Fara beint í efnið

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er ætlað að stuðla að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Atvinnurekendum ber að sjá til þess að áætlunin sé til staðar á öllum vinnustöðum, óháð stærð. Vinnueftirlitið kallar eftir henni í vettvangsathugunum og stafrænu eftirliti. Áætlunin felur í sér skriflegt áhættumat og skriflega áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

  • Við gerð áhættumats þarf að greina áhættur í vinnuumhverfinu sem hugsanlega geta ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks og ber að horfa heildstætt á alla þætti starfseminnar og vinnuumhverfisins. Þá er gott að styðjast við fimm meginþætti vinnuverndar, og sértæka þætti ef við á. Það fer eftir eðli starfseminnar hve fyrirferðamikill hver áhættuþáttur er í áhættumatinu.

  • Þegar áhættumat liggur fyrir er gerð áætlun um heilsuvernd og forvarnir sem fjallar um þær ráðstafanir sem þarf að grípa til svo koma megi í veg fyrir áhættuna eða draga úr henni eins og frekast er kostur.

Hér er fjallað um hreyfi- og stoðkerfi sem er einn af fimm meginþáttum vinnuverndar.

Almennt um starfstengda stoðkerfisverki

Stoðkerfisvandi er ein algengasta orsök fjarvista frá vinnu og ein af ástæðum örorku. Atvinnurekendur og starfsfólk geta í sameiningu reynt að koma í veg fyrir að vinnuaðstæður leiði til álagseinkenna og er gott að horfa til umhverfisþátta, búnaðar og líkamsbeitingar í því sambandi.

Nánar um starfstengda stoðkerfisverki.

Umhverfisþættir

Ýmsir umhverfisþættir geta haft áhrif á líkamsbeitingu við vinnu. Má þar nefna lýsingu og birtu, inniloft, gólfefni, hávaða og titring.

Nánar um umhverfisþætti.

Búnaður

Mikilvægt er að tæki og búnaður hæfi þeim verkefnum sem unnin eru og sé til þess fallinn að draga úr álagi. Með tækjum og búnaði er meðal annars átt við vinuborð, stól, tölvubúnað, handverkfæri og léttitæki.

Nánar um búnað.

Líkamsbeiting

Skapa þarf vinnuaðstæður sem gera starfsfólki kleift að vinna í hentugum vinnustellingum sem hægt er að aðlaga að hverjum og einum og bjóða upp á fjölbreytni.

Hér er meðal annars fjallað um einhæfa álagsvinnu, vinnuhæð, standandi og sitjandi vinnu, tölvuvinnu og þegar unnið er upp fyrir sig eða fyrir neðan hné.

Hér er líka að finna plaköt með góðum ráðum um líkambeitingu í mannvirkjagerð

Nánar um líkamsbeitingu.

Þegar lyfta þarf þungu

Atvinnurekandi skal gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki til að koma í veg fyrir að starfsfólk þurfi að lyfta, bera, ýta eða draga. Ef ekki verður hjá því komist skal nota léttitæki og veita starfsfólki þjálfun og fræðslu um notkun þeirra og rétta líkamsbeitingu.

Hér er fjallað um líkamlegar áskoranir við að lyfta þungu, áhættuþætti og góð ráð. Eins um þungaða einstaklinga og börn og unglinga í tengslum við að lyfta þyngdum.

Nánar um þegar lyfta þarf þungu.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið