Hoppa yfir valmynd

Vinnuslys

Með vinnuslysi er átt við slys sem verður vegna eða við vinnu og leiðir til andláts eða heilsutjóns; líkamlegs eða andlegs.

Skrá Vinnueftirlitsins yfir vinnuslys og óhöpp

Atvinnurekanda ber skylda til að sjá til þess að vinnuslys sé tilkynnt til Vinnueftirlitsins þegar slys verður vegna eða við vinnu á vinnustað hans og starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, umfram þann dag sem slysið varð.

Vinnueftirlitið heldur skrá yfir vinnuslysin í þeim tilgangi að afla þekkingar um tíðni og orsakir slysa svo efla megi forvarnarstarf á vinnustöðum. Þess vegna er mjög mikilvægt að atvinnurekendur sinni þessari skyldu sinni en láti atvinnurekendur hjá líða að gera það getur það varðað sektum.

Vinnuslys eru alvarleg þegar starfsmaður deyr eða hann verður fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni. Dæmi um langvinnt eða varanlegt heilsutjón eru eftirfarandi:

  • Missi útlims eða hluta af útlim
  • Beinbrot eða fer úr lið
  • Meðvitundarleysi
  • Skemmdir á taugavef
  • Meiðsli á kviðarholslíffærum sem krefjast skurðaðgerðar eða önnur innvortis meiðsli
  • Brunasár eða svipuð meiðsli á húð sem krefjast húðígræðslu og frostbit
  • Augnskaði
  • Eitrun
  • Alvarlegar afleiðingar fyrir geðheilbrigði, svo sem kvíði, óeðlileg þreyta, skortur á einbeitingu, svefnörðugleikar eða miklar tilfinningasveiflur.

Mikilvægt að tilkynna slys

Þegar endanlegar afleiðingar slysa eru óljósar er mikilvægt að vinnuslysið sé engu að síður tilkynnt til Vinnueftirlitsins þar sem eðli heilsutjónsins kemur oft ekki fram fyrr en síðar.

Starfsfólk sem verður fyrir slysi við vinnu skal tilkynna það atvinnurekanda eða stjórnanda, eftir því sem við á, eins fljótt og unnt er.

Skrá atvinnurekanda yfir öll vinnuslys og óhöpp

Atvinnurekandi þarf að halda skrá yfir öll vinnuslys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til andláts eða óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga auk þess dags sem slysið varð. Einnig þarf hann að halda skrá yfir óhöpp, sem eru til þess fallin að valda slysum.

Tilgangurinn er að atvinnurekandi fái betri yfirsýn yfir þau vinnuslys og óhöpp sem verða á vinnustaðnum og geti þannig betur brugðist við til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Atvinnurekandi þarf að endurskoða áhættumatið fyrir vinnustaðinn þegar slys eða óhöpp verða eða hætta á heilsutjóni er meiri en áður hafði verið talið.

Vinnueftirlitið, öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og eftir atvikum öryggisnefndir auk viðurkenndra þjónustuaðila sem vinna fyrir atvinnurekanda skulu hafa aðgang að slysa- og óhappaskrá vinnustaðarins.

Atvinnurekandi, og þeir aðilar sem taldir eru upp hér að framan, skulu fara með persónuupplýsingar úr slysa- og óhappaskrá sem trúnaðarmál og í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Rannsókn vinnuslysa

Vinnueftirlitið rannsakar orsakir slysa, óhappa og mengunar sem tilkynnt er um á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Tilgangur rannsókna Vinnueftirlitsins er að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum. Á það bæði við á viðkomandi vinnustað sem og á öðrum vinnustöðum þar sem aðstæður eru sambærilegar.

Vinnueftirlitið rannsakar eingöngu alvarleg vinnuslys. Stofnunin metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort það telji ástæðu til að gera sérstaka vettvangskönnun en ekki er alltaf þörf á slíkri rannsókn þegar til dæmis orsakir slyss liggja fyrir.

Óheimilt er að breyta aðstæðum á slysstað umfram það sem nauðsynlegt er vegna björgunaraðgerða áður en vettvangskönnun Vinnueftirlitsins hefur farið fram.

Tölfræði

Slysaskrá Vinnueftirlitsins

Á tölfræðivef vinnuslysaskrárinnar má finna upplýsingar um staðtölur vinnuslysa beint úr slysagrunninum.

Vinsamlegast athugið að vefurinn var síðast uppfærður 1. janúar 2020 og nýrri upplýsingar því ekki með í tölfræðinni sem þar er að finna.

Spurt og svarað

Atvinnurekandi á að tilkynna vinnuslys.

Já. Þú getur farið inn á þínum rafrænu skilríkjum en þarft að breyta í fyrsta kaflanum. Taka út þína kennitölu og setja inn kennitölu fyrirtækisins.

Vinnueftirlitinu er ekki heimilt að afhenda slysatilkynningar til annara en þeirra einstaklinga sem þær fjalla um, þar sem þær innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar. Á það við þó að atvinnurekandi sem tilkynnti slysið sé sjálfur að óska eftir henni.

Sá slasaði getur sótt tilkynninguna inn á island.is.