StórslysavarnirStórslysavarnir
Stórslys er stjórnlaus atburðarás við meðferð efna svo sem mikill leki, eldsvoði eða sprenging sem mönnum og umhverfi stafar alvarleg hætta af.
Stórslysavarnir vegna hættulegra efna
Stórslys er stjórnlaus atburðarás í meðferð efna svo sem mikill leki, eldsvoði eða sprenging sem hefur í för með sér alvarlega hættu fyrir heilsu manna og/eða umhverfið bæði innan og utan starfsstöðvarinnar þar sem efnin eru. Mikið magn eldfimra efna getur valdið eldsvoðum sem geta breiðst út fyrir starfsstöðvarnar. Sprengifim efni geta eyðilagt stór svæði og skemmt enn stærri auk þess að geta valdið manntjóni. Eiturefni sem komast úr geymslustað sínum geta valdið tjóni á fólki og umhverfi jafnvel löngu eftir lekann.
Samkvæmt reglugerð um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna er gerð er krafa um að fyrirtæki sem geyma og/eða nota mikið eða mjög mikið magn hættulegra efna séu með öryggisstjórnkerfi þar sem fylgst er stöðugt og kerfisbundið með hættum og hættulegum efnum sem eru í stöðinni.
Starfsstöðvar sem eru skilgreindar í hærri mörkum gera í samstarfi við almannavarnir á svæðinu neyðaráætlun fyrir svæðið, það er ytri neyðaráætlun. Fyrirtækin halda auk þess kynningar og dreifa kynningarefni þar sem meðal annars kemur fram hver viðbrögð nágrannana þurfa að vera ef stórslys verð vegna hættulegu efnanna í starfsstöðinni.
Vinnueftirlitið birtir á heimasíðu sinni lista yfir fyrirtæki og starfsstöðvar sem heyra undir reglugerðina. Auk þess sér Vinnueftirlitið um að skipuleggja og sjá um eftirlit samkvæmt reglugerðinni.
Varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna
Reglugerð nr. 1050/2017 um
Hvers konar fyrirtæki falla undir reglugerð um stórslysavarnir?
Fyrirtæki sem geyma og/eða nota mikið eða mjög mikið magn hættulegra efna í sinni starfsemi. Starfstöðvar eru flokkaðar í lægri mörk eða hærri mörk eftir því magni efna sem um er að ræða. Hvað telst mikið fer eftir eðli efnanna og er magnið tilgreint í I. viðauka reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna.
Dæmi:
Starfsstöð sem geymir fljótandi própan gas. Ef magnið er yfir 50 tonn en minna en 200 tonn flokkast starfsstöðin í lægri mörk. Ef magnið fer yfir 200 tonn flokkast hún í hærri mörk. Lægri mörk geta verið allt niður í 200 kg ef efnin eru þess eðlis.
Ef nokkur efni eru til staðar sem hvert um sig er undir lægri mörkum, er magnið lagt saman samkvæmt tiltekinni reglu. Ef samanlagt magn nær ákveðnum mörkum heyrir starfsstöðin undir reglugerðina. Þetta er nánar skilgreint í I. viðauka reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna.
Eðli málsins samkvæmt eru gerðar meiri kröfur um eftirlit og upplýsingagjöf til fyrirtækja í hærri mörkum.
Starfsstöðvar sem falla undir reglugerð um stórslysavarnir:
Starfsstöðvar sem falla undir hærri mörk
- Alcoa Fjarðaál, Reyðarfirði
- Gasfélagið, Straumsvík
- Norðurál, Grundartanga
- Olíudreifing, Helguvík
- Olíudreifing, Hvalfirði
- Olíudreifing, Örfirisey
- Rio Tinto, Straumsvík
- Skeljungur, Örfirisey
Starfsstöðvar sem falla undir lægri mörk
- Atlantsolía, Hafnarfirði
- EAK fuel east, Keflavíkurflugvelli
- HS orka, Svartsengi
- Ísaga, Vogum
- Kemís, Reykjavík
- Landsbjörg flugeldageymsla, Hafnarfirði
- Olíudreifing, Akureyri
- Olíudreifing, Ísafirði
- Olíudreifing, Neskaupstað
- Olíudreifing, Reyðarfirði
- Olíudreifing, Vestmannaeyjum
- Ólafur Gíslason & Co., Reykjavík
- PCC Bakki Silicon, Húsavík
- Skeljungur, Akureyri
- Skeljungur, Eskifirði
Upplýsingar um starfsstöðvar sem falla undir reglugerð um stórslysavarnir
Samkvæmt 26. grein reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna veitir Vinnueftirlitið, sé þess óskað, nánari upplýsingar um stöðvarnar svo sem innsendar öryggisskýrslur, skrá yfir hættuleg efni og neyðaráætlanir.
Sumar upplýsingar kunna að vera bundnar trúnaði vegna almannahagsmuna. Upplýsingar eru veittar með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga og laga um upplýsingarétt um umhverfismál.
Hvaða upplýsingum þurfa starfsstöðvar að standa skil á?
Öll fyrirtæki sem heyra undir reglugerð um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna þurfa að gera áætlun um stórslysavarnir og veita tilteknar upplýsingar til almennings. Auk þess þurfa fyrirtæki í hærri mörkum að skila öryggisskýrslu og neyðaráætlun bæði innri og ytri.
Nánari upplýsingar um gögn og innihald má nálgast í skjalinu “Leiðbeiningar um hvaða gögnum, heiti og innihald, fyrirtæki þurfa að skila” hér fyrir neðan.
Leiðbeiningar um grenndarkynningar
Rekstraraðilar stórslysavarnaskyldra starfsstöðva í hærra mörkum þurfa að tryggja að einstaklingar og lögaðilar sem stórslys getur bitnað á fái óumbeðið viðhlítandi upplýsingar um öryggisráðstafanir og hvernig bregðast skuli við ef slys verður.
Sjá leiðbeiningar um framkvæmd grenndarkynninga.