Hoppa yfir valmynd

Efnafræðilegir þættir
Efni & efnahættur

Hættuleg efni eru skilgreind út frá þeirri hættu sem þau geta valdið. Þau geta til dæmis verið eldfim, sprengifim, eitruð og geislavirk. Vinnuaðferðir ættu að vera í stöðugri endurskoðun með tilliti til þess hvort ástæða sé til að nota hættuleg efni við vinnu. Ef hægt er að ná sama árangri með hættulausum eða hættuminni efnum skal velja þau.

Almennt

Hættuleg efni eru skilgreind út frá þeirri hættu sem þau geta valdið. Hættur geta verið mismunandi eftir eðli efnanna.

Efni geta verið:
  • Sprengifim
  • Eldfim
  • Eldnærandi
  • Geislavirk
  • Eitruð
  • Ertandi
  • Ætandi
  • Umhverfisspillandi
  • Annars konar hætta

Mismunandi hættur geta fylgt sama efninu. Það getur til dæmis bæði verið eldfimt og ætandi. Með annars konar hættu er átt við að áhrif efnanna koma ekki endilega fram um leið, heldur eftir lengri tíma. Sem dæmi má nefna að starfsmaður sem er útsettur fyrir krabbameinsvaldandi efni finnur jafnvel ekki fyrir einkennum fyrr en nokkrum árum eða áratugum síðar. Hann er þá mögulega kominn með krabbamein sem má rekja til þess að hann var útsettur fyrir krabbameinsvaldandi efni fyrir einhverjum árum. Á þetta meðal annars  við um asbest.

Annað dæmi er loft sem er í hylki undir þrýstingi. Í þessu tilfelli stafar hætta af þrýstingnum en hylkið getur til dæmis sprungið í eldsvoða.

Mikilvægt er að hafa í huga að efni geta borist inn í líkamann eftir mismunandi leiðum eins og um öndunarfæri, húð eða meltingarveg. Á vinnustöðum er hættan mest við innöndun, svo við húðsnertingu en í fæstum tilvikum er leiðin inn í líkamann í gegnum meltingarveg.

Jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að ástand efnanna skiptir máli. Skaðlaus efni geta verið hættuleg í öðru ástandi eins og til dæmis heitt vatn eða hveitiryk, sem getur valdið sprengingu við ákveðnar aðstæður. Þá geta tvö eða fleiri skaðlaus eða skaðlítil efni stundum hvarfast saman og myndað mun hættulegri efni. Eins getur sama efni verið í mismunandi ástandi svo sem lofttegund, vökvi eða fast.

Hafa skal í huga að vinnsluaðferðir eða vinnulýsingar skulu vera í stöðugri endurskoðun með tilliti til þess hvort ástæða sé til að nota hættuleg efni við vinnu. Ef hægt er að ná sama árangri með hættulausum eða hættuminni efnum skal að jafnaði nota hættuminni efnin.

Hættuleg efni

Hættuleg efni eru skilgreind út frá hættunni sem þau valda eða geta valdið. Til að teljast hættuleg þurfa þau að uppfylla skilyrði í reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, eða svokallaðri CLP reglugerð. Í henni er ítarlega farið yfir hvaða eiginleikar efna valda því að þau teljast til dæmis ætandi.

Geislavirk efni falla ekki undir reglugerðina. Sérstök lög, sem eru á forræði Geislavarna ríkisins, fjalla um notkun og merkingar geislavirkra efna.

Umbúðir hættulegra efna eiga samkvæmt reglugerð að vera merktar með hættumerkjum sem gefa hættur sem stafa af efnunum til kynna. Þetta eru svokölluð GHS merki, en nánar er fjallað um þau í bæklingnum Hættuleg efni á vinnustað hér að neðan.

Auk merkinga á umbúðum skal merkja vinnusvæði þar sem hættuleg efni eru notuð með öryggismerkjum. Það skal gert í samræmi við reglur um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum.

Hættumerktum efnum eiga að fylgja öryggisblöð. Öryggisblöð eru upplýsingablöð í sextán liðum þar sem fjallað er um hættur, forvarnir, persónuhlífar og svo framvegis sem eiga við um viðkomandi efni.

Birgjar efna eiga að afhenda öryggisblöð með efnum á íslensku eða ensku, kaupendum að kostnaðarlausu. Atvinnurekendur bera ábyrgð á að kynna starfsfólki efni blaðanna. Nánari upplýsingar um öryggisblöð má finna á vef Umhverfisstofnunar.

