum krabbameins og hefur áhrif á lungnastarfsemi. Allar þekktar tegundir af asbesti hafa þessi áhrif.

 • Asbesttengdir sjúkdómar
 • Bólgur í lungum
 • Fleiðruþykkildi
 • Steinlungu /asbestosis
 • Lungnakrabbi
 • Fleiðruþekjuæxli/ mesóþelíóma
 • Æxli í koki og maga/þörmum

Veikindi af völdum asbests eru tilkynningarskyld til Vinnueftirlitsins en þau eru skráð í atvinnusjúkdómaskrá. Það er á ábyrgð lækna að sjá um tilkynninguna.

Heilsufarseftirlit

Vinna við asbest leggur ákveðnar skyldur á herðar vinnuveitandanum varðandi heilsufarseftirlit með þeim starfsmönnum sem vinna við asbestið. Þessar skyldur koma fram í 9. og 10. grein asbestreglugerðarinnar. Þar segir að í þeim tilvikum sem veitt hefur verið undanþága fyrir vinnu með asbest verði að liggja fyrir mat á heilsufari allra starfsmanna áður en þeir hefja vinnu við asbest.

Í mati þessu skal felast:

 • Sérstök brjóstholsskoðun.
 • Nýtt mat verður að liggja fyrir að minnsta kosti þriðja hvert ár á meðan starfsmenn vinna með asbest.
 • Halda skal skýrslur um heilsufar einstaklinga í samræmi við lög og reglur.

Hvernig er hægt að þekkja asbest?

Það getur verið erfitt og í mörgum tilfellum ómögulegt að greina hvort byggingarefni eða vélahlutur inniheldur asbest. Asbestþræðir eru gráir og þráðlaga og má í sumum tilfellum líta á það sem vísbendingu um að asbest finnist í efninu ef hægt er að koma auga á slíka þræði. Þó er oftast ómögulegt að segja til um það með fullri vissu hvort efnið inniheldur asbest eða ekki. Í slíkum tilfellum er tvennt til ráða:

Athuga sögu hússins, tala við fyrri eigendur eða einhvern sem kemur að byggingu hússins. Einnig er hægt að athuga hvort einhver gögn séu til um hvort asbest hafi verið notað sem byggingarefni eða finnist einhvers staðar í húsinu.

Önnur aðferð er sú að taka sýni úr því byggingarefni sem grunur leikur á að innihaldi asbest. Þetta er gert með því að brjóta varlega smástykki af meintu asbesti, setja það í plastpoka og loka vel. Sýninu er síðan komið í greiningu hjá viðurkenndum fagaðila í asbestgreiningum sem greinir það með smásjárskoðun. Þetta er hvorki tímafrekt (1-3 dagar) né dýrt ferli.

Ef í ljós kemur að sýnið inniheldur asbest þá þarf að sækja um undanþágu fyrir verkinu en ef ekkert asbest finnst er hægt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Menntun verktaka og vinnuvernd

Aðeins þeir sem sótt hafa námskeið á vegum Vinnueftirlits ríkisins eða aðila sem Vinnueftirlitið hefur samþykkt mega vinna við niðurrif eða viðhald á asbesti.

Hér á Íslandi hefur menntun þeirra sem stunda asbestniðurrif verið skipt í tvennt. Annars vegar er um að ræða þriggja til fjögurra tíma námskeið fyrir þá sem vilja vinna við asbestniðurrif er veldur lítilli mengun. Á það við um niðurrif á til dæmis þakplötum og ytri klæðningu utanhúss svo og minni háttar niðurrif og viðhaldsvinnu innanhúss til dæmis á heilum plötum, gluggakistum og fleiru í þeim dúr. Námskeiðið veitir ekki réttindi til stærri verkefna eða vinnu við laust asbest þar sem hætta er á verulegri asbestmengun. Vinnueftirlitið hefur reglulega boðið upp á námskeið fyrir smærri asbestverk og haldið sérstök námskeið fyrir fyrirtæki ef þörf hefur verið á.

Ef um er að ræða námskeið fyrir stærri asbestverk þar sem asbestið gæti verið laust og líkur eru á mikilli mengun þarf mun ítarlegri námskeið og búnað sem einungis hefur verið hægt að sækja erlendis.

