Hoppa yfir valmynd

Tökum höndum saman:
Eflum heilbrigða vinnustaðamenningu

Vinnueftirlitið boðar aðgerðavakningu undir yfirskriftinni #Tökum höndum saman: Eflum heilbrigða vinnustaðamenningu. Markmiðið er að vekja athygli á því að heilbrigð vinnustaðamenning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks og er ein áhrifaríkasta forvörnin gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Hún hefur auk þess jákvæð áhrif á árangur og orðspor vinnustaða.

Aðgerðavakning - fræðslu- og stoðefni

Stofnunin hefur unnið nýtt fræðslu- og stoðefni um vinnustaðamenningu og frumsýnir nýja sjónvarpsauglýsingu sem ætlað er að vekja athygli á efninu og vinnustaðamenningu almennt.

Efnið er eftirfarandi:

Sjónvarpsauglýsing

Hér er að finna nýja sjónvarpsauglýsingu með Birni Stefánssyni leikara í leikstjórn Reynis Lyngdals sem ætlað er að vekja athygli á ofangreindu efni. Þar er kynntur til sögunnar öryggisdans við grípandi lag til að minna á mikilvægi vinnuverndar í daglegum störfum.

  • Ertu í lagi eftir daginn?

Vinnustaðamenning

Með vinnustaðamenningu er átt við þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, samvinnu og við lausn mála.

Þegar vinnustaðamenning einkennist af trausti, virðingu, sanngirni, heiðarleika og þátttöku eykst sálfélagslegt öryggi* og vellíðan starfsfólks.

Hvað er sálfélagslegt öryggi?

*Sálfélagslegt öryggi felur í sér að starfsfólk treystir sér til að koma fram með hugmyndir, spurningar, vangaveltur eða gera mistök. Það treystir sér líka til að ræða ágreining innan teymis án þess að óttast refsingu eða niðurlægingu. Í því felst einnig að starfsfólk upplifir að það geti bent á þegar öryggisatriðum er ábótavant, sagt frá óæskilegri hegðun og hvernig því líður. Amy Edmundson. Psychological Safety and Learning Behavior in Work Teams

Atvinnurekendur og stjórnendur móta vinnustaðamenningu með þeim áherslum sem þeir velja að setja í forgang og festa í sessi með því að ganga á undan með góðu fordæmi. Sem dæmi má nefna að til að öryggi, vellíðan og heilbrigð samskipti verði hluti af ríkjandi vinnustaðamenningu verða stjórnendur að leggja áherslu á þá þætti. Starfsfólk tileinkar sér þessar áherslur og hefur að leiðarljósi í vinnulagi og samskiptum við aðra.

Þótt stjórnendur gegni lykilhlutverki við að skapa heilbrigða vinnustaðamenningu þá hefur starfsfólk líka hlutverki að gegna og verður að taka þátt og axla ábyrgð á verkefnum sínum og samskiptum við aðra.

Mikilvægt er að stjórnendur séu meðvitaðir um hver vinnustaðamenningin er á vinnustaðnum. Það vill brenna við að viðmið og viðhorf séu ríkjandi innan vinnustaða sem ekki eru í samræmi við stefnu þeirra eða gildi. Sem dæmi getur það verið stefna vinnustaðar að ná árangri með öflugri liðsheild en menningin innan vinnustaðarins einkennist af samkeppni milli starfsfólks sem rengir sífellt hvert annað. Einnig getur nýsköpun verið mikilvægt gildi vinnustaðar en í menningunni ríkir fastheldni og hræðsla við nýjungar. Þegar misræmi er þarna á milli er hætta á að starfsfólki líði illa og að vinnustaðurinn nái ekki árangri.

Hið sama gildir þegar tryggja á vellíðan starfsfólks og öryggi. Vinnustaðir þurfa að ganga úr skugga um að það séu ekki einhver önnur viðhorf eða viðmið höfð að leiðarljósi við framkvæmd vinnunnar en þau sem standa í öryggisreglum eða samskiptasáttmála vinnustaðarins. Menningin stýrir hegðun fólks sem aftur setur viðmiðin. Því þarf að tryggja að öryggi og vellíðan starfsfólks sé alltaf hluti af þeirri menningu sem einkennir vinnustaðinn. Þannig aukast líkur á því að farið sé eftir þeim reglum sem settar eru.

