Hoppa yfir valmynd

Áætlun um heilsuvernd & forvarnir

Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna sem eru ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættuna eða draga úr henni eins og frekast er unnt til að lágmarka áhættu.

Mikilvægt er að forgangsraða aðgerðum út frá alvarleika áhættuþátta, líkum á að eitthvað gerist  og  líkum á að möguleg hætta  valdi skaða. Þannig þarf að bregðast hratt við áhættuþáttum sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsfólk og miklar líkur eru á að valdi skaða á meðan hugsanlega er unnt að gefa sér meiri tíma til að ráðast í aðrar úrbætur.

Niðurstaðan getur leitt til að gera þurfi áætlun um forvarnir þar sem úrbætur eru tímasettar og skilgreint hver ber ábyrgð á framkvæmd þeirra. Áætlunin er þannig gerð um þær aðgerðir sem grípa þarf til svo koma megi í veg fyrir eða draga úr áhrifum áhættuþátta sem þegar hefur ekki verið brugðist við.

Gæta þarf vel að því hvaða forvarnir eru nauðsynlegar til að gæta að öryggi og heilsu starfsfólks. Í áætluninni skal koma fram lýsing á hvernig áhættunni skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, hönnun og vali á tækjum og búnaði, efnum eða efnablöndum eða notkun öryggis- og hlífðarbúnaðar.

Einnig þarf að huga vel að því hvernig haganlegast er að innleiða forvarnir þannig að þær hafi tilætluð áhrif. Í sumum tilvikum tekur tíma að koma þeim á og á það sérstaklega við þegar breyta þarf öryggismenningu á vinnustaðnum svo sem viðhorfi eða hegðun.

Forvarnir geta einnig falið í sér innleiðingu öryggisstaðla, svo sem IST ISO 45001:2018, nýja vinnuferla, stefnur og viðbragðsáætlanir, svo sem stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Síðast en ekki síst þarf að fylgjast með hvort þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í beri tilætlaðan árangur en það er gert með því að skilgreina mælikvarðana og mæla svo sem fjarvistir, tíðni óhappa og slysa og kannanir um líðan starfsfólks.