Kerfisbundin vinnuvernd

Eftirliti Vinnueftirlitsins með asbestverkum er þannig háttað að Vinnueftirlitið fer yfir verkáætlun og veitir leyfi til framkvæmdanna. Ef umfang verksins er þess eðlis að Vinnueftirlitinu þykir þurfa að taka verkið út er eftirlitsmaður sendur á vettvang til að taka út vinnuaðstæður. Eftirlitsmaður getur farið fram á mengunarmælingu á vinnustað ef honum þykir þörf á því.

Merkingar

Þar sem unnið er við asbest gildir sú regla að svæðinu sem vinnan fer fram á skal lokað af á öruggan hátt fyrir óviðkomandi. Einnig ber að merkja vinnusvæðið til þess að allir geti gert sér grein fyrir því að þarna fer asbestvinna fram. Merkingunum skala haga þannig að setja skal upp viðvörunarskilti með eftirfarandi texta: „VARÚÐ. Asbestvinna. Óviðkomandi bannaður aðgangur.“

Lokun vinnusvæðisins er að sjálfsögðu framkvæmd á mismunandi hátt eftir aðstæðum og eðli þeirrar vinnu sem fer fram. Ef til dæmis er unnið við að taka niður asbestplötur utanhúss er viðeigandi að girða svæðið af og merkja girðinguna. Ef hins vegar er verið að fjarlægja asbest innanhúss getur þurft að einangra vinnusvæðið með því að loka fyrir innganga og glugga með plasti og setja merkingar upp í hæfilegri fjarlægð frá vinnusvæðinu.

Förgun á asbesti

Ekki má farga asbesti nema að fengnu leyfi heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags.

Þegar búið er að taka niður asbest þá skal asbestryki og úrgangi sem inniheldur asbest, komið fyrir og það geymt í þéttum, merktum, lokuðum ílátum og þannig ber að flytja það til förgunar.

Asbest á að geyma í lokuðum gámum; oft útvegar urðunarþjónusta í viðkomandi sveitarfélagi sérstaka lokaða gáma undir asbestið.

Mikilvægt er að urðunarþjónustan viti að um asbest sé að ræða þar sem það er urðað á sérstökum merktum stöðum.

Við asbestvinnu

Það fyrsta sem ber að hafa í huga þegar á að fara að fjarlægja asbest, er að reyna að haga vinnunni á þann hátt að mengun verði sem minnst. Því á að gera allt sem hægt er til að tryggja að rykmengun sé eins lítil og mögulegt er þegar asbest er fjarlægt. Auk þess ber starfsmönnum sem vinna við asbestniðurrif að nota persónuhlífar og viðhafa vinnubrögð í samræmi við áhættumat, hlífðarbúnað og vinnuaðferðir sem lýst er í reglugerð um bann við notkun asbests á vinnustöðum.

Asbest í skipum

Mikið var notað af asbesti í vélarrúmum skipa hér áður fyrr, bæði sem eldvarnarefni en einnig í vélarhluta, pakkningar og annað sem mikið mæddi á. Rétt er að undirstrika að sömu reglur gilda um niðurrif og vinnu við asbest í skipum eins og við asbestvinnu í landi.

Umsóknarferlið

Áður en vinna hefst við niðurrif eða viðhald á asbesti í byggingum, vélum eða öðrum búnaði, sem veitt hefur verið undanþága fyrir, skal leggja verkáætlun fyrir Vinnueftirlitið og starfsleyfisumsókn til heilbrigðiseftirlitsins til samþykktar. Ekki er heimilt að að hefja vinnu við niðurrif eða viðhald nema Vinnueftirlitið hafi samþykkt verkáætlunina og heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags lagt blessun sína yfir framkvæmdirnar.

Athygli skal vakin á því að það er verktakinn sem ætlar að vinna verkið sem skal sækja um undanþáguna. Óheimilt er að handsala leyfið til þriðja aðila þar sem leyfið er gefið út á ákveðna starfsmenn sem Vinnueftirlitið hefur fullvissað sig um að hafi réttindi til að vinna verkið. Allir starfsmenn sem vinna við asbestniðurrif, verða að hafa sótt asbestnámskeið, sem þýðir það að ekki er fullnægjandi að einungis verkstjóri hafi réttindin þó að hann stjórni verkinu og beri ábyrgð á mönnum á vinnustað.