Hoppa yfir valmynd

Stefnur

Vinnueftirlitið þróast í takt við örar breytingar á vinnumarkaði. Ný framtíðarsýn og stefna tók gildi 1. janúar 2023. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila, fagráðuneyti, starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar. Stefnan gildir út árið 2028.

Framtíðarsýn og stefna Vinnueftirlitsins

Framtíðarsýn til ársins 2028

Með öflugu vinnuverndarstarfi, sem er í stöðugri þróun í takti við örar breytingar á vinnumarkaði, hefur Vinnueftirlitið stuðlað að bættri vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks.

Árangursríkt vinnuverndarstarf er samstarfsverkefni atvinnurekenda og starfsfólks við að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum og þannig er komið í veg fyrir vinnuslys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks.

Góð heilsa skilar atvinnulífinu aukinni framleiðni og samfélaginu  ávinningi. Áreiðanlegar upplýsingar og greining gagna um þróun helstu áhættuþátta í vinnuumhverfi gerir okkur kleift að forgangsraða í eftirliti, forvarnarstarfi og upplýsingamiðlun.

Nýsköpun, umbætur og einföldun eru lykilatriði í okkar starfi og við höfum verið leiðandi í að benda á aðferðar, bæði nýjar og þekktar, til að bæta vinnuvernd á vinnustöðum. 

Fimm meginmarkmið:

Stefna Vinnueftirlitsins er byggð upp í kringum fimm meginmarkmið. Hvert og eitt þeirra á að stuðla að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika.

Stefna Vinnueftirlitsins er byggð upp í kringum fimm meginmarkmið; Vellíðan, Öryggi, Einföldun, Aðlögun og Þáttöku

Gildi

Gildin okkar eru kjarninn í starfseminni. Þau eru:

Frumkvæði

Frumkvæði felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að  framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.

Forvarnir

Ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.

Fagmennska

Fagmennska felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.

Tenging við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna

Við val á aðgerðum til að koma áherslum stefnunnar í framkvæmd verður horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun


Vellíðan

 • 1. Draga úr fjarveru fólks frá vinnu með aukinni vinnuvernd.
 • 2. Efna til almennrar umræðu um mikilvægi góðrar vinnustaðamenningar, þar á meðal samskipti á vinnustöðum, í síbreytilegu umhverfi, til að stuðla að vellíðan og koma í veg fyrir neikvæð samskipti svo sem áreitni, ofbeldi og einelti.
 • 3. Draga úr vinnutengdum stoðkerfisvanda en stoðkerfisvandi er önnur helsta orsök örorku hér á landi.
 • 4. Auka vitund almennings um vinnutengda kulnun starfsfólks og hvernig megi fyrirbyggja hana.

Við viljum stuðla að góðri heilsu og vellíðan starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði með fræðslu, öflugu forvarnarstarfi og áhættumiðuðu eftirliti.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna_Vellíðan


Öryggi

 • 5. Stuðla að nýsköpun á sviði vinnuverndar, svo sem með stafrænum ferlum og verkfærum og miðlun á fræðslu.
 • 6. Fækka vinnuslysum á innlendum vinnumarkaði með markvissum forvörnum.
 • 7. Efla vitund einstakra hópa á vinnumarkaði um vinnuvernd, svo sem starfsfólks sem skilur ekki íslensku, ungs fólks og starfsfólks er sinnir áhættusömum störfum.
 • 8. Skapa umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um vinnuvernd í mannvirkjagerð í víðum skilningi.
 • 9. Miðla orsökum vinnuslysa og þróun þeirra til hagsmunaaðila svo hægt sé að bregðast við hratt og örugglega.

Við fylgjumst með skipulagi öryggismála á vinnustöðum, vinnuvélum og notkun hættulegra efna og berum kennsl á helstu áhættuþætti í umhverfinu.

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna_Öryggi


Þátttaka

 • 10. Styðja og hvetja vinnustaði landsins til að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi sem byggist á samvinnu atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks.
 • 11.  Stuðla að þátttöku allra á vinnustaðnum, þ.e. atvinnurekanda, stjórnenda og starfsfólks, í virku vinnuverndarstarfi þar sem allir axla ábyrgð á góðri vinnuvernd og vellíðan á vinnustaðnum.
 • 12. Hvetja vinnustaði til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði sem tekur á öllum fimm meginstoðum vinnuverndar.
 • 13. Hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar þannig að stuðlað sé að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnuverndarstarfs.
 • 14. Auka samstarf við háskólasamfélagið og aðrar rannsóknarstofnanir um rannsóknir á sviði vinnuverndar.

Við hvetjum vinnustaði til þátttöku í kerfisbundnu vinnuverndarstarfi enda leiði góð vinnustaðamenning og heilsusamlegt umhverfi til samfélags- og fjárhagslegs ávinnings fyrir okkur öll.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna_Þátttaka


Aðlögun

 • 15. Meta og bregðast við áhrifum aukinnar tæknivæðingar á vinnuumhverfið, bæði jákvæð og neikvæð áhrif, svo sem að starfa með vélum og vélmennum, einföldun starfa og einhæfing.
 • 16. Meta áhrif samblands fjarvinnu og vinnu á vinnustað á vinnuvernd starfsfólks (e. hybrid labour market).
 • 17. Meta áhrif aukinnar kröfu um veitingu heilbrigðis- og félagsþjónustu á einkaheimilum notenda á vinnuvernd starfsfólksins.
 • 18. Efla samtal við hagaðila, þ.á m. aðila vinnumarkaðarins, um vinnuvernd þeirra sem sinna netvangsstörfum (e. platform workers) og þeirra er starfa í öðrum löndum en vinnuveitandi þeirra hefur staðfestu í.
 • 19. Hvetja til umræðu um umhverfisáhrif af notkun vinnuvéla og tækja ásamt mikilvægi vinnuverndar þeim tengdum á vinnustöðum og hvetja til notkunar á umhverfisvænum vinnuvélum og tækjum.

