Hoppa yfir valmynd

Áætlun um öryggi & heilbrigði

Allir atvinnurekendur bera ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað án tillits til stærðar hans. 

Hvað er áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað?

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er grunnur að góðu vinnuverndarstarfi til að stuðla að bættri vellíðan, heilsu og öryggi allra sem þar starfa.

Áætlunin á að vera lifandi skjal sem fylgt er eftir í daglegum rekstri vinnustaða. Því er mikilvægt að framsetning hennar sé skýr og aðgengileg fyrir stjórnendur og starfsfólk.  

Tilgangur áætlunarinnar er að gefa gott yfirlit yfir þær hættur sem eru á vinnustaðnum og hvernig hefur verið brugðist við þeim með forvörnum. Hún á einnig að fela í sér áætlun um frekari ráðstafanir sem þarf að grípa til innan vinnustaðar svo unnt sé að koma í veg fyrir hætturnar eða draga úr þeim eins og kostur er.  

Áætlunin skiptist í áhættumat og áætlun um heilsuvernd. 

Kynna þarf efni áætlunarinnar fyrir starfsfólki og mælt er með að vinnustaðir skoði hvort að þörf sé á að hafa hana aðgengilega á öðrum tungumálum en íslensku til að tryggja að öll á vinnustaðnum geti kynnt sér efnið. 

Mælt er með að áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sé samstarfsverkefni atvinnurekanda, stjórnenda og starfsfólks. Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað krefst færni sem atvinnurekandi, stjórnendur eða starfsfólk hefur ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar  viðurkenndra þjónustuaðila.  

Áhættumat

Áhættumat felur í sér greiningu og mat á vinnuumhverfinu með tilliti til öryggis, vellíðunar og heilsu starfsfólks ásamt samantekt á niðurstöðum áhættumatsins. Áhættumatið er kerfisbundin greining á öllum þáttum vinnuumhverfisins og flokkun áhættuþátta með tilliti til alvarleika fyrir starfsfólk. 

Nánar um áhættumat.

Áætlun um heilsuvernd

Áætlun um heilsuvernd er yfirlit yfir þær aðgerðir sem hefur verið eða þarf að grípa til á grundvelli áhættumatsins svo stuðla megi að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Það þarf bæði að taka tillit til starfa starfsfólks sem unnin eru innan hefðbundins vinnustaðar og þeirra sem unnin eru utan hans. Má þar nefna á verkstað, einkaheimili starfsfólks í fjarvinnu, einkaheimilum þjónustunotenda eða annars staðar. 

Nánar um heilsuvernd.

Við gerð áætlunar um heilsuvernd þarf að gera yfirlit yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til í samræmi við áhættumat vinnustaðarins til að bregðast við þeim áhættuþáttum sem eru í vinnuumhverfinu. Einnig þarf að setja fram tímasetta forvarnaráætlun yfir þær ráðstafanir sem grípa þarf til svo koma megi í veg fyrir eða draga úr áhættuþáttum í vinnuumhverfinu.  

Til að uppræta aðstæður eða ástand sem getur komið upp á vinnustöðum og ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks þarf að koma fram til hvaða aðgerða skuli grípa. Þar getur átt við aðgerðir til að bregðast við komi upp einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað og hvers konar efnamengun þrátt fyrir forvarnaraðgerðir. 

Lýsing á nauðsynlegum ráðstöfunum til skyndihjálpar, slökkvistarfs og rýmingar vinnustaðar þarf að koma fram í áætlun um heilsuvernd.  

Mikilvægt er að leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstaka starfsfólki.  

Mælt er með að forgangsraða úrbótum sem grípa þarf til vegna áhættu á vinnustað út frá alvarleika þeirra. Þá eru metnar líkur á því að eitthvað gerist og hversu mikið tjónið yrði raungerist hættan sem verið er að koma í veg fyrir eða draga úr. Þannig þarf að bregðast fljótt við áhættuþáttum sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir vellíðan, heilsu eða öryggi starfsfólks og miklar líkur eru á að raungerist á meðan hugsanlega er unnt að gefa sér meiri tíma til að ráðast í aðrar úrbætur sem snúa að minna alvarlegum áhættuþáttum.  

Í áætluninni þarf að koma fram lýsing á hvernig áhættunni skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, hönnun, vali á tækjum og búnaði, efnum eða efnablöndum eða notkun öryggis- og hlífðarbúnaðar.  

Alltaf þarf að skoða hvort unnt sé að koma í veg fyrir hættuna. Dæmi er að hanna vinnuumhverfið þannig að vinna í hæð verði óþörf. Sé það ekki möguleiki þarf að skoða hvernig draga megi úr áhættunni með því til dæmis að skipta út einni hættu fyrir aðra sem er síður hættuleg. Dæmi er þegar notuð eru mild og umhverfisvæn hreinsiefni í stað efna sem geta valdið starfsfólki heilsutjóni eða mengað umhverfið. Einnig getur þurft að draga úr áhættunni með forvarnaraðgerðum, svo sem að gera samskiptasáttmála á vinnustað til að koma í veg fyrir erfið samskipti sem geta leitt til eineltis, áreitni eða ofbeldis.  

Endurskoðun á áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað

Áætlun um öryggi og heilbrigði þarf að endurskoða reglulega í samvinnu atvinnurekanda, stjórnenda og starfsfólks. Þá þarf að meta hvort þær forvarnaraðgerðir sem þegar hefur verið gripið til hafi enn tilætluð áhrif til varnar þeirri áhættu sem þeim var ætlað að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum hennar. Í því tilliti þarf að hafa í huga að forvarnir geta breyst eða úreltst með tímanum.  

Ávallt þarf að endurskoða áætlunina þegar breytingar verða í vinnuumhverfinu, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum sem breyta forsendum hennar. Einnig þarf að endurskoða hana komi upp atvik eða aðstæður sem geta ógnað öryggi, heilsu eða vellíðan starfsfólks. Dæmi um slíkt eru vinnuslys, óhöpp, einelti, áreitni eða ofbeldi.