Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Fylgjast þarf með þróun loftgæða við vinnu utandyra

21. mars 2024

Vinnueftirlitið telur brýnt, í ljósi eldsumbrota á Reykjanesi, að fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins hugi vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Á það ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra. Gæta þarf sérstaklega að vindáttum.

Vinnueftirlitid-fylgjumst-med-loftgaedum

Fylgjast má með gasmengun á dreifilíkani Veðurstofunnar.

Vinnueftirlitið hvetur atvinnurekendur til að fara yfir áhættumat sitt og viðbragðsáætlanir í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum með tilliti til breyttra aðstæðna til að gæta að öryggi og heilsu starfsfólks.

Við endurmat á áhættumati þurfa atvinnurekendur að kynna sér mengunarmörk vegna þeirra hættulegu gastegunda sem geta fylgt eldsumbrotum og fylgjast með upplýsingum almannavarna.

Mengunarmörk eru hæsta leyfilega meðaltalsmengun í andrúmslofti starfsfólks, gefið upp fyrir 8 klukkustundir og einnig fyrir 15 mínútna viðveru.

Allt starfsfólk þarf að þekkja áhættumatið, viðbragðsáætlanir og nota viðeigandi persónuhlífar.

Mesta hættan skapast af lofttegundum sem eru þyngri en andrúmsloftið og geta því borist með jörðu og myndað dauðagildrur í dældum, gjótum og kjöllurum. Því þarf að gæta sérstakrar varúðar ef fara þarf á slíka staði.

Sérstök aðgæsla vegna vinnu nálægt eldsumbrotum

Mælingar á styrk lofttegundanna eru nauðsynlegar þegar farið er nálægt eldsumbrotum og jafnvel í mikilli fjarlægð ef vindur stendur af eldstöðinni á starfsfólk. Ef hægt er að koma því við skal nota einstaklingsborna mæla sem gefa frá sér viðvörunarhljóð ef styrkurinn nálgast hættumörk.

Þau sem koma nálægt eldstöðvunum eða nýrunnu hrauni þurfa gasmæla sem mæla að minnsta kosti brennisteinsdíoxíð (SO2), súrefni (O2) og kolmónoxíð (CO). Auk þess þurfa þau gasgrímu með gassíu fyrir að minnsta kosti SO2 ef farið er mjög nálægt hrauninu. Til þess að tryggja öryggi er ráðlegt að rýma svæðið ef súrefni fer undir 20%, ef CO fer yfir 100 ppm eða ef SO2 fer yfir 1 ppm að meðaltali yfir 15 mínútna tímabil. Líka ef lykt fer að finnast í gegnum síugrímu.

Þau sem fara nálægt sjálfu gosinu og stróknum þurfa auk þess að hafa reykköfunarbúnað tiltækan og öruggar flóttaleiðir skipulagðar ef vindátt/veður eða breyttar aðstæður kalla á rýmingu.

Áréttað skal að varast ber að treysta um of á öndunargrímur með gassíum þar sem um margar tegundir lofttegunda er yfirleitt að ræða og síurnar geta mettast fljótt.

Gosmistrið getur í dagsbirtu verið blágrátt og gult og lyktað af brennisteini. Það getur valdið sandtilfinningu í augum og ertingu, kuldatilfinningu í hálsi og nefi, hósta og súru bragði í munni. Ef mistrið þéttist verður erfiðara að anda og fólk þreytist.

Á vef Umhverfisstofnunar má nálgast upplýsingar um loftgæði eftir landssvæðum sem gott er að fylgjast með.

Huga þarf sérstaklega að eftirtöldum gastegundum:

BRENNISTEINSDÍOXÍÐ (SO2)

Mengunarmörkin eru 0,5 ppm (1,3 mg/m3= 1.300 µg/m3) fyrir 8 klst. en 1 ppm (2,6 mg/m3 = 2.600 µg/m3) fyrir 15 mín.

Brennisteinsdíoxíð er litlaus lofttegund með stingandi lykt. Innöndun getur valdið sviða í nefi, munni, tárum, hósta og öndunarerfiðleikum. Ef styrkur er mikill er hætt við vökvamyndun í lungum (lungnabjúg) sem getur komið fram að nokkrum klukkustundum liðnum eða jafnvel allt að tveim sólahringum. Brennisteinsdíoxíð er um tvisvar sinnum þyngra en andrúmsloftið sem þýðir að það getur borist með jörðu áður en það blandast lofti að fullu, og jafnframt legið í lautum og lægðum. Brennisteinsdíoxíð myndar brennisteinssýru (H2SO4) og brennisteinssýrling (H2SO3) í snertingu við vatn, til dæmis í rigningu.

Vinna við gosstöðvar:

Við 100 ppm (260 mg/m3=260.000 µg/m3) styrk er brennisteinsdíoxíð lífshættulegt. Hægt að verja öndunarfæri með gasgrímu með síu (kolasía gerð E) og augu með þéttum öryggisgleraugum ef styrkurinn er ekki mjög hár. Takmörkuð ending er á síunum.

Þegar hætta er á mjög háum styrk í andrúmslofti þarf að nota reykköfunarbúnað (eða heilgrímu með loftkút eða inndælingu á hreinu lofti).

Vinna fjær gosstöðvum:

Fari styrkur brennisteinsdíoxíðs yfir mengunarmörkin 0,5 ppm (1,3 mg/m3 = 1.300 µg/m3) að meðaltali yfir 8 klst. tímabil skal stytta vinnutímann í hlutfalli við styrk mengunarinnar eða að starfsfólk noti viðeigandi öndunargrímur.

Fari styrkur brennisteinsdíoxíðs yfir mengunarmörkin 1,0 ppm (2,6 mg/m3 = 2.600 µg/m3) að meðaltali á 15 mínútna tímabili skal vinnu hætt eða að starfsfólk noti viðeigandi öndunargrímur. Ef ekki liggja fyrir mælingar á styrk brennisteinsdíoxíðs á vinnustað skal áætla hann, til dæmis með hliðsjón af mælingum Umhverfisstofnunar.

Ef ekki eru notaðar ferskloftsgrímur eða síað loft aðflutt með loftdælum, skal ekki unnið með öndunargrímur lengur en þrjár klukkustundir á dag og skal sá tími ekki vera samfelldur.

Við starfsemi innandyra ættu fyrirtæki að athuga möguleika á að sía aðflutt loft (innblástur) í loftræstikerfum.

KOLDÍOXÍÐ (KOLSÝRA) (CO2)

Mengunarmörkin eru 5.000 ppm (9.000 mg/m3) fyrir 8 klst.
en 10.000 ppm (18.000 mg/m3) fyrir 15 mín.

Koldíoxíð er litlaus lofttegund með stingandi lykt við háan styrk. Koldíoxíð er um 1,5 sinnum þyngri en loft og getur borist með jörðu og legið í lautum og lægðum. Koldíoxíð í miklu magni lækkar súrefnisinnihald lofts og getur valdið truflun á öndun, sem getur valdið meðvitundarleysi og dauða.

KOLMÓNOXÍÐ (CO)

Mengunarmörkin eru 20 ppm (29 mg/m3) fyrir 8 klst.,en 100 ppm (145 mg/m3) fyrir 15 mín. Kolmónoxíð er lit- og lyktarlaus lofttegund, álíka þung og loft. Áhrif kolmónoxíðs geta komið fram við lágan styrk þess. Innöndun getur valdið höfuðverk, svima, ógleði og ef magnið er mikið, uppköstum, andþyngslum, hjartsláttartruflunum og meðvitundarleysi.

  • CO veldur, við 800 ppm, sljóleika, verkjum og dofa.

  • CO veldur, við 1.600 ppm, dauða innan 2ja klst.

BRENNISTEINSSÝRA (H2SO4)

Mengunarmörkin eru 1 mg/m3 fyrir 8 klst., en 2 mg/m3 fyrir 15 mín. Fyrir úða eru mengunarmörkin 0,05 mg/m3 fyrir 8 klst. en 0,1 mg/m3 fyrir 15 mín. Brennisteinssýra virkar ætandi á slímhúð öndunarfæra, munns, augna og einnig húð.

BRENNISTEINSVETNI (H2S)

8 klst mengunarmörk eru 5 ppm (7 mg/m3). 15 mínútna mengunarmörk eru 10 ppm (14 mg/m3)Eitruð, eldfim lofttegund með sterkri óþægilegri lykt (hveralykt, lykt eins og af harðsoðnu eggi) heldur þyngri en loft. Við háan styrk (um 120 ppm) dofnar lyktarskynið eða hverfur, sem gerir lofttegundina sérstaklega varasama.Innöndun veldur sviða í nefi og koki, hósta, höfuðverk, svima, vanlíðan og uppsölu. Lungnabólga og vökvamyndun í lungum (lungnabjúgur) geta komið fram seinna. Hár styrkur í lofti sem andað er að sér veldur fljótt meðvitundarleysi, einn andardráttur getur verið nóg. Getur það leitt til þess að sá sem útsettur fyrir menguninni falli niður og þá getur jafnframt verið hætta á áverkum eins og höfuðáverka. Ef styrkur er mjög hár er hætta á krampa, öndunarlömun og varanlegum taugaskemmdum.

  • Við 20-50 ppm má reikna með ógleði og að lyktarskyn dofni.

  • Við 100-200 ppm er bráðahættuástand þá hverfur lyktarskyn og erting öndunarfæra vex.

  • Við 250-500 ppm verða menn sljóir. Meðvitundarleysi verður við 500 ppm.

  • Við 1.000 ppm verður öndunarlömun og dauði.

SALTSÝRA (HCl)

15 mínútna mengunarmörk eru 5 ppm (8 mg/m3)Saltsýra er lofttegund með stingandi lykt sem minnir á klór, veldur súrbragði í munni og er nokkru þyngri en loft. Veldur fljótt ertingu og svo ætingu á slímhúð öndunarfæra, munns, augna og einnig húðar í hærri styrk. Hósti og andnauð fylgja fljótt við hækkandi styrk.

FLÚRSÝRA (HF vetnisflúoríð gas)

8 klst mengunarmörk eru mengunarmörkin 0,7 ppm (0,6 mg/m3). 15 mínútna mengunarmörk eru 3 ppm (2,5 mg/m3).

Vetnisflúoríð gas er litlaus loftegund, léttari en loft. Myndar flúrsýru þegar hún kemst í snertingu við raka í andrúmsloftinu.

Flúrsýra er eitruð. Innöndun á gufum getur valdið sviða í nefi og koki, hósta, blóðnösum, uppköstum, andþrengslum og jafnvel losti og meðvitundarleysi. Lungnabjúgur getur komið allmörgum tímum síðar án þess að vart verði við önnur einkenni.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439