Hoppa yfir valmynd

Áætlun um öryggi & heilbrigði

Öllum atvinnurekendum ber skylda til að sjá til þess að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað án tillits til stærðar vinnustaðarins.

Hvað er áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað?

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er mikilvægur þáttur í markvissu vinnuverndarstarfi. Tilgangur hennar er að gefa gott yfirlit yfir þær hættur sem eru á vinnustaðnum og hvernig hefur verið brugðist við þeim með forvörnum. Hún inniheldur einnig áætlun um frekari ráðstafanir svo unnt sé að koma í veg fyrir hætturnar eða draga úr þeim svo sem kostur er. 

Öllum atvinnurekendum ber lagaskylda til að sjá til þess að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað án tillits til stærðar vinnustaðarins. Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsfólk hans hefur ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar viðurkenndra þjónustuaðila. 

Mikilvægt er að framsetning áætlunar sé skýr og aðgengileg fyrir stjórnendur og starfsfólk. 

Áætlunin þarf að fela í sér áhættumat, áætlun um heilsuvernd og forvarnir og eftirfylgni með úrbótum.

Áhættumat

Sem felur í sér greiningu og mat á vinnuumhverfinu með tilliti til öryggis og heilsu starfsfólks ásamt samantekt á niðurstöðum áhættumatsins. Áhættumatið er kerfisbundin greining á öllum þáttum vinnuumhverfisins og flokkun áhættuþátta með tilliti til alvarleika fyrir starfsfólk.

Nánar um áhættumat.

Áætlun um heilsuvernd og forvarnir

Í henni er skilgreind tímasett úrbótaáætlun um þær ráðstafanir sem grípa þarf til svo koma megi í veg fyrir eða draga úr skilgreindum áhættuþáttum samkvæmt áhættumatinu.

Einnig á að koma fram yfirlit yfir þær forvarnir sem hafa verið skilgreindar í vinnuverndarlögunum eða -reglugerðum, sem settar hafa verið með stoð í þeim. Má þar nefna stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustöðum og neyðaráætlun sem lýsir ráðstöfunum vegna skyndihjálpar, slökkvistarfs og rýmingar vinnustaðar. 

Nánar um heilsuvernd og forvarnir.

Eftirfylgni með úrbótum

Í henni á að koma fram hvernig og hvenær fylgja á eftir þeim úrbótum sem koma fram í áætlun um heilsuvernd og forvarnirGanga skal úr skugga um að aðrar úrbætur séu enn viðeigandi og hafi tilætluð áhrif.

Þannig verður áætlun um öryggi og heilbrigði lifandi skjal sem fylgt er eftir í daglegum rekstri vinnustaða.