Hoppa yfir valmynd

Umhverfisþættir

Fjölmargir umhverfisþættir geta haft áhrif á heilsu og líðan starfsfólks. Má þar nefna loftgæði, hávaða, lýsingu og fleira.

Aðbúnaður

Húsnæði vinnustaða skal innrétta á þann hátt að þar skapist öruggt og heilsusamlegast starfsumhverfi sem auðvelt er að þrífa, viðhalda og nýta á viðeigandi hátt fyrir þá starfsemi sem fer þar fram.

Starfsfólk að hlæja og spjalla í sófa á vinnustað. Kona horfir glöð og dreymin fram á veginn

Þegar vinnurými er skipulagt skal hafa hliðsjón af því starfi sem þar á að fara fram. Tyggja að allar umferðaleiðir séu greiðar og merktar eftir þörfum og að starfsfólk hafi fullnægjandi og öruggt athafnarými. Miðað er við að stærð vinnuherbergis, sem unnið er í að staðaldri meginhluta vinnudags, sé ekki undir 7 m² og sérhver starfsmaður skal að jafnaði geta notið 12 m³ loftrýmis við störf sín.

Fyrirkomulag starfsmannaðstöðu má sjá nánar í reglum um húsnæði vinnustaða hér að neðan.

Sérhver, sem ætlar að hefja rekstur fyrirtækis eða  breyta eldra fyrirtæki, skal leita umsagnar Vinnueftirlitsins um það hvort hin fyrirhugaða starfsemi sé í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Í því skyni skal hann láta stofnuninni í té sundurliðaða greinargerð með nægilegum uppdráttum yfir húsakynni og fyrirkomulag véla, tækja og annars búnaðar og öðrum upplýsingum, sem máli kunna að skipta, eftir fyrirmælum Vinnueftirlitsins.

Loftgæði innandyra

Inniloft hefur umtalsverð áhrif á starfsumhverfið.

Algengustu kvartanir vegna óþæginda í starfsumhverfi tengjast innilofti. Þessi óþægindi má oft rekja til þess hvernig húsnæðið er hannað og innréttað en til dæmis geta atriði eins og byggingarefni, stærð og dýpt rýmis, gerð og staðsetning glugga, viðhald og gerð loftræstikerfa skipt verulegu máli.

Góð loftræsting, hvort sem hún er vélræn eða með opnanlegum gluggum kemur í veg fyrir að inniloft verði starfsfólki til ama. Æskilegt er að um 15 –20 m³ af fersku lofti berist hverjum starfsmanni á klukkustund

Til þess að starfsmönnum finnist hitastig vera við hæfi þarf að vera samræmi á milli lofthita, áreynslu og klæðnaðar. Kyrrsetustörf gera meiri kröfur en önnur störf til þess að lofthiti sé við hæfi vegna þess að í kyrrsetu er fólk næmara fyrir hitabreytingum.

Skilyrði þess að fólki finnist hitastig innilofts við hæfi er að jafnvægi sé milli hitans sem myndast í líkamanum og hitans sem hann gefur frá sér.

Líkaminn gefur hita fá meðal annars með hitastreymi frá húð og fatnaði til kaldara lofts í umhverfinu, útgeislun frá húð og fatnaði á kaldari fleti í umhverfi, uppgufun á vatni frá húð og uppgufun á vatni við öndun.

Hitaframleiðsla líkamans er háð líkamlegri áreynslu. Í erfiðisvinnu er hún um það bil þrefalt meiri en í léttri vinnu.

Breytingar á hitastigi loftsins er yfirleitt það fyrsta sem fólk tekur eftir. Ef of kalt er í vinnurými bregst líkaminn við með því að auka vöðvaspennuna. Við það aukast efnaskiptin og líkamshitinn helst stöðugur. Erfiðara verður að hreyfa fingurna, vinnuhraði minnkar og hætta á mistökum eykst.

Verði of heitt í vinnurými slaknar á vöðvunum og svitamyndun eykst. Strax þegar hitinn er nokkrum gráðum yfir því sem þykir þægilegt færist drungi yfir marga. Þar með dregur bæði úr andlegri og líkamlegri færni. Líkur á mistökum, vanlíðan og höfuðverk aukast.  Hár hiti getur auk þess haft slæm áhrif á aðra þætti og almennt finnst fólki loftgæðin vera verri þegar hitinn er of hár.

Hæfilegt hitastig við kyrrsetustörf er talið vera 18°–22°C, en við störf þar sem er staðið við vinnu án mikilla hreyfinga eru þægindaviðmiðin 16°–18°C. Við sum störf getur verið krafa um lægra hitastig  vegna framleiðslunnar, en þá þarf að gera ráðstafanir fyrir starfsfólk um sérstakan klæðnað og tímamörk í kældu vinnurými.

Flestum finnst þægilegast ef hitastigið er 20 – 22°C við kyrrsetustörf en sumum hentar hærri hiti eða allt að 24°C.

Vert er að hafa í huga að fólki finnst almennt óþægilegt ef hitabreytingar yfir daginn verða meiri en 4°C. Hitabreytingar geta orðið meiri þar sem mikið er um rafknúinn búnað og þar sem hlífar eru ekki notaðar til að verjast sólarhita í gegnum rúður.

