Þegar vinnustaður er hannaður og störf skipulögð þarf að huga að fjölbreytni bæði í vinnustellingum og hreyfingum til að draga úr hættu á álagseinkennum. Setja ætti markmið um fjölbreytni sem höfð eru að leiðarljósi þegar vinnustaðurinn er mótaður og innihald starfa ákveðið.
Skapa þarf vinnuaðstæður sem gera starfsmönnum kleift að vinna í hentugum vinnustellingum sem hægt er að aðlaga að hverjum og einum og bjóða upp á fjölbreytni.
Til að tryggja hentugar vinnustellingar þarf að sjá til þess að vinnuaðstaðan hæfi starfsfólki. Hentugri líkamsstöðu við vinnu er best lýst þannig að starfsmaðurinn getur unnið með beint bak, slakar axlir og olnbogana sem næst líkamanum, hvort sem unnið er standandi, sitjandi eða á hreyfingu. Nægt rými þarf að vera þannig að auðvelt sé að komast að verkefninu og breyta um stellingar, hvort sem unnið er sitjandi eða standandi.
Vinnuhæð þarf að taka mið af eðli verkefna, til dæmis hvort um nákvæmnisvinnu, létta vinnu eða átakavinnu er að ræða. Tæki og búnaður þurfa að vera innan seilingar og í góðri vinnuhæð þannig að starfsfólk eigi auðvelt með að vinna í hentugri líkamsstöðu. Velja þarf tæki og búnað í samráði við starfsfólk og tryggja rétta notkun og að auðvelt sé að aðlaga vinnuumhverfið mismunandi þörfum þess.
Við hönnun og skipulag vinnustöðva þarf að gera áhættumat, það er að greina og meta vinnuferla og einstaka verkþætti með tilliti til líkamlegs álags. Mikilvægt er að hugsa heildrænt og tryggja að starfsfólk geti unnið í hentugum vinnustellingum. Hafa þarf í huga hvort einn eða fleiri eigi að nota sömu vinnuaðstöðuna. Kröfur til þess að búnaður sé auðstillanlegur eykst til muna ef notendur eru fleiri. Jafnframt þarf að huga að innihaldi starfa með það að markmiði að tryggja fjölbreytni í verkefnum og líkamlegu álagi.
Við hönnun vinnustöðvar og við val á borðum og öðrum búnaði þarf að taka tillit til þeirra verkefna sem þar á að vinna og því nauðsynlegt að kanna vel þarfirnar áður en valið er. Við uppröðun búnaðar skal miða við að starfsfólk hafi þá hluti og þann búnað sem mest er unnið með innan hentugrar seilingar til að minnka líkur á teygjum og snúningi.
Tæki og búnaður þurfa að vera hönnuð þannig að hægt sé að beita góðum vinnustellingum og vinnuhreyfingum og að líkamlegt álag sem skapast við notkun þeirra sé hæfilegt. Jafnframt þarf við hönnun að taka mið af getu mannsins til þess að skynja, vinna úr og skilja upplýsingar. Það snýr til dæmis að hönnun og staðsetningu stýringa og boðmerkja á skjá.
Mikilvægt er að í boði séu tæki og búnaður sem gera ráð fyrir mismunandi getu og takmörkunum notenda. Sem dæmi hafa konur og karlar ólíkar forsendur vegna mismunar í líkamsstærð og vöðvastyrk. Við hönnun þarf jafnframt að taka tillit til notkunar tækis/búnaðar, til dæmis hvort um langvarandi og/eða tíða notkun sé að ræða.
Þegar unnið er við tölvu er mikilvægt að hægt sé að aðlaga allan búnað að starfsfólki svo það geti unnið í þægilegum stellingum. Þegar búnaður er valinn og vinnuumhverfið skipulagt skal taka tillit til þess hversu lengi er unnið við tölvuna.
Við hönnun og skipulag vinnustaða þarf að gera áhættumat, það er að greina og meta vinnuferla og einstaka verkþætti með tilliti til líkamlegs álags. Ávallt skal leitast við að gera skipulagsráðstafanir og/eða nota léttibúnað þannig að komist verði hjá því að starfsfólk þurfi að lyfta, bera, ýta og draga.
Ef ekki verður komist hjá því að handleika byrðar skal nota léttitæki og veita starfsmönnum þjálfun og fræðslu um notkun þeirra og rétta líkamsbeitingu.
Vinna í heimahúsi getur verið erfið líkamlega þar sem vinnuaðstæður eru ólíkar og ekki hannaðar með þjónustu í huga. Þjónusta sem veitt er í heimahúsi getur til dæmis verið þrif, persónuleg aðstoð, heimahjúkrun og/eða þjálfun. Oftast er einn einstaklingur að veita þessa þjónustu og misauðvelt að fá aðstoð ef þess þarf.
Stoðkerfisvandi er algengasta orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og er ein algengasta orsök örorku. Því er áríðandi að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi þess að koma í veg fyrir vinnutengdan stoðkerfisvanda í tengslum við alla vinnu.
Meðfylgjandi er samantekt góðra ráða um vinnumhverfið og líkamsbeitingu við vinnu sem ættu að gagnast öllum og er gott að minna sig reglulega á.
Vinnuumhverfið