NeyðaráætlunNeyðaráætlun
Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi skyndihjálp, slökkvistarf og brottflutning starfsfólks í samræmi við eðli starfseminnar og stærð vinnustaðarins. Er það liður í forvarnaáætlun vinnustaða.
Efni neyðaráætlunar fer ávallt eftir eðli starfseminnar og vinnuumhverfisins. Atvinnurekandi skilgreinir hvaða starfsfólki hann felur framkvæmd umræddra ráðstafana en fjöldi þeirra og þjálfun fer eftir stærð vinnustaðar og eðli starfseminnar.
Slíkar ráðstafanir felast meðal annars í því að komi upp bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsfólks á vinnustað svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, fallhættu eða sprengihættu skuli starfsemin stöðvuð eða starfsfólki gert að hverfa frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir. Atvinnurekandi skal tryggja að starfsfólk geti sjálft gripið til viðeigandi ráðstafana ef öryggi þess eða annarra er stefnt í bráða hættu.
Enn fremur skal neyðaráætlun gera ráð fyrir að sjúkrakassar séu aðgengilegir starfsfólki og annar búnaður til fyrstu hjálpar í þeim slysum sem eru dæmigerð að geti orðið miðað við eðli starfseminnar. Geymslustaðir þeirra þurfa að vera vel merktir og þess gætt að þeir séu yfirfarnir reglulega.
Atvinnurekandi skal upplýsa alla hlutaðeigandi um hver áhættan er og til hvaða aðgerða hefur verið gripið eða á að grípa til í verndarskyni.