Við sjáum fyrir okkur mun örari breytingar á vinnumarkaði á næstu árum sem munu hafa áhrif á starfsumhverfi fólks og vinnuaðferðir og horfa þarf til vinnuverndarsjónarmiða í ljósi þess.

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna_Þátttaka


Einföldun

 • 20. Efla þróun stafrænna þjónustuferla sem bæta þjónustu og notendaupplifun þar sem upplýsingatæknin er nýtt á skilvirkan hátt til að auka gæði og áreiðanleika.
 • 21. Efla eftirlit stofnunarinnar með einföldun og þróun ferla, nýsköpun og nýtingu á tækni, svo sem stafrænt eftirlit, í samræmi við góða stjórnsýslu.
 • 22. Koma á auknu faglegu samstarfi þvert á stofnunina og efla faglega verkefnisstjórnun.
 • 23. Efla gæði eftirlitsskoðana og eftirfylgni gagnvart vinnustöðum.

Við vinnum markvisst að því að samræma verkferla, efla gæði og einfalda nálgun okkar og samskipti út á við með stafrænum leiðum og með þverfaglega nálgun að leiðarljósi.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna_Einföldun

Upplýsingastefna

Vinnueftirlitið leggur áherslu á að miðla traustum, skýrum og áreiðanlegum upplýsingum um málefni sem undir stofnunina heyra í því skyni að greiða fyrir þekkingaröflun og stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi, sem er lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar.

Stefna og viðbragðsáætlun vegna eineltis, áreitni og ofbeldis

Í öllu starfi Vinnueftirlitsins eiga starfsmenn og stjórnendur að sýna kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun verður ekki umborin á vinnustaðnum og er bæði stjórnendum og starfsmönnum með öllu óheimil.

Vinnueftirlitið skal koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun í starfi stofnunarinnar með forvörnum og virkri viðbragsáætlun.

Persónuverndarstefna

Markmið persónuverndarstefnu okkar er að leggja áherslu á persónuvernd með því að tryggja lögmæta, sanngjarna og gagnsæja meðferð allra persónuupplýsinga sem stofnunin vinnur með. Í persónuverndarstefnu þessari upplýsum við nánar um vinnslu persónuupplýsinga í tilteknum verkefnum stofnunarinnar.

Stefna okkar er að gera með skýrum hætti grein fyrir hvaða persónuupplýsingar stofnunin vinnur með og í hvaða tilgangi. Persónuverndarstefna þessi er því endurskoðuð reglulega.

Launastefna Vinnueftirlitsins

Forstjóri ber ábyrgð á launastefnu Vinnueftirlitsins og er jafnlaunastefna þess órjúfanlegur hluti af launastefnu þess.

Stefna Vinnueftirlitsins er að allt starfsfólk Vinnueftirlitsins njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Með jöfnum launum er átt við að laun og önnur starfskjör skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur, karla og önnur kyn. Skulu viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun hvorki fela í sér beina né óbeina kynjamismunun.

Jafnréttisáætlun

Í jafnréttisáætluninni eru sett fram markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf Vinnueftirlitsins. Hluti áætlunarinnar er einnig stefna og viðbragðsáætlun Vinnueftirlitsins vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis eða annarrar ótilhlýðilegrar hegðunar og viðverustefna.

Vinnueftirlitið er eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt og allir hafa jöfn tækifæri til að nýta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni, búsetu, aldri, kynhneigð, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, fötlun, skertri starfsgetu eða öðrum ómálefnalegum þáttum.

Þjónustustefna

Vinnueftirlitið ætlar að veita framúrskarandi þjónustu til að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu.

Mannauðsstefna

Hjá Vinnueftirlitinu starfar metnaðarfullur og samheldinn hópur sem leggur áherslu á að ná fram því markmiði að allir komi heilir heim úr vinnu. Við leitumst við að vera fyrirmyndarvinnustaður á sviði vinnuverndar og viljum að fagþekking starfsfólks sé eftirsótt til ráðgjafar í íslensku atvinnulífi. Við störfum saman í fagteymum og höfum skilvirka og vandaða stjórnsýslu að leiðarljósi. Vinnueftirlitið býður fjölskylduvænt starfsumhverfi, samkeppnishæf starfskjör og tækifæri til að þróast og þroskast í starfi.

Fjarvinnustefna

Markmið Vinnueftirlitsins er að vera eftirsóttur fyrirmyndarvinnustaður og vera samkeppnishæft um framúrskarandi starfsfólk. Starfsfólk getur óskað eftir því að gera samning um fjarvinnu henti það því og starfinu. Markmið fjarvinnusamnings er að koma til móts við það starfsfólk sem kýs sjálft að vinna að hluta fjarri vinnustað.

Umhverfis- og loftslagsstefna

Vinnueftirlitið tekur virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og leitast við að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki.