Hoppa yfir valmynd

Heilsuefling

Heilsueflingu á vinnustöðum er ætlað að bæta vinnuumhverfið og vinnuskipulag, hvetja starfsfólk til virkrar þátttöku og stuðla að bættri líðan allra á vinnustaðnum. Þannig má lækka hlutfall þeirra sem kljást við einkenni sem rekja má til heilsuspillandi álags í starfi og afleiðingar þess. 

Heilsueflandi vinnustaður er til hagsbóta fyrir alla, bæði vinnustað, starfsfólk og samfélagið í heild.

  • Ávinningur starfsfólks eru færri slys og sjúkdómar, bætt heilsa, aukin vellíðan og meiri starfsánægja. Á heilsueflandi vinnustöðum er  starfsfólk líklegra til þess að halda starfsgetu sinni lengur og eiga þannig langa og farsæla starfsævi.
  • Hagur vinnustaðarins getur falist í öruggara vinnuumhverfi, færri fjarvistum starfsfólks vegna veikinda og slysa, aukinni framleiðni og minni starfsmannaveltu.
  • Ef vel er staðið að innleiðingu heilsueflingar á vinnustaðnum er líklegt að ávinningurinn verði ekki eingöngu hjá starfsfólki og fyrirtækinu, heldur samfélaginu öllu. Vinnustaður sem hlúir að heilsu starfsfólks hefur ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsfólk heldur getur það einnig haft áhrif á fjölskyldu starfsfólksins og þar með eflt lýðheilsu landsmanna.  

Því er mikilvægt að á sem flestum vinnustöðum sé heilsuefling sjálfsagður þáttur  í stefnu vinnustaðarins og að unnið sé markvisst að henni. 

Vinnueftirlitið hefur samkvæmt lögum það hlutverk að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi fyrir allt starfsfólk í landinu. Undanfarin ár hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á andlega og félagslega líðan starfsfólks samhliða aukinni áherslu á betri líkamsbeitingu við vinnu.  

Vinnueftirlitið, embætti landlæknis og VIRK starfsendurhæfingarsjóður hafa mótað með sér samstarf þar sem unnið er að viðmiðum til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi. Liður í þessu samstarfi er verkefnið; Heilsueflandi vinnustaðir sem byggir á sömu hugmyndafræði og verkefni landlæknis um Heilsueflandi samfélag og Heilsueflandi leik-, grunn – , og framhaldsskóla og er hýst á vefsíðu embættis landlæknis. 

Markmið verkefnisins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan starfsfólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði. Í samstarfinu felst mótun viðmiða fyrir heilsueflandi vinnustaði sem og upplýsingamiðlun til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi vinnuumhverfi. 

Á vefsvæði sem verður opnað þann 7. október 2021 verður aðgangur að gagnvirku netsvæði þar sem fyrirtækjum í landinu gefst tækifæri á að vinna að sinni eigin heilsueflingu á vinnustað.