Hoppa yfir valmynd

Áætlun um heilsuvernd & forvarnir

Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna og gera allar þær ráðstafanir sem honum frekast er unnt til að draga úr hættum.

Mikilvægt er að forgangsraða aðgerðum út frá alvarleika áhættuþátta, sem er metinn út frá líkum á að eitthvað gerist  og hversu mikill skaði verður ef atvikið raungerist. Þannig þarf að bregðast hratt við áhættuþáttum sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsfólk og miklar líkur eru á að gerist á meðan hugsanlega er unnt að gefa sér meiri tíma til að ráðast í aðrar úrbætur sem snúa að minna alvarlegum áhættuþáttum. 

Áætlun um úrbætur

Í áætluninni skal koma fram lýsing á hvernig áhættunni skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, hönnun, vali á tækjum og búnaði, efnum eða efnablöndum eða notkun öryggis- og hlífðarbúnaðar. Best er þó að “hanna hættuna burt” til dæmis með því að gera vinnu í hæð óþarfa eða hættulausa eða skipta út einni hættu fyrir aðra sem er síður hættuleg. Má þar nefna að nota mild og umhverfisvæn hreinsiefni í stað efna sem geta valdið skaða fyrir starfsfólk eða umhverfið. 

Liður í forvarnaáætlun vinnustað er að hafa skilgreinda stefnu um samskiptagildi vinnustaðarins og að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verði ekki liðið á vinnustaðnum. Auk þess þarf að vera viðbragðsáætlun þar sem meðal annars kemur fram hvert þolandi getur leitað telji hann sig verða fyrir einelti, áreitni, ofbeldi eða hótunum. Á það við hvort sem áreitið kemur frá samstarfsfólki, yfirmanni eða viðskiptavini. Einnig þarf að koma fram til hvaða aðgerða verði gripið í kjölfar kvörtunar.  

Nánar um félagslegt vinnuumhverfi.

Til baka í áætlun um öryggi og heilbrigði