Áhættumat
Að koma auga á hættur í vinnuumhverfi er ein af mikilvægustu skyldum atvinnurekanda í vinnuverndarstarfi.
Hlutverk hvers atvinnurekanda er að fylgjast stöðugt með vinnuumhverfinu á vinnustað sínum. Hann þarf að bera kennsl á þær hættur sem kunna að felast í framkvæmd vinnunnar og vinnuumhverfinu sjálfu og meta hugsanleg áhrif á öryggi og heilbrigði starfsfólks. Þannig kemst atvinnurekandinn að því hvort einhverju sé ábótavant sem þurfi lagfæringar við eða tækifæri eru til að bæta vinnuaðstæður eða skipulag.
Það að koma auga á hættur í vinnuumhverfi er ein af mikilvægustu skyldum atvinnurekanda þegar kemur að vinnuverndarstarfi. Mikilvægt er að bregðast við hættunum með því að kanna möguleikana á að fjarlægja þær eða grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Þannig má komast hjá óhöppum, slysum og vanlíðan á vinnustöðum.
Þýðingarmikið er að vel sé staðið að gerð áhættumatsins. Aðferðin sem valin er við matið þarf að hæfa bæði störfum vinnustaðarins og stærð hans. Enn fremur þarf atvinnurekandi að sjá til þess að þeir sem annist matið hafi til þess nægilega þekkingu. Skilgreint er hvernig best sé að fara reglulega yfir alla þætti þannig að tryggt sé að gripið sé til nauðsynlegra úrbóta og að árangur þeirra verði metinn.
Mikilvægt er að virkja starfsfólkið þegar gera á áhættumat eða þegar kominn er tími á að endurskoða eldra mat. Á það sérstaklega við um það starfsfólk sem falið hefur verið hlutverk í vinnuverndarstarfi vinnustaðarins, svo sem öryggisverði, öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefndir.
Gerð áhættumats
Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat. Fara þarf kerfisbundið yfir öll störf innan vinnustaðarins og meta áhættuna í hverju starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsfólks og áhættuþátta í vinnuumhverfinu.
Ýmsar aðferðir eru færar við gerð áhættumats. Taka skal mið af eðli starfseminnar, samsetningu starfsmannahópsins, stærð og skipulagi vinnustaðarins. Mikilvægt er að matið nái til allrar starfsemi vinnustaðarins, en sérstaklega skal líta til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þess starfsfólks sem sinnir þeim sé meiri hætta búin en öðru starfsfólki.
Gott er að meta áhættuna út frá fimm meginstoðum vinnuverndar:
- Efni og efnanotkun
- Félagslegt vinnuumhverfi
- Hreyfi- og stoðkerfi
- Umhverfisþættir
- Vélar og tæki
Þegar hafist er handa við að meta áhættuþætti á vinnustaðnum er mikilvægt að gefa sér ekki fyrir fram hvers konar áhættur séu fyrir hendi á vinnustaðnum. Sumar eru áberandi í starfseminni meðan erfiðara er að greina aðra áhættuþætti og getur það til dæmis átt við um félagslega vinnuumhverfið. Gæta þarf vel að mannlegri hegðun og greina við hvaða aðstæður líklegt er að starfsfólki verði á yfirsjón svo sem vegna vinnuálags, lélegra samskipta, óvenjulegra verkefna, lok vaktar eða á fyrsta vinnudegi eftir sumarorlof.
Við greiningu á áhættuþáttum má styðjast við ýmiss hjálpargögn. Þegar gerð áhættumatsins krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsfólk hans hefur ekki yfir að ráða skal leita til viðurkennds þjónustuaðila. Enda þótt atvinnurekandi njóti þjónustu viðurkennds þjónustuaðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir.
