Hoppa yfir valmynd

Tökum höndum saman:
Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni

Vinnueftirlitið boðar aðgerðavakningu gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman. Nýtt fræðsluefni og verkfæri hafa verið þróuð með það að markmiði að styðja við vinnustaði landsins í að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.

Aðgerðavakning - verkfæri

Verkfæri sem ætlað er að styðja við bæði stjórnendur og starfsfólk í að vinna saman að heilbrigðu vinnuumhverfi og koma í veg fyrir kynferðislega áreitni eru nú aðgengileg hér á vefnum. Gerð hafa verið upplýsingamyndbönd þeim til stuðnings ásamt fræðsluefni fyrir annars vegar atvinnurekendur og hins vegar starfsfólk

Vinnustaðir landsins eru hvattir til að kynna sér efnið og gefa skýr skilaboð um að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin. Sömuleiðis skilaboð um að brugðist verði við gerist þess þörf.

Nánar um aðgerðavakninguna.

Verkfærin og fræðsluefnið eru:

Sjónvarpsauglýsing

Hér að neðan má sjá sjónvarpsauglýsingu sem ætlað er að vekja athygli almennings og stjórnenda á vinnustöðum á aðgerðarvakningunni og þeim verkfærum sem til staðar eru til að bregðast við kynferðislegri áreitni:

  • Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni

Hvað er kynferðisleg áreitni í vinnuumhverfinu?

Kynferðisleg áreitni er óviðeigandi hegðun, snerting og orðfæri af kynferðislegum toga sem hefur neikvæð áhrif á þann sem fyrir henni verður. Hún getur einnig haft neikvæð áhrif á framleiðni, árangur og orðspor vinnustaða. Því er mikilvægt að atvinnurekendur leggi grunn að vinnuumhverfi sem leyfir ekki slíka hegðun og taki fljótt á málum þegar þau koma upp til að fyrirbyggja að þau valdi heilsutjóni.  

Kynferðisleg áreitni er skilgreind sem hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna.  

Kynferðisleg áreitni getur birst með ýmsum hætti og getur verið bæði orðbundin, táknræn og líkamleg. 

  • Dæmi um orðbundna hegðun: Tvíræðar athugasemdir eða brandarar með kynferðislegum undirtón.   
  • Dæmi um táknræna hegðun: Óvelkomin skilaboð og myndefni með kynferðislegum undirtón.  
  • Dæmi um líkamlega hegðun: Óviðeigandi og óvelkomin líkamleg snerting, króa af eða toga í einstakling. 

Gott er að hafa í huga  að kynferðisleg áreitni getur átt sér stað utan veggja vinnustaða og eftir að hefðbundnum vinnutíma líkur. Hún getur átt sér stað af hendi samstarfsfélaga eða utanaðkomandi aðila, til dæmis utanaðkomandi þjónustunotanda sem starfsmaður þarf að sinna utan sem innan hefðbundins vinnustaðar.

Kynferðisleg áreitni getur einnig átt sér stað á samfélagsmiðlum, af hendi samstarfsfélaga eða af hendi utanaðkomandi aðila, til dæmis þjónustunotanda eða birgja. Hún getur jafnframt átt sér stað á vinnutengdum viðburðum eins og námskeiðum, ráðstefnum og vinnutengdu félagsstarfi. 

Myndbönd um kynferðislega áreitni

Hér að neðan eru fræðslumyndbönd fyrir atvinnurekendur, stjórnendur og starfsfólk um kynferðislega áreitni, birtingamyndir, afleiðingar og viðbrögð ef slík mál koma upp í vinnuumhverfinu.

Hvað er kynferðisleg áreitni í vinnuumhverfinu?

  • Þetta myndband fjallar um hvað kynferðislega áreitni er og hvernig hún getur birst í hegðun og tali í vinnuumhverfinu.
    Myndband: Hvað er kynferðisleg áreitni í vinnuumhverfinu?

Viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu

  • Þetta myndband fjallar um leiðir til að fyrirbyggja einelti, áreitni og ofbeldi og viðbrögð samkvæmt áætlun um öryggi og heilbrigði ef slík mál koma upp.

Efni fyrir atvinnurekendur

Ein af lykilskyldum atvinnurekanda er að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks með því að fyrirbyggja að hættur skapist í vinnuumhverfinu og valdi heilsutjóni. Í áætlun um öryggi og heilbrigði má finna yfirlit yfir helstu áhættuþætti í vinnuumhverfinu og þær aðgerðir sem eiga að fyrirbyggja að þeir raungerist.  

Kynferðisleg áreitni er einn af þeim áhættuþáttum sem getur haft neikvæð áhrif á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Hér má finna upplýsingar sem ætlaðar eru atvinnurekendum og stjórnendum um hvernig unnt er að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni í vinnuumhverfinu. 