Þættir sem geta mótað vinnustaðamenningu

Það eru margir þættir sem móta vinnustaðamenningu. Leiðtogafærni, ríkjandi gildi og viðhorf, ferlar og áætlanir vinnustaðarins eru dæmi um nokkra þeirra sem og eftirfarndi:

  • traust
  • álag og kröfur
  • samskipti
  • sálfélagslegt öryggi
  • jafnvægi vinnu og einkalífs
  • inngilding í hópi starfsfólks
  • stuðningur, bæði áþreifanlegur og tilfinningalegur
  • sjálfræði í starfi
  • viðurkenning og endurgjöf
  • skýrir öryggisferlar og áætlanir, til dæmis áætlun um öryggi og heilbrigði
  • þjálfun og fræðsla
  • samtal um líðan starfsfólks, til dæmis um streitu, kvíða og þunglyndi

 

Einkenni heilbrigðrar vinnustaðamenningar

Heilbrigð vinnustaðamenning einkennist meðal annars af opnum og heiðarlegum samskiptum, virðingu, vinsemd og inngildingu. Þegar vinnustaðamenningin er heilbrigð leiðir hún af sér öryggi og vellíðan starfsfólks. Jafnframt er líkur á því að, starfsfólk sem er að fara í gegnum tilfinningalega erfiðleika eins og kvíða og þunglyndi, upplifi vægari einkenni. Önnur dæmi eru:

  • góð og skýr leiðtogafærni
  • öll í vinnuumhverfinu eru ábyrg fyrir sinni hegðun
  • starfsfólk þekkir sín hlutverk og skyldur
  • opin og heiðarleg samskipti þar sem starfsfólk treystir sér til að tjá skoðanir sínar án þess að óttast afleiðingar (það ríkir sálfélagslegt öryggi)
  • farið er eftir skýrum samskiptareglum vinnustaðarins
  • gagnkvæm virðing ríkir fyrir ólíkum skoðunum og hugmyndum
  • samvinna er uppbyggileg og árangursrík og opin fyrir ólíkum skoðunum og viðhorfum
  • starfsfólk upplifir að það tilheyri og að framlag þess skiptir máli
  • starfsfólk er hvatt til að tjá sig um mál og þau eru leyst fljótt
  • inngilding og virðing fyrir ólíkum skoðunum leyfir öllum að njóta sín
  • traust ríkir innan vinnustaðarins

Óheilbrigð vinnustaðamenning

Vinnustaðamenning leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks. Ef menningin er óheilbrigð þá aukast líkur á að öryggisferlar og áætlanir sem eiga að styðja starfsfólk og stuðla að öryggi þess skili ekki árangri. Starfsfólk er undir langvarandi álagi, það skortir traust í samskiptum og starfsmannavelta eykst.

 

Af hverju skiptir vinnustaðamenning máli?

Heilbrigð vinnustaðamenningÓheilbrigð vinnustaðamenning
Skapar heilbrigð og árangursrík samskiptiDregur úr árangri ferla, áætlana og stuðnings til starfsfólks og stjórnenda
Eflir samvinnuÝtir undir vantraust og sundrung
Starfsfólk leggur sig fram og helgar sig verkefnumStarfsfólk tekur ekki ábyrgð
Laðar að og heldur hæfileikaríku starfsfólkiStarfsmannavelta eykst
Vellíðan, starfsánægja og helgun eykstLíkur á streitu aukast

Traust í vinnuumhverfinu

Traust er undirstaða heilbrigðrar vinnustaðamenningar og árangurs vinnustaða. Þegar traust ríkir þá líður starfsfólki vel, það upplifir öryggi og leggur sig fram. Traust hefur einnig jákvæð áhrif á framleiðni og starfsánægju og dregur úr líkum á streitu og kulnun á vinnustöðum.

Myndbönd

Hvað er vinnustaðamenning?

  • Hér er fjallað um vinnustaðamenningu og áhrif hennar á líðan og árangur starfsfólks og vinnustaða. Fjallað er um áhrifaþætti og kosti heilbrigðrar vinnustaðamenningar og hlutverk og ábyrgð stjórnenda og starfsfólks við að skapa heilbrigt vinnuumhverfi.

Hvernig eflum við traust á vinnustöðum?

  • Hér er fjallað um traust á vinnustöðum og áhrif þess á líðan og árangur starfsfólks og vinnustaða. Fjallað er um áhrif trausts á samskipti, samvinnu og öryggi og bent á hagnýt ráð fyrir stjórnendur og starfsfólk við að efla traust.

Viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu

  • Hér er fjallað um leiðir til að fyrirbyggja einelti, áreitni og ofbeldi og viðbrögð samkvæmt áætlun um öryggi og heilbrigði ef slík mál koma upp.

Stoðefni

Kannaðu þekkingu þína á vinnustaðamenningu og trausti - taktu prófið!

Hvað veist þú um heilbrigða vinnustaðamenningu og traust í vinnuumhverfinu? Taktu prófið og fáðu upplýsandi svör.

1 / 7

Með vinnustaðamenningu er átt við þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, verkefnavinnu og við lausn mála.

Kannaðu þekkingu þína á einelti á vinnustað - taktu prófið!

Hvað veist þú um einelti á vinnustað? Taktu prófið hér að neðan og fáðu upplýsandi svör.

1 / 8

Það telst einelti þegar fólk er ósammála og fær ekki sínu framgengt í vinnunni.

Tengt efni