Sums staðar í vinnurými verður óþægilega kalt, til dæmis þar sem einangrun er ófullnægjandi og beint undir innstreymi lofts frá vélrænni loftræstingu. Óráðlegt er að hafa vinnusvæði úti við stóra glugga. Á veturna geta kaldar rúður valdið því að kalt loft leitar niður á við sem leiðir til dragsúgs og fótkulda.

Ef ekki er unnt að komast hjá því að hafa vinnusvæði við glugga eða útgöngudyr ætti að gera ráðstafanir sem draga úr óþægindum sem staðsetningin getur valdið, til dæmis að staðsetja færanlega ofna undir gluggum og reisa skjólveggi við útgöngudyr til að draga úr innstreymi kalds lofts, ekki síst ef hituðu lofti er veitt þangað.

Ástæðan fyrir því að dragsúgur veldur oft óþægindum er samspil hita og hreyfingar á lofti. Hreyfing á lofti er þá meiri en um það bil 0,15 m/á sekúndu við kyrrsetustarf. Loftið, sem er á hreyfingu, er kaldara en loftið í herberginu. Þetta gildir líka um hæga loftstrauma. Einnig getur verið um kuldageislun að ræða, til dæmis ef nokkur hiti berst frá fólki á kaldari fleti. Verði hann verulegur finnst fólki það vera í dragsúg enda þótt ekki sé merkjanleg hreyfing á lofti.

Dragsúgur hefur einkum áhrif á þá sem vinna kyrrsetustörf. Með tímanum getur dragsúgur valdið óþægindum í vöðvum og liðum. Auk þess getur stöðug kæling húðarinnar dregið úr viðnámsþrótti líkamans gegn ýmsum pestum.

Margt getur valdið dragsúg, meðal annars óþéttir gluggar og vanvirk loftræstikerfi. Unnt er að grípa til margra úrræða til að koma í veg fyrir dragsúg eins og að þétta dyr og glugga stilla loftræstikerfi og halda þeim vel við og hanna húsnæði á þann hátt að vinnurými séu ekki mjög stór því auðveldara er að hafa stjórn á loftgæðum í smærri rýmum.

Með loftraka er átt við hlutfallslegt magn af vatnsgufu í andrúmsloftinu. Hann er mældur og gefinn upp sem hundraðshluti þess rakamagns sem getur verið í loftinu við tiltekið hitastig. Hækki hitastig getur loftið geymt meiri vatnsgufu. Í köldu lofti er næstum engin vatnsgufa. Þess vegna mælist rakastig lágt innandyra á veturna. Kalt loft berst inn og er hitað upp, sé raka (vatnsgufu) ekki bætt í það lækkar rakastig loftsins.

Að jafnaði veldur loftraki ekki óþægindum. Þó getur lítill loftraki valdið ertingu í augum, á vörum og í öndunarfærum, einkum ef loftið er of heitt og rykugt. Auk þess stuðlar þurrt loft að myndun stöðurafmagns.

Mjög rakt inniloft getur leitt til þess að rakablettir myndast á veggjum, gluggum og í loftum sem stuðlað getur að myglumyndun. Það eykur hættu á óþægindum vegna ofnæmis og óþols.

Loftraki utandyra getur sveiflast yfir árið frá um það bil 20% hlutfallslegs raka (hR) á veturna til allt að 60%  að sumarlagi. Venjulega finnur fólk ekki fyrir rakabreytingum ef hitinn er á bilinu 20 – 22°C. Fari hitinn yfir 24°C finnst flestum loftið þungt og þvingandi ef loftrakinn er jafnframt yfir 50% hR.

Ekki hafa verið settar reglur um rakastig á vinnustöðum en flestum líður best við 30-60% hR. Til að varna of þurru eða of röku lofti ætti að halda rakastigi á bilinu 30-50% hR.  Með hækkandi hitastigi og auknu álagi við vinnu aukast áhrif loftrakans á líðan starfsmanns. Því meiri sem loftrakinn er því hærri virðist hitinn vera. Ef mikið ryk er í lofti kann það að virðast þurrt, jafnvel þegar rakinn er innan eðlilegra marka.

Þar sem rakatæki eru notuð til að auka loftraka þarf að gæta ítrasta hreinlætis, endurnýja vatn og þrífa þau reglulega til að koma í veg fyrir að frá þeim berist örverur, þar með talið sýklar og mygla. Oft líður starfsfólki betur ef það notar lítil rakatæki á skrifborðum og einstaklingsbundnum vinnustöðum en mikilvægt að halda þeim hreinum til að þau fóstri ekki örverur og óhreinindi.

Koldíoxíð (CO2) er litlaus, lyktarlaus og óeldfim lofttegund með létt sýrubragð við herbergishita. Það er aukaafurð vegna brennslu efna auk þess að myndast vegna efnaskiptaferla lífvera, svo sem fólks. Þar sem CO2 myndast við útöndun þá er styrkur þess í rýmum notaður til að gefa til kynna hvort nægjanlegu fersku lofti sé veitt inn í rýmið.

