Hoppa yfir valmynd

ADR-námskeið

Grunnnámskeið veitir ökumönnum réttindi til flutnings á stykkjavöru. Með viðbótarnámskeiðum er hægt að öðlast réttindi til flutnings á efnum í tanki, til flutnings á sprengifimum efnum og til flutnings á geislavirkum efnum.

ADR-námskeið

Námskeiðin flokkast í:

  • Þriggja daga grunnnámskeið, samtals 18 tímar (hver tími er 45 mín), sem allir verða að byrja á að taka og veitir réttindi til að flytja hættulegan farm sem stykkjavöru fyrir utan geislavirk efni og sprengifim efni
  • Tveggja daga framhaldsnámskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm í tönkum
  • Eins dags framhaldsnámskeið sem veitir réttindi til að flytja geislavirkan farm
  • Eins dags framhaldsnámskeið sem veitir réttindi til að flytja sprengifiman farm.

Réttindin gilda í 5 ár en má framlengja ef viðkomandi hefur setið endurmenntunarnámskeið áður en þau renna út.

Námsefni

ADR-reglurnar á ensku:

ADR-námskeið fyrir ökumenn sem flytja hættulegan farm á vegum

Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og lýkur með prófi. Eftir grunnnámskeið, sem allir verða að sitja, er val um þrjú framhaldsnámskeið eftir því hvaða réttinda viðkomandi vill afla sér til viðbótar:

Grunnnámskeið, 3 dagar (18 tímar), veitir ökumönnum réttindi til flutnings á stykkjavöru, þó ekki sprengifim eða geislavirk efni.

  • Viðbótarnámskeið við grunnnámskeið, 2 dagar (12 tímar), veitir réttindi til flutnings á efnum í tanki
  • Viðbótarnámskeið við grunnnámskeið, 1 dagur (8 tímar), veitir réttindi til flutnings á sprengifimum efnum
  • Viðbótarnámskeið við grunnnámskeið, 1 dagur (8 tímar), veitir réttindi til flutnings á geislavirkum efnum

Innifalið í námskeiðinu er verkleg kennsla í skyndihjálp og notkun slökkvitækja.

ADR endurmenntunarnámskeið fyrir ökumenn sem flytja hættulegan farm

Samkvæmt reglugerð nr. 1077/2010 um flutning á hættulegum farmi á landi er gildistími ADR-skírteinis ökumanns sem annast flutning á hættulegum farmi 5 ár.

Heimilt er að framlengja gildistímann um fimm ár í senn hafi handhafi ADR-skírteinisins á síðustu tólf mánuðum áður en gildistíminn rann út lokið endurmenntunarnámskeiði og staðist próf í lok þess.

Endurmenntunarnámskeið eru kennd í netnámi og opin þátttakendum frá mánudegi til föstudags. Það tekur um 5-6 klukkustundir að fara í gegnum efnið og er hægt að gera það hvenær sem hentar á meðan námskeiðin standa opin. Námskeiðunum lýkur með prófi á föstudegi.

Til að að endurnýja réttindi fyrir flutning á hættulegum farmi í tönkum og/eða flutning á sprengifimum farmi og/eða flutning á geislavirkum farmi verður viðkomandi að hafa gild réttindi fyrir stykkjavöruflutninga (grunnnámskeið).

Stafræn ADR-skírteini

Stafræn skírteini með ADR-réttindum eru fyrir alla sem hafa réttindi til að flytja hættulegan farm og eiga snjallsíma. Skírteinin sanna fyrir lögreglu að stjórnandi ökutækis sé með gild ADR-réttindi en á þeim koma fram sömu upplýsingar og á hefðbundnum ADR-skírteinum.

Stafrænu skírteinin gilda aðeins á Íslandi.

Þau eru fyrir notendur Android og iOS-síma en eingöngu er hægt að setja þau upp á einu símtæki í einu. Ef þau er sett upp í öðrum síma afvirkjast þau í tækinu sem þau voru í áður.