Eiturefni eru efni sem geta valdið bráðri eitrun. Þetta eru efni sem fá merkið GHS 06 eða hauskúpu samkvæmt CLP reglugerðinni, eða reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna.

Ef eiturefni eru notuð á vinnustöðum þarf sérstakt eiturefnaleyfi frá Vinnueftirlitinu.

Krabbameinsvaldandi efni eru efni sem er þekkt, út frá reynslu eða tilraunum, að geti valdið krabbameini í mönnum eða dýrum. Oftast er um langtímaáhrif að ræða og oft líða ár eða áratugir þar til afleiðingarnar koma fram.

Nanóefni er ört vaxandi flokkur efna. Um er að ræða efni, annað hvort hættumerkt eða ekki, sem eru unnin þannig að þau eru í formi lítilla agna, 1-100 nm. Efnin eru til dæmis notuð við yfirborðsmeðhöndlun flata meðal annars til að auðvelda sótthreinsun.

Ýmsar rannsóknir benda til að efni geti verið skaðlegri á nanó-formi en hefðbundnu.

Sprengifim efni eru notuð í þónokkrum mæli hérlendis við mannvirkjagerð. Til að mega kaupa og nota sprengiefni þarf sérstakt leyfi lögreglu sem menn öðlast að lokun bóklegu námskeiði hjá Vinnueftirlitinu og eftir að hafa staðist verklegt próf viðurkennds sprengidómara.

Varnarefni (útrúmingarefni/sæfivörur) eru efni sem eru notuð til útrýmingar á meindýrum eða til að vinna gegn plöntusjúkdómum. Þessi efni eru ekki alltaf flokkuð sem eiturefni, það er að segja með GHS 06 merki.

Til að mega kaupa og nota varnarefni við vinnu þarf leyfi frá Umhverfisstofnun.

Geymsla efna

Hættumerkt efni eiga að vera geymd á öruggan hátt á vinnustöðum. Efnin skulu geymd skipulega í læstri geymslu milli þess sem þau eru notuð. Vinnustaðir eiga að halda efnalista sem er uppfærður reglulega eftir því sem ástæða er til.

Mikilvægt er að yfirfara geymslur reglulega og farga á viðeigandi hátt efnum sem eru ekki í notkun. Ef efni daga uppi í geymslum geta þau skapað sérstaka hættu. Á það ekki hvað síst við um efni í plastumbúðum. Plast getur orðið stökkt með tímanum og umbúðir gefið sig. Þá getur efni lekið úr þeim með tilheyrandi hættu.

Mengunarmörk

Í gildi eru mengunarmörk á vinnustöðum samanber reglugerð um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum. Í reglugerðinni er tiltekinn hámarksstyrkur efna sem má vera í innilofti á vinnustöðum bæði miðað við átta tíma vinnudag og fimmtán mínútna toppa (þakgildi).

Atvinnurekendum ber að tryggja að mengun sé innan þeirra marka sem tiltekin eru.

Persónuhlífar vegna efna

Persónuhlífar eru í eðli sínu þriðja stigs forvörn. Það þýðir að ef ekki er hægt að fjarlægja efnið (hætta að nota það), gera ráðstafanir til að forðast snertingu eða tryggja loftræstingu skal notast við persónuhlífar.

Persónuhlífar geta verið hanskar, hlífðarfatnaður eða öndunargrímur. Mikilvægt er að nota réttar persónuhlífar. Í lið átta í öryggisblöðum, sem eiga að fylgja hættulegum efnum, á að koma fram hvernig persónuhlífar skal nota þegar viðkomandi efni er notað.

Áhættumat vegna efna

Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eru notuð skal gera sérstakt áhættumat vegna efna. Áhættumatið er hluti af skriflegri áætlun fyrirtækisins um öryggi og heilbrigði.

Til stuðnings má nota rafrænt verkfæri til að greina efnahættur, sem finna má hér að neðan. Um er að ræða handhægt verkfæri á íslensku sem má nota til að finna og draga úr hættum sem tengjast hættulegum efnum og efnavörum á vinnustað.

Stórslysavarnir

Stórslys er stjórnlaus atburðarás við meðferð efna svo sem mikill leki, eldsvoði eða sprenging sem mönnum og umhverfi stafar alvarleg hætta af.

Asbest

Asbestþræðir eru mjög slitsterkir og þola mjög mikinn hita. Asbest var á árum áður notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og við ýmiskonar iðnað.

Við vinnu með asbest myndast nálar- eða þráðlaga asbestryk. Þetta ryk er hættulegt heilsunni og er notkun þess bönnuð á Evrópska efnahagssvæðinu.