Hár styrkur koldíoxíðs (>0,1 %) getur valdið höfuðverk og þreytu en ógleði, svima og uppköstum fari hann yfir mengunarmörk (>0,5 %). Ef styrkurinn er mjög hár (>1 %) getur það leitt til meðvitundarleysis. Almennt kvartar 20% fólks fyrir þungu lofti fari styrkur CO2 yfir 1.000 ppm. Samkvæmt Byggingarreglugerð skal tryggja að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2.

Til að koma í veg fyrir eða draga úr háum styrk koldíoxíð í byggingu eða herbergi ætti að veita fersku lofti á svæðið til dæmis með því að opna.

 

VOC er skammstöfun fyrir enska hugtakið „Volatile organic compound“ og er samheiti yfir þúsundir lífrænna efnasambanda sem innihalda kolefni og eru aðallega lofttegundir við herbergishita. VOC efni eru algeng vegna notkunar á málningu, lakki, bóni, hreinsiefnum og ilmefnum en geta einnig komið frá húsgögnum, tækjum og búnaði.

Þessi rokgjörnu efni gufa auðveldlega upp og samlagast andrúmsloftinu innandyra. Algengustu VOC efnin í andrúmslofti, sem fólki stendur hætta af við innöndun eru aseton, arsenik, bensen, ethylen glycol, formaldehýð og vetnissúlfíð en mörg þeirra eru krabbameinsvaldandi.

Engin viðurkennd mengunarmörk eru til fyrir VOC eða heildarmörk rokgjarnra lífrænna efnasambanda en almennt er talið að ef styrkurinn í andrúmslofti er undir 90 pbb (parts per billion) teljist hann lágur, 90 – 150 ppb ásættanlegur, 150 – 310 ppb á mörkum þess að vera slæmur og hár ef hann fer yfir um 310 ppb.

Góð loftræsting er lykillinn að því að halda styrk þessara efna niðri.

Fíngert ryk í innilofti er flokkað í tvær gerðir, PM2.5 og PM10, en PM er enska hugtakið fyrir „particulate matter“. Það er blanda af föstum ögnum og smádropum, til dæmis ryki, óhreinindum, sóti eða reykögnum sem eru það stórar og dökkar að þær sjást með berum augum. Aðrar eru það litlar að þær er einungis hægt að greina í rafeindasmásjá.

  • PM10: Agnir sem unnt er að anda ofan í sig og eru yfirleitt 10 mikrómetrar (0,01 mm) að þvermáli og minni.
  • PM2.5: Fínar agnir sem unnt er að anda ofan í sig og eru yfirleitt 2,5 mikrómetrar (0,0025 mm) að þvermáli eða minni.

Þar sem þessar rykagnir eru það smágerðar eru auðvelt að anda þeim ofan í sig. Sumar agnir sem eru minni en 10 µg í þvermál og komast langt niður í lungu og sum jafnvel inn í blóðrásina. Agnir sem eru minni en 2,5 µg (PM2.5) í þvermál eru hættulegastar.

Mengunarmörk fyrir heildarryk er 10 mg/m3 og 5 mg/m3  fyrir örfínt ryk, samkvæmt reglugerð nr. 390/2009 um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum.

Engin viðurkennd viðmiðunarmörk innandyra eru til fyrir PM10 og PM2.5 sérstaklega en sumir framleiðendur mælitækja miða við að PM2.5 fari ekki yfir 15 µg/m³.

Góð vélræn loftræsting með hreinum síum og lofthreinsitæki stuðla að rykhreinu innilofti.

Við mælingar á innilofti er leitast við að meta hitastig og áhrif þess auk annarra umhverfisþátta. Það er ýmsum vandkvæðum bundið að mæla inniloft. Það getur gefið villandi niðurstöðu að mæla aðeins einstaka þætti, til dæmis hitastig, því að það segir lítið um heildaráhrifin. Það er til dæmis háð lofthraða, loftraka og hvaða vinna á sér stað hvort fólki finnst hitastig við hæfi.

Mikilvægt er að gera forathugun og kanna hvernig starfsfólk upplifir loftið innandyra og hvað gæti valdið óþæginum sem það kann að kvarta yfir.

Dæmi um spurningar:

  • Hvernig er hitun húsnæðisins háttað?
  • Eru rými laus við dragsúg?
  • Hversu vel er þrifið?
  • Hversu vel virkar loftræstingin?
  • Eru rými hæfileg stór?
  • Fylgir mismikil líkamleg áreynsla störfum?
  • Að hvaða marki er unnt að hafa stjórn á áhrifum innilofts þar sem störfin eru innt af hendi?

Þetta eru helstu atriðin sem atvinnurekendur, öryggisverðir, öryggistrúnaðarmenn og annað starfsfólk geta yfirleitt lagt mat á sjálfir.

Það sem talið er hér á eftir gæti komið til athugunar með sérfræðiaðstoð. Eftirfarandi loftgæðaþættir koma alltaf til skoðunar þegar ítarleg athugun á innilofti er gerð:

  • Lofthiti
  • Hitageislun
  • Lofthraði
  • Loftraki
  • Koldíoxíð (CO2)
  • Lífræn rokgjörn efnasambönd (VOC)
  • Fíngert ryk (PM2.5)

Mikilvægt er að mælitæki séu notuð í samræmi við fyrirmæli þar um og séu rétt stillt. Staðurinn, sem mælt er á, hæð frá gólfi og tími dags hafa mikil áhrif á niðurstöðurnar. Einnig þarf að kanna veður og jafnvel gera útiloftsmælingar sem geta haft áhrif á niðurstöðu mælinga á innilofti.

