Hoppa yfir valmynd

Lyftur & rennistigar

Samantekt

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með lyftum og rennistigum á Íslandi. Almennt gildir reglugerð um vélar og tæknilegan búnað um innflutning og byggingu á lyftum. Um mismunandi tegundir lyfta hafa verið settar sérstakar reglur um skráningu, uppsetningu og eftirlit.

Fólks- & vörulyftur

Um fólks- og vörulyftur í byggingum sem gerðar eru til að flytja fólk og vörur á milli hæða gildir reglugerð  um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur og reglugerð  um skráningu, eftirlit og umsjón með lyftum og lyftubúnaði til fólks- og vöruflutninga.

Skylt er að skrá fólkslyftur áður en þær eru settar upp og skulu þær teknar út af óháðum aðila áður en þær eru teknar í notkun. Vörulyftur, matarlyftur, lyftur fyrir fólk með fötlun og rennistigar eru teknir út af Vinnueftirlitinu áður en þær eru teknar í notkun. Vörulyftur og matarlyftur eru skoðaðar annað hvert ár en hjólastólalyftur og rennistigar eru skoðaðir árlega.

Við skráningu á nýrri fólkslyftu skal uppsetningaraðili skila inn útfylltu eyðublaði um skráningu á lyftu, samræmisyfirlýsingu frá framleiðanda, lokaskoðunarvottorði frá óháðum aðila (ef við á) og þjónustusamningi milli eiganda og uppsetningaraðila sem kveður meðal annars á um fjölda heimsókna í þjónustu- og eftirlitsskoðunum.

Athugið

Þegar öll gögn eru komin gefur Vinnueftirlitið út yfirlýsingu um verklok. Notkun á lyftu er óheimil áður en yfirlýsing um verklok hefur verið gefin út.

Verði breytingar á eiganda eða umsjónarmanni lyftunnar skal umsjónarmaður tilkynna um það til Vinnueftirlitsins. Þarf þá nýr þjónustusamningur að berast með nafni og kennitölu nýs umsjónarmanns eða eiganda lyftu.

Vinnueftirlitið getur krafist endurskoðunar á þjónustusamningi sé hann ekki fullnægjandi samskvæmt 2.-4. málsgrein 6. greinar reglugerðar skráningu, eftirlit og umsjón með lyftum og lyftubúnaði til fólks- og vöruflutninga, bannað notkun lyftu eða beitt dagsektum sé ákvæðum um þjónustusamning ekki framfylgt.

Bílalyftur

Bílalyftur eru lyftur gerðar til að lyfta ökutækjum. Þær eru af ýmsum gerðum, ýmist vökvalyftur eða víralyftur. Þær geta verið tveggja pósta, fjögurra pósta auk þess sem póstarnir geta verið sjálfstæðir.

Bílalyftur eru skráðar áður en þær eru settar upp og skoðaðar annað hvert ár hjá Vinnueftirlitinu.

 

Skíðalyftur

Skíðalyftur eru togbrautir, toglyftur og stólalyftur þar sem farþegi ferðast með á milli endastöðva á skíðasvæðum.

Skíðalyftur eru skráðar áður en þær eru settar upp eða færðar og skoðaðar árlega af Vinnueftirlitinu.