Ábyrgð atvinnurekenda þegar kemur að kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu

Kynferðisleg áreitni er áhættuþáttur sem getur haft neikvæð áhrif á vellíðan starfsfólks og því er mikilvægt að atvinnurekandi skapi vinnuumhverfi sem leyfir ekki slíka hegðun og grípi fljótt inn í þegar mál koma upp samkvæmt áætlun um öryggi og heilbrigði.

  • Meta áhættuþætti í vinnuumhverfinu með markvissum hætti, en í því felst meðal annars að bera kennsl á á aðstæður og hegðun sem geta aukið líkur á kynferðislegri áreitni. Skoða þarf sérstaklega aðstæður fólks sem vinnur eitt og á óreglulegum tímum í þessu samhengi.  
  • Bregðast við aðstæðum og hegðun sem fram komu í áhættumati, með aðgerðum og forvörnum sem geta dregið úr líkum á að kynferðislegri áreitni eigi sér stað. Forgangsraða þarf aðgerðum eftir alvarleika aðstæðnanna sem um ræðir.  
  • Gera starfsfólki ljóst með skýrum hætti að einelti, áreitni og ofbeldi sé hegðun sem sé ekki liðin í vinnuumhverfinu. Gott er að taka  skýr dæmi um ólíkar birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni.
  • Gera grein fyrir viðbrögðum vinnustaðarins við þeim málum sem koma upp.  Meðal annars þarf að upplýsa starfsfólk til hvers/hverra það getur leitað til að viðra upplifum eða kvarta yfir óviðeigandi hegðun. Einnig þarf hann að upplýsa starfsfólk um það ferli sem tekur við í kjölfar kvörtunar.  

Mikilvægt er að atvinnurekandi kynni sér vel efni reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.  

Upplýsingar um áhættuþætti og hvernig atvinnurekandi hyggst bregðast við og fyrirbyggja kynferðislega áreitni í vinnuumhverfinu þurfa að koma fram í skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði sem á vera til staðar á hverjum vinnustað. 


Hvað er áætlun um öryggi og heilbrigði?

Áætlun um öryggi og heilbrigði á að gefa góða yfirsýn yfir hættur í vinnuumhverfinu, helstu forvarnir til að fyrirbyggja að þær raungerist og viðbrögð við þeim á vinnustaðnum. Markmiðið er ávallt að fyrirbyggja slys og heilsutjón starfsfólks og bregðast hratt við þegar upp koma mál til að draga úr líkum á að þau valdi frekari skaða og endurtaki sig.

Áhættumat: yfirlit yfir hættur í vinnuumhverfinu. Skimað er fyrir hættum, þær metnar og síðan forgangsraðað eftir alvarleika.  

Áætlun um heilsuvernd: forvarnaaðgerðir til að koma í veg fyrir að hætturnar raungerist. Áætlunin byggir á niðurstöðu úr áhættumati.  

Viðbrögð við EKKO: aðgerðir í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi í vinnuumhverfinu. Einnig þurfa að koma fram aðgerðir sem grípa þarf til komi fram kvörtun um þessi mál. Þar á meðal er gott að taka fram til hvers/hverra starfsfólk getur leitað til að viðra áhyggjur eða kvarta yfir óviðeigandi samskiptum og hegðun. 


Verkfæri

Flæðirit – ferill máls

Tilgangur flæðiritsins er að styðja við stjórnendur þegar upp koma mál tengd einelti, áreitni og ofbeldi – frá því að tilkynning berst og þar til máli telst lokið.   

Aðgerðir í flæðiritinu eru í samræmi við kröfur sem gerðar eru við úrlausn slíkra mála í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Því er aðeins um ákveðnar grunnaðgerðir að ræða. 

Með því að smella á reitina hér að neðan opnast frekari upplýsingar.

Flæðiritinu fylgir gátlisti sem gott er að hafa til hliðsjónar til að tryggja góða málsmeðferð.

Efni fyrir starfsfólk

Hér má  finna upplýsingar sem ætlaðar eru starfsfólki þegar kemur að kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.


Hver er ábyrgð starfsfólks?

Starfsfólk ber ábyrgð á eigin hegðun í vinnuumhverfinu. Það má undir engum kringumstæðum leggja í einelti, áreita kynferðislega, mismuna á grundvelli kyns eða beita ofbeldi. Það er jafnframt ekki í lagi að líta fram hjá slíkri hegðun hjá öðrum í vinnuumhverfinu. Starfsfólk getur nálgast upplýsingar um forvarnir og viðbrögð í áætlun vinnustaðarins um öryggi og heilbrigði sem atvinnurekandi á að hafa aðgengilega fyrir öll á vinnustaðnum.