Dæmi um hjálpargögn:
Viðbrögð við niðurstöðum áhættumats
Að áhættumati loknu skal gera samantekt á niðurstöðum þess. Á grundvelli þeirra þarf að meta hver viðbrögð atvinnurekanda þurfa að vera. Atvinnurekandi kann að þurfa að bæta vinnuumhverfið með því annaðhvort að koma í veg fyrir áhættuna eða draga úr henni eins og frekast er unnt. Það þýðir að draga þarf úr áhættunni þannig að hún fullnægi að minnsta kosti lágmarkskröfum sem koma fram í lögum og reglugerðum á sviði vinnuverndar. Niðurstaðan leiðir því til þess að gerð sé áætlun um forvarnir ef ekki er unnt að grípa til ráðstafana þegar í stað.
Markmiðið er ávallt að tryggja að starfsfólk starfi við eins litla áhættu og unnt er. Þannig er það ágæt regla að sé unnt að koma alveg í veg fyrir áhættuna, svo sem með því að gera tæknilegar úrbætur eða tryggja notkun hlífa eða annarra öryggisráðstafana á vélar, ætti það ávallt að vera fyrsti kosturinn. Enn fremur þarf oft að huga vel að þjálfun og leiðsögn til starfsfólks varðandi öryggisreglur.
Endurskoðun á áhættumati
Atvinnurekandi þarf að hafa eftirlit með því hvort þær úrbætur sem hann hefur gripið til í kjölfar áhættumats hafi haft tilætluð áhrif á öryggi og heilsu starfsfólks og þá einnig hvort frekari aðgerða sé þörf. Þar getur verið nauðsynlegt að skilgreina mælikvarða til að meta áhrifin en stundum stendur fólk í þeirri trú að eitthvað sé að skila árangri sem er ef til vill ekki raunin þegar betur er að gáð.
Atvinnurekandi verður jafnframt að endurskoða áhættumatið reglulega þannig að það sé ávallt viðeigandi fyrir þær aðstæður sem eru á vinnustaðnum á hverjum tíma. Matið krefst því stöðugrar endurskoðunar og aðlögunar. Mælt er með að áhættumat sé endurskoðað árlega og jafnvel oftar þegar:
- Nýjar vinnustöðvar eru teknar í notkun
- Ytri aðstæður vinnustaðar breytast
- Nýjar vélar eða tæknilegur búnaður er tekinn í notkun
- Ný efni og efnablöndur eru teknar í notkun
- Breytingar verða á framkvæmd vinnunnar, vinnuaðferðum eða vinnsluferlum
- Óhöpp eða slys verða eða hætta á heilsutjóni er meiri en áður hafði verið talið
Einnig er mikilvægt að atvinnurekendur fylgist vel með að þær forvarnir sem eiga að vera til staðar séu enn viðeigandi og hafi tilætluð áhrif við að efla heilsu og koma í veg fyrir hættuna eða draga úr henni. Það má ekki slaka á þessum þætti enda þótt að vinnustaðurinn hafi verið öruggur um einhvern tíma. Forvarnir eldast og úreldast eins og annað.
Hlutverk starfsfólks
Mikilvægt er að starfsfólk sé reiðubúið að taka þátt í gerð áhættumats sé óskað eftir því.
Enn fremur ber starfsfólki að upplýsa atvinnurekanda, öryggisvörð eða öryggistrúnaðarmann taki það eftir einhverju á vinnustað sem getur ógnað öryggi eða heilsu starfsfólks á vinnustaðnum. Það getur átt við vinnuumhverfið sjálft, svo sem hávaða, efnanotkun eða slæma vinnuaðstöðu, öryggi véla og tækja eða þegar viðeigandi persónuhlífar eru ekki til staðar eða slitnar. Hið sama gildir þegar félagslegum þáttum er ábótavant, svo sem þegar um er að ræða erfið samskipti, baktal eða óhæfilegt vinnuálag.
Starfsfólk ber einnig ábyrgð á að takmarka áhættuna í vinnuumhverfi sínu við dagleg störf í samræmi við fyrirmæli atvinnurekanda, svo sem að fara eftir stöðlum, öryggisreglum, viðmiðum og vinnuferlum. Það á einnig við þegar hættu steðjar að enda verður það talið mögulegt og öruggt fyrir hlutaðeigandi starfsmann. Þá ber einnig að upplýsa atvinnurekanda, öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann um atvikið.