Staðsetning byggingar hefur sín áhrif á inniloft í henni. Séu miklar umferðargötur í nánd getur verið að ekki sé loftræst sem skyldi. Bæði kann það að stafa af mengun frá útblæstri og af ónæði sem umferðarhávaðinn veldur.

Í byggingum á slíkum stöðum skal inntaki fyrir vélræna loftræstingu komið fyrir í sem mestri hæð til þess að koma í veg fyrir vandamál í tengslum við inniloft.

Hávaði

Hávaði getur valdið varanlegu heyrnartjóni og leitt til streitu. Mikill hávaði skapar einnig aukna slysahættu. Draga verður úr hávaða á vinnustöðum ef hætta er á að hávaðinn fari yfir ákveðin mörk til að verja heyrn starfsmanna og auka öryggi þeirra.

Neðri og efri viðbragðsmörk og viðmiðunarmörk fyrir hávaða á vinnustöðum er að finna í reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum.

Neðri viðbragðsmörk eru 80 dB(A)

Ef ekki er hægt að draga úr hávaða við upptök hans skal atvinnurekandi leggja starfsfólki til heyrnarhlífar og sérstaklega ef hávaðinn er við neðri viðbragðsmörk.

Jafnframt skal hann sjá til þess að starfsmenn fái upplýsingar og viðeigandi þjálfun til varnar hávaða og framkvæmd vinnu. Starfsfólk skal eiga kost á heyrnarmælingu ef áhættumat gefur til kynna að heyrn þeirra sé hætta búin og hávaðinn er yfir þessum mörkum.

Efri viðbragðsmörk eru 85 dB(A)

Ef hávaði á vinnustað er við eða yfir efri viðbragðsmörk skal vera skylda að nota heyrnarhlífar sem persónuhlífar. Atvinnurekandi útvegar heyrnarhlífar og gerir starfsfólki grein fyrir að á vinnustaðnum eða á ákveðnum svæðum sé skylda að nota heyrnarhlífar.

Mikilvægt er að upplýsa og minna á notkun heyrnarhlífa með merkingum eða myndrænum hætti.  Atvinnurekandi skal gera ráðstafanir til að álagið fari niður fyrir skilgreind mörk, gera tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir sem byggja á áhættumati til að draga úr hávaðanum.

Þar sem hávaði er yfir efri viðbragðsmörk hefur starfsfólk rétt á heyrnarmælingu.

Viðmiðunarmörk eru 87 dB(A)

Í engum tilvikum má hávaði sem starfsmenn búa við fara yfir 87 dB(A) að jafnaði á átta stunda vinnudegi. Við mat á viðmiðunarmörkum er tekið tillit til þess hvort starfsfólk noti heyrnarhlífar eða ekki. Þessi mörk eru sett meðal annars til þess að tryggja rétt val á heyrnarhlífum og öðrum forvörnum.

Ef notkun heyrnarhlífa hefur verið skilgreind á vinnustað eða við ákveðin verk eða hávaðinn fer yfir viðmiðunarmörkin ber starfsfólki að nota heyrnarhlífar auk þess að leitast við að draga úr hávaða eins og kostur er og stuðla að því að þær ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr hávaða komi að notum.

Utanaðkomandi hávaði – lægri viðmiðunarmörk

Viðmið fyrir  utanaðkomandi hávaða á hljóðlátari vinnustöðum eru lægri og fara eftir starfseminni. Í stjórnklefum, verkstjórnarherbergjum og öðrum stöðum þar sem mikilvægt er að samræður geti átt sér stað, á utanaðkomandi hávaði ekki að vera meiri en 65 dB(A) að jafnaði á átta klukkustunda vinnudegi.

Í mat- og kaffistofum á utanaðkomandi hávaði ekki vera meiri en 60 dB(A) á meðan á notkun stendur.  Á skrifstofum og öðrum stöðum þar sem gerðar eru miklar kröfur til einbeitingar og samræður eiga að geta átt sér stað óhindrað á utanaðkomandi hávaði ekki að vera meiri en 50 dB(A) að jafnaði á átta klukkustunda vinnudegi.

Ef hávaði fer upp fyrir þessi mörk er mikilvægt að skoða uppruna hávaðans og leitast við að gera ráðstafanir til að útiloka hann með hljóðdempun eða annarri hönnun þannig að hljóðálag skapist ekki í vinnurýminu.

Best er að draga úr hávaða við upptök. Eftir því sem lausn á vandamáli vegna hávaða finnst nær hávaðavaldinum því betri telst lausnin vera. Þess vegna er besta lausnin að koma í veg fyrir að hávaðinn myndist. Síðan vinnur maður sig frá hávaðavaldinum í átt að þeim sem verða fyrir óæskilegum hávaða.

  1. Leysa vandamálið við upptök hávaðans, til dæmis laga eða lækka vélahljóð
  2. Yfirbygging hávaðavalds
  3. Skilveggir
  4. Draga úr ómtíma – minnka bergmál
  5. Stytta veru starfsmanna í hávaða – skipulag vinnunnar
  6. Heyrnarhlífar – þær eru neyðarúrræði sem notast er við á meðan leitað er annarra lausna)

Til eru tvenns konar gerðir heyrnarhlífa:

  • Eyrnatappar, sem komið er fyrir í hlust eyrans
  • Heyrnarhlífar, sem umlykja eyrað

Um leið og vinna sem valdið getur heyrnartjóni hefst, er atvinnurekandi eða fulltrúi hans, skyldugur til að sjá til þess að starfsmenn noti heyrnarhlífar. Það þýðir að jafnvel vinna í hávaða sem er innan við 85 dB(A) getur krafist notkunar heyrnarhlífa.

Heyrnarhlífar eru ekki varanleg lausn á hávaðavandamáli. Leitast skal við að dempa hávaða við upptök hans.

Ef, í vissum tilvikum, af tæknilegum eða stjórnunarlegum ástæðum er ekki hægt að lækka hávaðaálag á starfsmenn niður fyrir 85 dB(A) mörkin skal atvinnurekandi eða fulltrúi hans aðeins leyfa framkvæmd verksins ef notaðar eru heyrnarhlífar.

Ef hávaðaálag starfsmanna er 80 dB(A) eða hávaðinn er skaðlegur eða verulega truflandi þá skal atvinnurekandi leggja starfsmönnum til heyrnarhlífar. Það getur verið í tilfellum eins og þar sem mjög hávaðasöm vinna er framkvæmd í stuttan tíma eða þar sem eru kröftug slaghljóð. Starfsmenn skulu fá heyrnarhlífar í slíkum tilfellum þrátt fyrir að hávaðaálagið sé innan við 80 dB(A).

Þar sem hávaðaálag á starfsmenn fer yfir 80 dB(A) ættu starfsmenn að nota heyrnarhlífar. Að öðrum kosti eiga þeir á hættu að skaða heyrnina.

Heyrnarhlífar geta gert starfsmönnum erfitt um vik að tala saman og þannig einangrað þá frá umhverfinu. Það þarf að hafa í huga svo fyrirbyggja megi alla hugsanlega hættu vegna þess. Heyrnarhlífar sem dempa hávaðann mikið meira en þörf er á geta þannig einangrað notandann og aukið hættuna.

Atvinnurekandinn skal sjá til þess að:

  • Starfsmenn fá heyrnarhlífar við hæfi, sem valda ekki óþægindum
  • Starfsmenn fái leiðbeiningar um notkun heyrnarhlífanna og upplýsingar um hættuna af því að nota þær ekki Leiðbeiningarnar eiga að snúa að notkun/hagræðingu, þrifum og geymslu heyrnarhlífanna
  • Heyrnarhlífunum sé rétt viðhaldið

Atvinnurekandi leggur til og greiðir fyrir heyrnarhlífarnar og þær eru eign atvinnurekanda. Heyrnarhlífarnar er eftir sem áður til einstaklingsnota og aðrir eiga ekki að nota þær.

Heyrnarhlífar geta valdið óþægindum vegna hita, þrýstings, ertingu í húð og útbrota. Óþægindin geta verið einstaklingsbundin og því er mikilvægt að starfsfólk eigi kost á mismunandi gerðum heyrnarhlífa og geti þannig valið þær sem eru þægilegar en veita jafnframt góða vörn.

Starfsmaður er skyldugur að nota heyrnarhlífar ef starfið er þess eðlis að ekki er unnt að vernda heyrn starfsmanns á annan hátt.

Helstu mælingar sem gerðar eru á vinnustöðum eru eftirfarandi:

Skammtamælingar

Hljóðnema er komið fyrir sem næst eyra á starfsmanni sem ber mælirinn á sér yfir vinnudaginn, eða hluta úr vinnudegi. Niðurstöður þessara mælinga gefa mjög glögga mynd af hávaðaálagi sem viðkomandi starfsmaður verður fyrir eða jafngildishávaða miðað við átta stunda vinnudag, hávaðatoppa og jafnvel bakgrunnshávaða.

Staðbundnar mælingar

Staðbundnar mælingar eru gerðar hjá tilteknum hávaðavaldi eða á tiltekinni vinnustöð . Yfirleitt eru þessar mælingar stuttar. Mælirinn fylgir ekki starfsmanni en hafi starfsmaður fasta vinnustöð allan daginn og hávaði er tiltölulega jafn þá getur staðbundin mæling sagt til um hávaðaálag starfsmannsins.

Tíðnigreiningar

Tíðnigreiningar eru í raun staðbundnar mælingar sem mæla hávaða á mismunandi tíðnibilum. Þessar mælingar eru gerðar til að átta sig á hvort um sé að ræða hátíðni- eða lágtíðnihljóð. Oftast í þeim tilgangi að leita hentugra lausna, vegna þess að það duga ekki alltaf sömu lausnirnar gagnvart lágtíðnihávaða og hátíðnihávaða.

Ómtímamælingar

Ómtími er mælikvarði á bergmál. Eftir því sem bergmálið er meira því lengri er ómtíminn. Bergmál er í raun endurkast hljóðs og af því leiðir að hávaðinn magnast við aukið bergmál og hljóðvistin versnar.  Ómtímamælingar eru því gerðar til að meta hljóðvistina og gefa forsendur fyrir útreikningum vegna endurbóta.

Lýsing

Rétt lýsing, hvort sem er í skrifstofu- eða iðnaðarhúsnæði, er mikilvæg. Viðeigandi lýsing, án glampa eða skugga, getur dregið úr þreytu í augum og höfuðverk en einnig komið í veg fyrir atvik á vinnustað með því að auka sýnileika hluta á hreyfingu og hindrað þannig slys og óhöpp.

Í reglum um húsnæði vinnustaða og leiðbeiningum um birtutöflur eru viðmið um lýsingu á vinnustöðum og við mismunandi verkefni.

Mikilvægt er að hafa þægilega almenna lýsingu og möguleika á sérlýsingu eða auka birtustigið eftir þörfum hvers og eins.

Hættur vegna lýsingar

Þegar starfsfólk á í hættu eða kann að eiga í hættu að verða fyrir álagi vegna tilbúinnar ljósgeislunar við störf sín ber atvinnurekanda að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks vegna þeirrar geislunar.

Í reglugerð um varnir gegn álagi vegna tilbúinnar ljósgeislunar á vinnustöðum sem gildir fyrir ljósgeislun á bylgjusviðinu 100nm-1mm, það er útfjólubláa geislun, sýnilega geislun og innrauða geislun, er meðal annars fjallað um skyldur atvinnurekenda. Þar er mikilvægur þáttur gerð áhættumats.

Við gerð áhættumats á vinnustöðum vegna birtustigs þarf að skoða eftirfarandi:

  • Álag vegna ljósgeislunar, bylgjulengdarsviðs og tíma
  • Viðmiðunarmörk í reglugerð
  • Sérstaka áhættuhópa
  • Víxlverkun ljósgeislunar og efna sem hafa áhrif á ljósnæmi
  • Óbein áhrif svo sem tímabundin blinda, sprengingar eða bruni
  • Búnað til að draga úr áhrifum eða til að koma í stað hættulegs búnaðar
  • Upplýsingar úr heilsufarsskoðunum
  • Álag frá fleiri en einum ljósgeislunargjafa
  • Flokkun fyrir leysa
  • Upplýsingar frá framleiðendum

Titringur

Titringur getur valdið bæði óþægindum og varanlegum skaða.

Titringur getur verið það sem kallað er:

  •  Skeiðtitringur, eða síendurtekin hreyfing (skapast til dæmis af snúningi)
  •  Tilviljanakenndur titringur (skapast til dæmis af ferð eftir ójöfnu yfirborði)
  •  Höggtitringur (skapast til dæmis af hamarshöggi)

Í langflestum tilfellum eru titringur og áhrif hans óæskileg. Áhrifin og afleiðingarnar ráðast af útslagi, tíðni og tíma. Ef tilfærslan er mikil, ef hreyfingin er ör og ef titringurinn varir lengi þá verða áhrif og afleiðingar meiri.

Titringi er skipt í annars vegar handar- og handleggstitring og hins vegar líkamstitring.  Ástæður og afleiðingar eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða.

Algengast er að nota hröðun sem lýsingu á titringi og eru flest viðmið í reglugerðum, í hröðunareiningum, m/s2

Í reglugerð um varnir gegn álagi vegna vélræns titrings á vinnustöðum er að finna skilgreiningar og viðmið fyrir titring. Annars vegar handar- og handleggstitring og hins vegar titring um allan líkamann.

Ástæða er til að vera vakandi fyrir einkennum eins og:

  • Doði í fingrum
  • Tilfinningaleysi í fingrum og höndum
  • Tapaður kraftur eða máttleysi í höndum
  • Fingurnir hvítna vegna titringsálags en í hvíld roðna þeir með verkjatilfinningu.
  • Erfiðleikar við fínhreyfingar
  • Óþægindi og verkir vegna kulda og raka
  • Skertur gripkraftur

Þessi einkenni eru líklegri í kulda og raka og í fyrstu líklega aðeins fremst í fingrunum.

Ástæða er til að vera vakandi fyrir einkennum eins og:

  • Sjóntruflanir
  • Jafnvægistruflanir
  • Óþægindi tengd stoðkerfi líkamans
  • Verkir, streita, svefntruflanir
  • Skaði á innri líffærum

Ef unnið er viðvarandi í titringi geta áhrifin orðið varanleg.

Til að bregðast við titringi er hægt að beita ýmsum ráðum. Má þar nefna:

  • Breyttar starfsaðferðir, þar sem starfsfólk verður síður fyrir vélrænum titringi
  • Heppilegt val á vinnutækjum, sem eru vinnuvistfræðilega hönnuð og framkalla minnsta mögulegan titring með tilliti til verksins sem á að vinna,
  • Aukabúnaður, sem dregur úr áhættunni til dæmis sæti sem draga verulega úr titringi í öllum líkamanum og handföng sem draga úr því að titringur færist yfir á hendur og handleggi,
  • Viðeigandi viðhaldsáætlanir fyrir vinnutæki, vinnustað. Val á ökuleiðum og undirlag
  • Upplýsingar og þjálfun til að kenna starfsmönnum að nota vinnutæki rétt og á öruggan hátt og halda vélrænum titringi í lágmarki, einnig að skoða setstöðu og líkamsbeitingu og stillingar á sætum og jafnvel stjórntækjum.
  • Hæfilegur vinnutími með viðeigandi hvíldartímum, takmarka tímann sem starfsmenn verða fyrir titringi og draga úr titringi
  • Hlífðarfatnaður meðal annars til að verja fyrir titringi og fyrir kulda og raka
  • Hvort skaðlegra áhrifa af titringi í öllum líkamanum gæti áfram utan vinnutíma á ábyrgð vinnuveitandans
  • Sérstökum vinnuaðstæðum, svo sem lágu hitastigi

Rafsegulsvið

Stöðugt rafsvið og stöðugt segulsvið eru sjálfstæð fyrirbæri hvort um sig; annað þeirra getur verið fyrir hendi án hins. En þegar rafsvið breytist með tímanum myndast segulsvið og breytilegt segulsvið myndar líka sjálfkrafa rafsvið. Þess vegna er óhjákvæmilegt að tala um rafsegulsvið þegar sviðin breytast með tíma.

Breytilegt rafsegulsvið berst út í rúmið í kring svipað og aðrar bylgjur. Til dæmis hljóðbylgjur eða bylgjur á vatni. Það er þó frábrugðið að því leyti að  rafsegulbylgjurnar þurfa ekkert “burðarefni” eins og loft eða vatn heldur geta borist um tómarúm.

Skilgreining á rafsegulsviði samkvæmt reglugerð um varnir gegn skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs á vinnustöðum er eftirfarandi: Stöðurafsvið, stöðusegulsvið, rafsvið, segulsvið og rafsegulsvið með styrksveiflum og tíðni allt að 300 GHz.

Áhrif rafsegulsviðs

Bein lífeðlisfræðileg áhrif eru áhrif á mannslíkamann sem sannanlega eru af völdum nálægðar við rafsegulsvið.

Þar með talið:

  • Varmaáhrif, til dæmis varmaaukning í vefjum vegna orkugleypni rafsegulsviðs í vefjunum
  • Varmalaus áhrif, svo sem örvun vöðva, tauga eða skynfæra. Áhrif af þessu tagi geta haft skaðleg áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði starfsmanna sem verða fyrir þeim. Enn fremur getur örvun skynfæra leitt til skammvinnra einkenna, svo sem svima eða ljóshrifa, sem gætu valdið tímabundnum óþægindum, haft áhrif á hugsun eða aðra starfsemi heila eða vöðva og þar af leiðandi á getu starfsmanns til að vinna á öruggan hátt
  • Straumar í útlimum

Óbein áhrif eru áhrif hlutar innan rafsegulsviðs sem gæti sett öryggi og heilbrigði manna í hættu

Til dæmis:

  • Truflun í rafrænum lækningabúnaði og -tækjum, þar með talið gangráðum og öðrum ígræddum tækjum eða lækningatækjum sem eru utan á eða inni í líkamanum
  • Kasthætta af völdum járnsegulhluta í stöðusegulsviði
  • Ræsing á rafrænum kveikibúnaði (hvellhettum)
  • Eldur og sprengingar þegar kviknar í eldfimum efnum út frá neistum af völdum spansvæða eða snertistrauma eða við neistaúrhleðslu
  • Snertistraumar

Mikilvægt er að hafa í huga að þau mengunarmörk sem mælt er fyrir um í reglugerðinni ná einungis yfir vísindaleg viðurkennd sambönd beinna lífeðlisfræðilega skammtímaáhrifa og skaðlegra áhrifa rafsegulsviðs.

Reglugerðin gildir ekki um:

  • Ætluð langtímaáhrif
  • Áhættu vegna snertingar við straumleiðara

Þegar líkur eru á að starfsemi hafi í för með sér áhættu af völdum rafsegulsviðs skal atvinnurekandi meta áhrif rafsegulsviðsins sem starfsfólk verður fyrir á vinnustað og þar sem nauðsyn krefur, mæla eða reikna hve miklum skaðlegum áhrifum starfsmenn verða fyrir.

Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi leiðbeiningum um góð vinnubrögð vegna vinnu í nálægð við rafsegulsvið:

Guide for Implemenging Directive 2013/35/EU on Electromagnetic Fields

A Guide for the Safety Health and Welfare at Work (Electromagnetic Fields) Regulations 2016

Líffræðilegir skaðvaldar, erfðabreyttar örverur og erfðabreyttar lífverur

Líffræðilegir skaðvaldar eru gerlar, veirur, sveppir, aðrar örverur og tengd eiturefni þeirra sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu fólks á margvíslegan hátt, allt frá tiltölulega vægum ofnæmisviðbrögðum til alvarlegra sjúkdóma – jafnvel dauða.

Sumar lífverur, þar á meðal ýmsar gerðir af myglu finnast víða í náttúrulegu og byggðu umhverfi. Margar örverur geta smitast milli fólks (til dæmis sýklar og inflúensuveirur), annaðhvort beint eða óbeint.

Mikilvægt er að verja starfsfólk gegn líffræðilegum skaðvöldum, sérstaklega þar sem unnið er með matvæli, örverur og í landbúnaði þar sem útsetning er mikil.

Um líffræðilega skaðvalda gilda reglur um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum.

Erfðabreyttar örverur eru allar örverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun. Undir þetta falla örverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt með þeirri tækni sem greint er frá í A-hluta viðauka 1 með reglugerð um afmarkaða notkun erfðabreyttra örvera. Örverur sem hefur verið breytt með aðferðum sem fram koma í B-hluta viðauka 1 kallast ekki erfðabreyttar örverur.

Erfðabreyttar lífverur eru allar lífverur, aðrar en örverur, þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun. Undir þetta falla þær lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt með þeirri tækni sem greint er frá í 1. hluta viðauka 1 með reglugerð um notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera. Skilgreiningin nær ekki yfir aðferðir sem fram koma í 2. og 3. hluta viðauka 1.

Markmiðið er alltaf  að koma í veg fyrir heilsutjón starfsmanna sem:

  • Vinna með líffræðilega skaðvalda, erfðabreyttar örverur og erfðabreyttar lífverur
  • Verða fyrir mengun frá líffræðilegum skaðvöldum, erfðabreyttum örverum eða erfðabreyttum lífverum

Áhættumat

Þegar líkur eru á að starfsemi hafi í för með sér áhættu vegna líffræðilegra skaðvalda, erfðabreyttra örvera eða erfðabreyttra lífvera skal atvinnurekandi láta meta eðli og umfang hættunnar, það er hve mikil mengunin er og hve lengi starfsmenn verða fyrir mengun.

Að áhættumati loknu skal atvinnurekandi ákvarða til hvaða ráðstafana skuli grípa.

Hreinlæti og vernd starfsmanna

Þegar um er að ræða starfsemi þar sem heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna vinnu með líffræðilega skaðvalda, erfðabreyttar örverur eða erfðabreyttar lífverur skal atvinnurekandi tryggja að:

  • Starfsfólk borði ekki á vinnusvæðum þar sem hætta er á mengun líffræðilegra skaðvalda
  • Starfsfólk fái viðeigandi hlífðarfatnað
  • Starfsfólk hafi aðgang að fullnægjandi snyrti- og salernisaðstöðu, þar á meðal nauðsynlegum hreinsiefnum, svo sem augnhreinsivökva og sótthreinsandi efni fyrir húð
  • Allar nauðsynlegar hlífar séu geymdar og meðhöndlaðar á réttan hátt

Spurt og svarað

Reglugerð um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum gildir um hvers konar starfsemi þar sem starfsmenn eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín. Markmið hennar er að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna sem eiga á hættu eða kunna að eiga á hættu að verða fyrir álagi vegna hávaða við störf sín, einkum álagi er kann að leiða til heyrnarskaða.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar, samanber 82. grein laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vinnueftirlitið getur meðal annars krafist þess að gerðar séu mælingar á hávaða, samanber 18. grein sömu laga.

Eins og með allar aðrar hættur gildir forgangsröðun aðgerða til að koma í veg fyrir eða stýra áhættu: útilokun, að skipta út, persónuhlífar og svo framvegis. Grundvallarreglan er að gera vinnustaðinn eins hljóðlátan og mögulegt er en nota viðeigandi og fullnægjandi heyrnarhlífarnar þegar búið er að reyna eins og kostur er allt sem er tæknilega framkvæmanlegt til að takmarka hávaða.

Útilokun og stýringu hávaða má ná fram með eftirfarandi hætti:

  • Verkfræði. Til dæmis að stýra titringi með því að dempa eða herða á hlutum í hávaðavaldinum
  • Skipulagi. Til dæmis með skynsamlegum innkaupum eða með því að skipuleggja vinnu til að draga úr útsetningu starfsmanna sem eiga í hlut
  • Verndun starfsfólks. Nota viðeigandi persónuhlífar sem ætti að vera síðasta úrræðið

Valkostina er hægt að draga saman á eftirfarandi hátt:

  • Ef mögulegt er skal fjarlægja hávaða frá vinnustaðnum
  • Stýra hávaða við upptök. Með því að bera kennsl á hvað er raunverulega að valda hávaðanum og hvernig á að takast á við vandamálið
  • Með markvissu skipulagi. Til dæmis með því að koma í veg fyrir hávaða, hönnun á vinnustað eins og að einangra hávaða eða hafa viðeigandi hljóðvist innan vinnusvæðisins til að draga úr flutningi hans
  • Með einstaklingsbundnum forvörnum. Persónuhlífar ætti að nota sem bráðabirgðaráðstöfun til að draga úr hávaða ef ráðstafanirnar hér að ofan eru ekki fullnægjandi

  • Áður en starfsfólk hefur störf í hávaðasömu vinnuumhverfi  ætti að heyrnarmæla það til að staðfesta heyrnargetu viðkomandi.
  • Bjóða skal starfsfólki aðra heyrnarmælingu innan tólf mánaða frá fyrsta mælingu og endurtaka hana síðan með fimm ára millibili.
  • Starfsmenn sem verða fyrir hávaða yfir 80 dB(A) (hvort sem heyrnarhlífar eru notaðar eða ekki) geta látið kanna heyrn sína á kostnað atvinnurekanda á tveggja ára fresti. Þetta verður að fela í sér hljóðmælingu (próf á heyrnargetu).