Hoppa yfir valmynd

Tæki & vélbúnaður

Vélar og tæki eru algeng á vinnustöðum og verða að vera örugg í notkun.  Vélar og tæki  auðvelda vinnuna og auka afköst.

Vélar og tæki sem starfa rétt og eru í lagi vinna alltaf eins og eru mjög fyrirsjáanleg.

Það er auðveldara að tryggja öryggi við vélar en við flestar aðrar vinnuaðstæður. Það er hægt að gera með hlífum, skynjurum eða öðrum búnaði.

Það gilda lög og reglur um bæði nýjar og gamlar vélar. Huga þarf að öryggi véla um leið og þær eru hannaðar. Gera skal áhættumat á hönnunarstigi véla fyrir allan líftíma þeirra, það er hönnun, framleiðslu, flutning, uppsetningu, notkun, viðhald, þrif og að lokum förgun.

Nýjar vélar skulu vera CE merktar og með þeim á að fylgja samræmisyfirlýsing, þeim eiga einnig að fylgja íslenskar notkunar- og öryggisleiðbeiningar.

Gamlar vélar eiga að vera jafn öruggar og nýjar.

Dæmi um vélar eru:

  • Flóknar framleiðslulínur
  • Lyftarar
  • Borvélar
  • Vélsagir bandsagir
  • Ýmis jarðvinnutæki
  • Kranar og fleira

Ábyrgð vinnuveitanda

Vinnuveitanda ber að tryggja að vélar og tæki sem notuð eru hæfi verkinu sem á að framkvæma, séu hönnuð fyrir örugga notkun og séu búin nauðsynlegum hlífðarbúnaði þannig að starfsfólk sé varið gegn meiðslum. Einnig skal vinnuveitandi ganga úr skugga um að vélar og tæki sem notuð eru séu í samræmi við kröfur og reglugerðir sem gilda um þær eða þau.

Þá skal vinnuveitandi tryggja að starfsfólk fái þjálfun og upplýsingar um þær vélar og þau tæki sem notuð eru við vinnuna.

Framleiðandi

Framleiðandi er sá sem framleiðir vél eða tæki eða setur vélahluta saman þannig að úr verður starfræn heild.

Framleiðandinn ber ábyrgð á að búnaðurinn sé í samræmi við kröfur reglugerða og sé öruggur þegar hann er í notkun.  Honum ber að fjarlægja hættur og eða minnka þær eins og kostur er.  Einnig að veita upplýsingar um notkun og upplýsa notendur um þær hættur sem geta verið samfara notkun.  Hann þarf að skýra frá því hvaða þjálfun þurfi og hvaða persónuhlífar þarf að nota þegar vélin/tækið er í notkun. Hann skal sjá til þess að vélarnar séu CE merktar.

Innflutningsaðili/söluaðili

Innflutnings- eða söluaðila (sá aðili sem setur vélina/tækið á markað) ber að ganga úr skugga um að vélin sé hönnuð og framleidd í samræmi við lög og reglugerðir, að gefin hafi verið út samræmisyfirlýsing fyrir vélina/tækið og að henni fylgi leiðbeiningar um notkun og viðhald á íslensku.