Starfsfólk á að láta atvinnurekanda vita ef það verður vitni að eða telur sig sjálft hafa orðið fyrir  einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti eða ofbeldi á vinnustað. Atvinnurekandi þarf ávallt að bregðast við í samræmi við áætlun vinnustaðarins um öryggi og heilbrigði til að uppræta þær aðstæður sem kvartað er yfir. Það er því mikilvægt að starfsfólk kynni sér áætlunina og viti hvar hægt sé að nálgast hana.

  • Ábyrgð þeirra og skyldur þegar kemur að hegðun og samskiptum í vinnuumhverfinu
  • Forvarnir og viðbrögð við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu
  • Til hvers/hverra starfsfólk geti leitað ef það vill eiga samtal eða viðra upplifun af erfiðum samskiptum. Sumir vinnustaðir velja að bjóða upp á slík samtöl til að veita starfsfólki, sem ekki er tilbúið til þess að leggja fram kvörtun,  stuðning og speglun á upplifun sem það er óvisst með.
  • Til hvers/hverra starfsfólk getur leitað til að leggja fram kvörtun eða koma með ábendingu um kynferðislega áreitni.

Hvað á starfsfólk að gera ef það upplifir eða verður vitni að kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu?

Starfsfólk sem verður fyrir eða verður vitni að kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu þarf að bregðast við með því að láta vita.  Í áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað eiga að vera gagnlegar upplýsingar fyrir starfsfólk um forvarnir og viðbrögð við kynferðislegri áreitni. Þar ætti meðal annars að koma fram til hvers/hverra eigi að leita til að láta vita, hvaða viðbrögðum megi búast við á vinnustaðnum og hvaða stuðningur sé í boði.  Mikilvægt er að starfsfólk kynni sér áætlunina vel og viti hvar hægt sé að nálgast hana.

Gott er að hafa það í huga að atvinnurekandi þarf að sýna varfærni og nærgætni með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsfólks í huga í öllum aðgerðum sínum.

Vinnustaðir geta ráðlagt starfsfólki hvernig það getur valið að bregðast við  óviðeigandi hegðun og kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu. Slíkar upplýsingar geta meðal annars komið fram í áætlun vinnustaðarins um öryggi og heilbrigði.

Þegar fólk treystir sér til getur það sett samstarfsfólki mörk og beðið  það um að hætta hegðun sem viðkomanda finnst óviðeigandi eða óþægileg. Stundum gerir fólk sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif hegðun þess hefur og þá getur endurgjöf gefið því tækifæri til að endurskoða hana og jafnvel breyta henni.

Sumir vinnustaðir bjóða starfsfólki  að eiga samtal og viðra upplifun og áhyggjur af samskiptum. Upplýsingar um til hvers/hverra starfsfólk getur leitað til að eiga slík samtöl ættu að vera í áætlun vinnustaðarins um öryggi og heilbrigði. Í slíkum samtölum getur starfsfólk meðal annars fengið speglun og stuðning og jafnframt upplýsingar um möguleg næstu skref. Slík samtöl geta stutt við starfsfólk sem er óvisst með hvað það eigi að gera og vill viðra upplifun sína áður en lengra er haldið. Samtal, viðrun eða aðrar almennar aðgerðir atvinnurekanda koma ekki í veg fyrir að starfsfólk geti lagt fram kvörtun sem sett verður í þann farveg sem reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi gerir ráð fyrir.

Í áætlun vinnustaðarins um öryggi og heilbrigði ætti starfsfólk að finna upplýsingar um til hvers/hverra það getur leitað til að leggja fram kvörtun eða koma með ábendingu. Mikilvægt er að starfsfólk kynni sér ferlið sem tekur við og við hverju það megi búast.  Gott er að starfsfólk hafi í huga að til að unnt sé að setja málið í þann farveg sem fyrrnefnd reglugerð gerir ráð fyrir þarf það að vera reiðubúið að skýra mál sitt nánar. Auk þess þarf að veita hlutaðeigandi starfsfólki, þar á meðal ætluðum geranda, aðgang að öllum upplýsingum og gögnum í málinu að teknu tilliti til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 


Hafðu samband

Viltu koma á framfæri ábendingu varðandi vinnuumhverfi öryggi eða heilsu starfsfólks á vinnustað?

Kannaðu þekkingu þína - taktu prófið!

Hvað veist þú um birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni í vinnuumhverfinu, forvarnir og viðbrögð? Taktu prófið hér að neðan og fáðu upplýsandi svör.
1 / 6

Ef þú heyrir vinnufélaga segja brandara með kynferðislegum undirtón ættir þú ekki að skipta þér af enda er ekki verið að beina orðum beint að þér?

Rannsóknir og tengt efni