Vinna barna og unglinga
Atvinnurekendur bera ábyrgð á að skapa ungmennum öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi og gæta þess að verkefnin sem þeim eru látin í té hæfi aldri þeirra og þroska.
Almennt er miðað við að ungmenni megi ekki vinna störf sem eru þeim líkamlega og andlega ofviða eða þar sem hætta er á að vinnan geti valdið þeim heilsutjóni. Ungmennin þurfa einnig sjálf að öðlast þekkingu á áhættuþáttum í vinnuumhverfi sem geta ógnað öryggi þeirra og heilsu og því þarf að veita þeim viðeigandi stuðning og fræðslu.
Ungu fólki er hættara við að lenda í vinnuslysum og óhöppum en hinum eldri enda oft reynslulítil og þarfnast frekari þjálfunar. Mikilvægt er að ungmenni þekki hvað einkennir góðan vinnustað þar sem stuðlað er að öryggi, heilsu og vellíðan allra aldurshópa. Þróa þarf öryggisvitund þeirra þegar frá unga aldri þannig að þau hafi bæði þekkingu og hugrekki til að bregðast við sé ekki hugað nægilega að öryggi og heilsu þeirra og annarra á vinnustað.
Hugtökin ungmenni, barn og unglingur
- Ungmenni einstaklingur undir 18 ára.
- Barn einstaklingur undir 15 ára eða einstaklingur í skyldunámi.
- Unglingur einstaklingur 15–17 ára og hefur lokið skyldunámi
Ungmenni á vinnustað
Ef ungmenni starfa á vinnustaðnum skal skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði taka mið af því. Við gerð áhættumats, sem er liður í skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði, þarf að meta sérstaklega hvaða hættur geta ógnað öryggi ungra starfsmanna.
Þá skal við val og skipulagningu starfa þeirra leggja áherslu á að líkamlegu og félagslegu öryggi þeirra og heilbrigði sé ekki hætta búin og að vinnan hafi ekki truflandi áhrif á menntun þeirra eða þroska.
Við mat á áhættu skal sérstaklega taka tillit til hættunnar sem getur stafað af reynsluleysi ungmenna og þess að þau hafa ekki náð fullum þroska. Ástæðan er sú að þau eru oft ekki í stakk búin að gera sér grein fyrir öllum áhættuþáttum í vinnuumhverfinu. Við mat á varúðarráðstöfunum skal jafnframt taka tillit til líkamlegra, lífrænna, efnafræðilegra og sálrænna áhrifa sem ungmenni geta orðið fyrir til lengri eða skemmri tíma á vinnustaðnum.
Við gerð áhættumats vegna starfa ungmenna þarf meðal annars að greina og meta:
- Hvaða verkefni ungmenni mega ekki vinna, til dæmis við hættulegar vélar og tæki, með hættuleg efni eða aðstæður sem hæfa ekki líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra
- Hvaða verkefni þau mega einungis vinna undir eftirliti
- Skipulag vinnutíma, það er daglegan og vikulegan vinnutíma, lengd vinnuvakta og frídaga
- Þörf fyrir verkstjórn og fyrirkomulag hennar
- Þörf fyrir upplýsingar, leiðbeiningar og þjálfun og hvernig því er sinnt
- Forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi
- Hvort tekið er tillit til allra þarfa ungmenna með fötlun eða sérþarfir
Á grundvelli niðurstöðu áhættumatsins þarf að meta hver viðbrögð atvinnurekanda þurfa að vera til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmennanna sem þar vinna. Atvinnurekandi kann að þurfa að bæta vinnuumhverfið með því annaðhvort að koma í veg fyrir áhættuna eða draga úr henni eins og frekast er unnt. Áætlun um forvarnir þarf að taka mið af þessu.
Þá þarf sérstaklega að gæta að eftirfarandi:
- Að hvorki sé um að ræða störf sem ungmenni mega ekki sinna né aðstæður sem hæfa ekki aldri þeirra og þroska
- Tryggja að ungmenni fái fullnægjandi kennslu og leiðbeiningar
- Eiga viðræður við fulltrúa starfsfólks, það er félagslegan trúnaðarmann og/eða öryggistrúnaðarmann, sem og ungmennin sjálf, um fyrirkomulag starfa þess
- Upplýsa foreldra og forráðamenn ungmenna um áhættu í starfi og forvarnaaðgerðir
- Tryggja að ungt starfsfólk njóti fullnægjandi heilsu– og öryggisverndar án tillits til ráðningarforms, starfshlutfalls eða ráðningartíma
Verkstjórn þegar ungmenni eru á vinnustað
Stjórnandi, til dæmis verkstjóri, þarf að tryggja að starfsfólk fari eftir þeim öryggisreglum sem gilda á vinnustaðnum ásamt því að ganga úr skugga um að starfsfólkið skilji þær og átti sig á mikilvægi þess að farið sé eftir þeim. Á þetta sérstaklega við þegar ungmenni starfa innan vinnustaðarins. Enn fremur þarf að gæta þess að stjórnandi sé orðinn 18 ára. Hann gengur ávallt á undan með góðu fordæmi og hefur nægilega innsýn í eðli starfanna.
Góð verkstjórn felst meðal annars í að:
- Meta færni nýs starfsfólks til að framkvæma starfið
- Úthluta verkefnum í samræmi við getu hvers og eins
- Upplýsa og fræða um góð vinnubrögð
- Sýna réttar vinnuaðferðir, á hægum hraða ef með þarf
- Fylgjast með frammistöðu starfsmannsins og endurtaka sýnikennsluna til að auka skilning á verkinu ef með þarf
- Koma á varúðarráðstöfunum til að koma í veg fyrir slys, til dæmis að nota öryggishlífar, girða af hættusvæði, setja starfsreglur og hafa reglubundið eftirlit
- Hlusta á ungmennin, ráðgast við þau og deila með þeim upplýsingum, til dæmis með því að láta þau aðstoða við gerð áhættumats.
Störf sem ungmenni mega ekki sinna
Þegar ungmenni eru ráðin til starfa á vinnustaði þarf bæði að gæta að eðli umræddra starfa sem og þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi á vinnustaðnum.
Reglugerð um vinnu barna og unglinga fjallar sérstaklega um störf sem ungmenni mega ekki sinna og aðstæður sem hvorki hæfa aldri þeirra né þroska. Er því mikilvægt fyrir atvinnurekendur að kynna sér þær reglur sem gilda að þessu leyti.
Vinnu barna og unglinga
Reglugerð nr. 426/1999 umÁsamt breytingum gerðum með reglugerð nr. 454/2016.
Ungmenni má til dæmis ekki ráða til starfa þar sem unnið er við hættulegar vélar, með hættuleg efni, þar sem aðstæður hæfa hvorki aldri þeirra né þroska, svo sem þegar lyfta þarf þungum byrðum, hætta er á varanlegu heilsutjóni eða við önnur hættuleg störf og verkefni.
Þó eru störf unglinga, sem eru nauðsynlegur hluti af iðn- eða starfsnámi, í flestum tilvikum undanþegin banni enda nauðsynleg til að ljúka námi.
Hættuleg tæki og verkefni
Tæki og verkefni sem eru bönnuð ungmennum samkvæmt reglugerð um vinnu barna og unglinga.
- Hraðgengar vélar með beittum hlutum svo sem: bandsagir, hjólsagir bæði fyrir tré og járn, fræsarar, heflar, brýnsluvélar og bútsagir. Einnig stingsagir, klippur og borvélar sem taka yfir 13 millimetra bor.
- Höggvélar eða vélar með hreyfingu fram og til baka og pressur svo sem: stansar, spónlímingarpressur, kantlímingarpressur og aðrar loft- eða vökvaknúnar pressur. Eins ýmis konar plaststeypuvélar, formsteypuvélar, hellusteypuvélar, plastsprautuvélar, sorppressur og fatapressur.
- Vélar með opna valsa og snigla
- Grjótmulningsvélar, stórar hakkavélar og stórar skilvindur
- Keðjusagir, kjarrsagir og trjáklippur
- Nagla- og heftibyssur með þyngd heftis eða nagla yfir 0,3 grömmum
- Háþrýstitæki til hreingerninga, málningarhreinsunar, ryðhreinsunar og þess háttar sem starfa með þrýsting yfir 70 bör
- Sláttuvélar, jarðtætarar og snjóblásarar
Ungmennum er óheimilt að stjórna vinnuvélum nema þau hafi tekið próf til að stjórna slíkum vélum.
Ungmennum er einnig almennt bannað að stjórna dráttarvélum. Undantekning er gerð fyrir unglinga 15 ára og eldri utan vega ef þeir vinna í fjölskyldufyrirtæki (til dæmis á bændabýli), og á hún einungis við ef dráttarvélin er ekki tengd öðru tæki með drifskafti.
Unglingar 16 og 17 ára mega aka dráttarvél með tengibúnaði en án drifskafts á vegum og utan vega ef þeir hafa ökuréttindi eða sérstök réttindi frá Samgöngustofu til að aka dráttarvél.
Lyftur aðrar en fólkslyftur, kranar, pallalyftur, vinnulyftur, hengiverkpallar og vindur.
Smurning, hreinsun, viðgerðir og önnur vinna við hreyfla, vélar og tæki sem eru í gangi þar sem hreyfanlegir hlutir eru aðgengilegir og geta valdið slysi.
Til dæmis högghamrar, steypuvíbratorar og þess háttar vélar.
- Vinna nærri háspennuvirkjum eða línum sem hefur í för með sér hættu á rafmagnslosti
- Suða og brennsla
- Ljósbogasuða, logsuða og logskurður
Listi yfir vélar og tæki sem 16 -17 ára unglingar mega vinna með:
- Dráttarvélar, sem eru beintengdar vögnum eða tækjum án drifskafts, enda sé viðkomandi með sérstök réttindi til að aka dráttarvél
- Lyftarar sem ekki eru vélknúnir
- Garðsláttuvélar
- Bandslípivélar og heftibyssur með þyngd heftis yfir 0,3 gr
- Bónvélar
- Vinna með háþrýstitæki með styrk þrýstings allt að 150 bör (15 Mpa)
- Flokkunarvélar og þvottavélar til dæmis fyrir kartöflur notaðar við bústörf
- Stingsagir
- Léttir rafmagnshögghamrar að hámarki í 30 mínútur á dag þegar styrkur sveiflunnar er yfir 130 dB
Listi yfir vélar og tæki sem 15 ára og eldri mega vinna með hjá fjölskyldufyrirtækjum (viðauki 1 C í reglugerð um vinnu barna og unglinga):
- Dráttarvélar sem eru beintengdar vögnum eða tækjum án drifskafts
- Garðsláttuvélar á hjólum með haldrofa þar sem stjórnandinn gengur á eftir vélinni
- Garðsláttuvél með sæti fyrir stjórnandann. Vélin skal útbúin þannig að hreyfillinn stöðvast ef stjórnandinn fer úr stjórnsætinu.
Hættuleg vinna
Óheimilt er að ráða ungmenni í störf þar sem:
- Handleika þarf þungar byrðar sem til lengri eða skemmri tíma litið geta skaðað heilbrigði þeirra og þroska. Forðast skal ónauðsynlega líkamsáreynslu ungmenna við störf, svo og rangar vinnustellingar eða hreyfingar. Forðast skal að láta ungmenni lyfta þyngri byrði en 12 kílóum. Ef aðstæður eru slæmar með tilliti til líkamsbeitingar getur það leitt til þess að hámarksþyngd verði lægri, samanber viðauka I og II í reglum um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar. Ef vinnuaðstæður eru mjög góðar má gera undantekningar frá hámarksþyngd. Ekki má láta ungmenni lyfta þyngri byrði en 25 kílóum.
- Líkamlegum eða andlegum þroska ungmenna getur verið hætta búin, svo sem vegna ofbeldis eða annarrar sérstakrar hættu, nema þau starfi með fullorðnum. Þetta á til dæmis við um störf í söluturnum, söluskálum, skyndibitastöðum, bensínstöðvum og sambærilegum stöðum þar sem verslun fer fram.
- Aðstæður hæfa ekki líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra. Dæmi um slík störf eru einstaklingsbundin ákvæðisvinna þar sem vélbúnaður ákvarðar vinnuhraðann og vinna í sláturhúsum við aflífun dýra.
- Hætta er á varanlegu heilsutjóni, til dæmis vegna:
- skaðlegrar geislunar, svo sem jónandi geislunar,
- súrefnisskorts,
- hás loftþrýstings, svo sem í háþrýstiklefum eða við köfun,
- meðhöndlun búnaðar til framleiðslu, geymslu eða notkunar á þjöppuðum, fljótandi eða uppleystum lofttegundum,
- óvenjulegra umhverfisaðstæðna, svo sem mikils kulda, hita, hávaða eða titrings,
- framleiðslu og meðhöndlun sprengiefna, til dæmis skotelda,
- tanka, keralda, geyma og flaskna sem innihalda efnafræðilega skaðvalda.
- Slysahætta er fyrir hendi og gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun. Dæmi eru störf sem fela í sér hættu á háspennustraumi, unnið er með villtum eða hættulegum dýrum eða hætta er á hruni eða að bakkar eða annað samsvarandi falli saman.
Öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar
Reglur nr. 499/1994 um
Vinnutími ungmenna 13 – 17 ára
Vinnutími ungmenna er breytilegur. Eftirfarandi tafla sýnir hver hámarks vinnutími ungmenna er þegar skólinn er starfandi og í skólaleyfum, auk upplýsinga um banntíma og hvíld.
Börn 13-14 ára | Börn 15 ára í skyldunámi | Unglingar 15-17 ára | |
---|---|---|---|
Á starfstíma skóla | 2 klst á dag, 12 klst á viku | 2 klst á dag, 12 klst á viku | 8 klst á dag, 40 klst á viku |
Utan starfstíma skóla | 7 klst á dag, 35 klst á viku | 8 klst á dag, 40 klst á viku | 8 klst á dag, 40 klst á viku |
Vinna bönnuð | Frá kl. 20 - 06 | Frá kl. 20 - 06 | Frá kl 22 - 06 |
Hvíld | 14 klst á sólarhring, 2 dagar á viku | 14 klst á sólarhring, 2 dagar á viku | 12 klst á sólarhring, 2 dagar á viku |
Ýmsar undanþágur eru gefnar frá hinum almennu reglum sem fram koma í töflunni en hægt er að finna þær undir köflunum hér á eftir.
Börn yngri en 13 ára
Vinna barna yngri en 13 ára er almennt bönnuð. Þó er heimilt að ráða börn yngri en 13 ára til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- og auglýsingastarfsemi að fengnu leyfi Vinnueftirlitsins. Haga skal vinnutíma og vinnuálagi þannig að hvorki skólaganga barnanna raskist né ógni heilbrigði og öryggi þeirra. Ávallt skal taka sérstakt tillit til aldurs og þroska þeirra við skipulagningu slíkra starfa.
Börn frá 13-14 ára
Vinna 13 og 14 ára barna er almennt bönnuð nema við þau störf sem teljast hættulaus, af léttara tagi og eru talin upp í viðauka 4 í reglugerð um vinnu barna og unglinga. Slík vinna má ekki ógna öryggi og heilbrigði barna.
- Létt fóðrun, hirðing og gæsla dýra
- Létt garðyrkjustörf (þar með talið í skólagörðum undir umsjón kennara) og við uppskerustörf án véla
- Hreinsun á rusli
- Létt fiskvinnslustörf, til dæmis létt röðun eða flokkun án véla
- Létt störf í sérverslunum og stórmörkuðum að frátalinni vinnu við greiðslukassa
- Móttaka á léttum vörum, pökkun, flokkun og röðun. Létt handavinna svo sem innpökkun á léttum vörum, að fægja eða pússa
- Minni háttar hreingerningar og leggja á borð. Flokkun og merking þvottar
- Létt handavinna við samsetningu, þó ekki lóðning, suða og vinna með hættuleg efni
- Málningarvinna og fúavörn með umhverfisvænum efnum, þó ekki sprautumálun
- Létt sendisveinastörf, til dæmis með dagblöð og auglýsingar. Sala dagblaða, blað- og póstburður
- Létt skrifstofustörf
Athuga ber að ofangreind upptalning er ekki tæmandi.
- Vinnutími á starfstíma skóla má vera tvær klukkustundir á skóladegi og tólf klukkustundir á viku þegar um er ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma.
- Vinnutími utan starfstíma skóla, svo sem í sumarleyfum, jóla- og páskaleyfum, má vera sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku
- Vinnutími barna, 14 og eldri, í starfsnámi sem er hluti af skólaskyldu, má vera allt að átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
- Börn á aldrinum 13 – 14 ára mega ekki vinna á tímabilinu frá klukkan 20.00 – 6.00
- Börn á þessum aldri þurfa að lágmarki 14 klukkustunda samfellda hvíld á sólarhring og að lágmarki tveggja daga hvíld á hverju sjö daga tímabili. Æskilegt er að dagarnir séu samfelldir ef unnt er og að jafnaði taka til sunnudaga.
Börn 15 ára eða eldri (í skyldunámi)
Vinna barna sem enn eru í skyldunámi er almennt bönnuð nema við þau störf sem teljast hættulaus af léttara tagi og talin upp í viðauka 4 í reglugerð um vinnu barna og unglinga.
Nokkrar undantekningar gilda þegar barn hefur náð 15 ára aldri.
Börn sem eru 15 ára og eldri og starfa hjá fjölskyldufyrirtæki mega vinna við ákveðnar vélar og tæki sem annars eru bönnuð.
- Dráttarvélar sem eru beintengdar vögnum eða tækjum án drifskafts
- Garðsláttuvélar á hjólum með haldrofa þar sem stjórnandinn gengur á eftir vélinni
- Garðsláttuvél með sæti fyrir stjórnandann. Vélin skal útbúin þannig að hreyfillinn stöðvast ef stjórnandinn fer úr stjórnsætinu
Störf sem eru hluti af vinnuskóla og eru unnin undir leiðsögn leiðbeinanda:
- Sláttur í görðum með vélknúinni handsláttuvél með haldrofa. Nota skal öryggisskó, heyrnarhlífar og andlitshlífar
- Sláttur með vélorfi í görðum. Nota skal öryggisskó, heyrnarhlífar og andlitshlífar
- Dreifing tilbúins áburðar með handafli
- Burður húsdýraáburðar að plöntum
- Aðstoð á gæsluvöllum og í skólagörðum
Börn sem eru 15 ára og eldri og í skyldunámi mega sinna ákveðnum störfum sem annars eru þeim bönnuð þegar umrædd störf eru nauðsynlegur hluti af iðn- og starfsnámi.
Það getur átt við störf við hættulega vélar, hættuleg verkefni og hættuleg efni. Vinnan fer þá fram undir ströngu eftirliti hæfra einstaklinga sem gæta ýtrasta öryggi.
- Létt fóðrun, hirðing og gæsla dýra
- Létt garðyrkjustörf (þar með talið í skólagörðum undir umsjón kennara) og við uppskerustörf án véla
- Hreinsun á rusli
- Létt fiskvinnslustörf, til dæmis létt röðun eða flokkun án véla
- Létt störf í sérverslunum og stórmörkuðum að frátalinni vinnu við greiðslukassa
- Móttaka á léttum vörum, pökkun, flokkun og röðun. Létt handavinna svo sem innpökkun á léttum vörum og fægja eða pússa
- Minni háttar hreingerningar og leggja á borð. Flokkun og merking þvottar
- Létt handavinna við samsetningu, þó ekki lóðning, suða og vinna með hættuleg efni
- Málningarvinna og fúavörn með umhverfisvænum efnum þó ekki sprautumálun
- Létt sendisveinastörf, til dæmis með dagblöð og auglýsingar. Sala dagblaða, blað- og póstburður
- Létt skrifstofustörf
Athuga ber að ofangreind upptalning er ekki tæmandi talin.
- Vinnutími á starfstíma skóla má vera tvær klukkustundir á skóladegi og tólf klukkustundir á viku þegar um er ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma.
- Vinnutími utan starfstíma skóla, svo sem í sumarleyfum, jóla- og páskaleyfum, er átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
- Vinnutími barna, 15 og eldri, í starfsnámi sem er hluti af skólaskyldu, má vera allt að átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
- Börn sem eru 15 ára og eldri mega ekki vinna á tímabilinu frá klukkan 20.00 – 6.00
- Börn á þessum aldri þurfa að lágmarki 14 klukkustunda samfellda hvíld á sólarhring og að lágmarki tveggja daga hvíld á hverju sjö daga tímabili. Æskilegt er að dagarnir séu samfelldir ef unnt er og að jafnaði taka til sunnudaga.
- Reglur um vinnutíma ungmenna gilda ekki um vinnu við menningar, íþrótta og auglýsingastarfsemi en þar gilda sömu reglur og fyrir fullorðna. Þó skal ávallt haga vinnutíma og vinnutilhögun þannig að skólaganga raskist ekki.
Unglingar 15 ára og eldri (eftir skyldunám)
Vinna unglinga er almennt leyfð þegar skyldunámi þeirra sleppir en reglugerð um vinnu barna og unglinga kveður á um þau störf sem þeim er óheimilt að sinna, samanber viðauka 1A, 2 og 3.
Nokkrar undantekningar gilda fyrir þennan aldurshóp unglinga.
Unglingar sem starfa hjá fjölskyldufyrirtæki, mega vinna við ákveðnar vélar og tæki sem annars eru bönnuð
- Dráttarvélar sem eru beintengdar vögnum eða tækjum án drifskafts
- Garðsláttuvélar á hjólum með haldrofa þar sem stjórnandinn gengur á eftir vélinni
- Garðsláttuvél með sæti fyrir stjórnandann. Vélin skal útbúin þannig að hreyfillinn stöðvast ef stjórnandinn fer úr stjórnsætinu
Störf sem eru hluti af vinnuskóla og eru unnin undir leiðsögn leiðbeinanda:
- Sláttur í görðum með vélknúinni handsláttuvél með haldrofa. Nota skal öryggisskó, heyrnarhlífar og andlitshlífar
- Sláttur með vélorfi í görðum. Nota skal öryggisskó, heyrnarhlífar og andlitshlífar
- Dreifing tilbúins áburðar með handafli
- Burður húsdýraáburðar að plöntum
- Aðstoð á gæsluvöllum og í skólagörðum
Unglingar mega sinna ákveðnum störfum sem annars eru þeim bönnuð þegar umrædd störf eru nauðsynlegur hluti af iðn- og starfsnámi.
Það getur átt við störf við hættulega vélar, hættuleg verkefni og hættuleg efni. Vinnan fer þá fram undir ströngu eftirliti hæfra einstaklinga sem gæta ýtrasta öryggi.
Vinnutími unglinga sem ekki eru í skyldunámi má ekki fara yfir átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
Þegar vinna unglinga er liður í verklegu eða fræðilegu námi telst sá tími sem fer í kennslu til daglegs og vikulegs vinnutíma. Ef daglegur vinnutími er lengri en fjórar klukkustundir á unglingur rétt á að lágmarki 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.
Næturvinna
Unglingar mega almennt ekki vinna á tímabilinu frá klukkan 22.00 – 6.00.
Undanþágur frá þeirri meginreglu eru eftirfarandi:
- Störf í bakaríi frá klukkan 4:00
- Störf á sölu- og veitingastöðum, kvikmynda- og leikhúsum eða við sambærilega starfsemi til klukkan 24:00
- Vinna á sjúkrastofnunum eða á sambærilegum stofnunum en heimilt er að vinna á milli klukkan 24:00 og 4:00 enda verði gætt sérstaklega að daglegum og vikulegum hvíldartíma. Unglingur skal eiga rétt á heilbrigðisskoðun vinni hann næturvinnu, frá 22.00-6.00, nema aðeins sé unnin næturvinna í undantekningartilvikum.
- Vinna við menningar, íþrótta og auglýsingastarfsemi en þar gilda sömu reglur og fyrir fullorðna. Þó skal ávallt haga vinnutíma og vinnutilhögun þannig að skólaganga raskist ekki.
Daglegur hvíldartími
Unglingur þarf að lágmarki tólf klukkustunda samfellda hvíld á sólarhring. Heimilt er að víkja frá því þegar um er að ræða vinnu sem skipt er upp yfir daginn og varir í stuttan tíma hverju sinni.
Vikulegur hvíldartími
Á hverju sjö daga tímabili skal unglingur fá að lágmarki tveggja daga hvíld. Æskilegt er að dagarnir séu samfelldir ef unnt er og að jafnaði taka til sunnudaga, nema tæknilegar og skipulagslegar ástæður réttlæta annað. Í þeim tilvikum má hvíldin þó aldrei vera styttri en 36 samfelldar stundir.
Heimilt er að víkja frá almennu reglunni um vikulegan hvíldartíma þegar um er að ræða vinnu unglinga á sjúkrastofnunum eða á sambærilegum stofnunum, störf við landbúnað, ferðamál eða við hótel- og veitingarekstur. Eins vinnu sem er skipt upp yfir daginn og fyrir því séu réttmætar ástæður. Þá þurfa unglingar að fá samsvarandi uppbótarhvíld og í síðasta lagi þannig að hann fái tvo samfellda frídaga á hverjum fjórtán dögum.
Til umhugsunar fyrir ungmenni undir 18 ára
- Fáðu upplýsingar um hættur sem geta skapast á vinnustaðnum þínum. Það getur verið óheimilt fyrir þig að starfa við vissar aðstæður. Þetta getur til dæmis átt við vinnu við vélar eða meðhöndlun varasamra efna
- Hlustaðu á líkama þinn. Ef þú tekur eftir einhverjum breytingum eins og bakverkjum eða höfuðverk er gott að kanna hvort eitthvað í vinnuumhverfinu hafi áhrif á líðan þína
- Fáðu leiðbeiningar um rétta líkamsbeitingu, hvernig stóllinn eða vinnuborðið á að vera stillt eða hvernig lýsingu er hentugast að nota
- Mörg óhöpp á vinnustöðum verða vegna óreiðu. Taktu þátt í að halda röð og reglu og lagaðu til eftir þig
- Kynntu þér vel allar öryggisreglur og leiðbeiningar sem gilda á vinnustaðnum, og tileinkaðu þér að fara eftir þeim Óheimilt er að láta ungmenni vinna við sumar vélar og vinnuaðstæður
- Notaðu þær persónuhlífar sem skylt er að nota við starf þitt
- Berðu virðingu fyrir samstarfsfólki þínu og tileinkaðu þér jákvæð samskipti
- Ekki hika við að leita aðstoðar hjá samstarfsfólki þínu sem er þér reyndara við að leysa verkefnin
- Fiktaðu ekki í vélum og tækjum sem þú kannt ekki á
- Vertu viss um að þau atvinnutæki sem þú notar séu í lagi. Ef svo er ekki láttu þá yfirmann þinn, öryggistrúnaðarmann eða öryggisvörð fyrirtækisins vita
- Hafa í huga að fá aðstoð frá öðrum eða nota lyftitæki ef þú þarft að bera eða færa þungar hluti á milli staða
- Ef engin lyftitæki eru til staðar hafðu þá bakið beint og beygðu þig í hnjánum þegar þú lyftir. Haltu byrðinni þétt upp við þig.
- Vertu með á hreinu hvar neyðarhnappur eða hnappur til að rjúfa rafstraum er á þeim tækjum sem þú þarft að nota
- Notaðu aldrei rafmagnstæki eða framlengingarsnúrur ef einangrun snúrunnar er trosnuð eða rifin. Láttu yfirmann þinn vita ef þessir hlutir eru ekki í lagi
- Farðu varlega með opinn eld.
- Kynntu þér staðsetningu eldslökkvitækja og hvernig á að nota þau
- Reyndu að fá nægan svefn því vel hvíldur starfsmaður hefur betri einbeitingu og minni hætta er á óhöppum og slysum
Kennsluefni um vinnuumhverfi fyrir ungmenni
Ungt fólk sem er að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaði þarf að þekkja hvað einkennir góðan vinnustað þar sem stuðlað er að öryggi, góðri heilsu og vellíðan starfsfólks. Með því að gera ungmenni betur í stakk búin til að gæta að eigin vellíðan og öryggi í starfi stuðlum við að aukinni sjálfbærni á vinnumarkaði.
Svo að það megi verða hefur verið útbúið samnorrænt kennsluefni sem ætlað er ungmennum á efsta stigi grunnskólans. Einnig er unnt að nýta efnið á framhaldsskólastigi. Efnið er aðgengilegt á íslensku og öðrum norðurlandatungumálum og má nálgast og hlaða niður á norden.org hér að neðan:
Markmiðið með kennsluefninu er að ungt fólk þekki hvað einkennir góðan vinnustað þar sem stuðlað er að öryggi, góðri heilsu og vellíðan starfsfólks. Áhersla er lögð á gildi forvarna en því miður eru vinnuslys algengust hjá ungu fólki.
Mikilvægt er að stuðla að öryggisvitund einstaklinga sem eru að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Það styður þá í að eiga þátt í góðri vinnustaðamenningu, þar á meðal öryggismenningu og er þá bæði átt við líkamlegt og sálfélagslegt öryggi.
Þó atvinnurekandi beri ábyrgð á því að skapa ungmennum, sem og öðrum, öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi í samræmi við lög og reglur skiptir afar miklu máli að ungmenni hafi sjálf þekkingu á áhættuþáttum í vinnuumhverfinu sem gætu ógnað öryggi þeirra og heilsu til skemmri eða lengri tíma.
Kennsluefninu er skipt upp í sex kennslustundir en hverri kennslustund fylgja myndbönd, kennsluglærur, kennsluleiðbeiningar og verkefni á öllum norðurlandamálunum. Efnið er ætlað til kennslu í efstu bekkjum grunnskóla en er öllum opið og getur jafnframt nýst á framhaldsskólastigi.
Norrænn verkefnahópur vann kennsluefnið en þar áttu sæti framhaldsskólakennari, náms- og starfsráðgjafi, sérfræðingur á sviði vinnuumhverfis og sérfræðingar í upplýsingamiðlun og greiningum. Kennsluefnið hefur verið prófað með nemendum í efstu bekkjum grunnskólans við Þekkingarakademíuna í Sundsvall í Svíþjóð.
Vinnueftirlitið hvetur skóla, forráðamenn og öll sem koma að fræðslu ungmenna til að kynna sér efnið og ræða við þau um mikilvægi vinnuverndar. Þannig má leggja grunn að því að öll komi heil heim, starfsævina á enda.
Vinna barna og unglinga - veggspjald
Til að styðja við atvinnurekendur sem hafa ungt fólk í vinnu og ungmennin sjálf hefur Vinnueftirlitið gefið út meðfylgjandi veggspjald sem byggir á reglugerð um vinnu barna og unglinga.
Þar er meðal annars fjallað um hvaða störfum börn og unglingar mega sinna eftir aldri og almennar reglur um vinnutíma þeirra á sumrin og á skólatíma.
Hægt er að prenta veggspjaldið út í A3 eða A4 og hengja upp á vinnustaðnum eða gera starfsfólki aðgengileg rafrænt.
Veggspjaldið er gefið út á íslensku, ensku og pólsku.
- Vinna barna og unglinga A3
- Vinna barna og unglinga A4
- The work of Youth A3
- The work of Youth A4
- Praca dzieci i młodzieży A3
- Praca dzieci i młodzieży A4
Spurt og svarað
Fjölskyldufyrirtæki telst vera fyrirtæki sem er í eigu einstaklinga eða einstaklings sem er skyldur eða mægður ungmenni í beinan legg eða annan legg til hliðar eða tengdur því með sama hætti vegna ættleiðingar. Til fjölskyldufyrirtækja telst þá til dæmis fyrirtæki foreldra, ömmu og afa og systkina foreldra.
Miðað er við afmælisdag.
Börn mega lyfta 8-10 kílóum og unglingar 12 kílóum.
- Barn merkir einstakling undir 15 ára aldri, eða einstakling sem er í skyldunámi.
- Unglingur merkir einstakling sem hefur náð 15 ára aldri, en er undir 18 ára aldri og ekki lengur í skyldunámi.
Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga en sú reglugerð er sett með stoð í fyrrnefndum lögum.
Aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum
Lög nr. 46/1980Vinnu barna og unglinga
Reglugerð nr. 426/1999Ásamt breytingum gerðum með reglugerð nr. 454/2016.